Sólin Sólin Rís 10:23 • sest 16:05 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 25:04 • Sest 15:29 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 12:18 • Síðdegis: 25:05 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 05:51 • Síðdegis: 18:50 í Reykjavík
Sólin Sólin Rís 10:23 • sest 16:05 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 25:04 • Sest 15:29 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 12:18 • Síðdegis: 25:05 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 05:51 • Síðdegis: 18:50 í Reykjavík
LeiðbeiningarTil baka

Sendu inn spurningu

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Af hverju setti Nikulás Kópernikus fram nýja heimsmynd?

Þorsteinn Vilhjálmsson og Ívar Daði Þorvaldsson

Einhver forvitnilegasta spurningin sem saga Kópernikusar vekur er um það hvað honum gekk til að vilja setja fram nýja heimsmynd. Hefðbundin söguskoðun gefur vitaskuld það einfalda svar að þarna hafi blátt áfram verið um að ræða einarða sannleiksást og vísindalega snilli. Ýmsir fræðimenn síðari ára hafa þó viljað sjá fleiri litbrigði í myndinni en svo.

Í upphafsorðunum í Commentariolus lýsir Kópernikus því hvernig forfeður okkar leituðust við að skýra hreyfingar himintunglanna með kúlum og reglubundnum hreyfingum þeirra. Þeir gerðu sér ljóst að hægt var að láta hvaða hlut sem var hreyfast hvernig sem vera skyldi með því að setja saman reglubundnar hreyfingar með nógu mikilli útsjónarsemi.

Málverk sem sýnir Nikulás Kópernikus (1473-1543). Málverkið er frá 1580.

Kópernikus taldi þó kenningar Ptólemaíosar og annarra stjarnfræðinga um föruhnettina ekki nógu góðar. Hann taldi að þær dygðu ekki til og að „slíkt kerfi virðist hvorki nægilega altækt né heldur nægilega skynsamlegt“. Eftir að hafa gert sér grein fyrir þessum göllum eyddi hann miklum tíma í að reyna að finna betra fyrirkomulag á þeim hringjum sem föruhnettir fara eftir. Hann vildi geta reiknað út frá því öll sýnileg frávik en allir hlutar kerfisins áttu að hreyfast með jöfnum hraða um sína eigin miðju.

Síðan rifjar Kópernikus upp að ýmsir hugsuðir Forngrikkja létu sér detta í hug að jörðin hreyfðist með ýmsum hætti og nefnir meðal annarra þá Fílólaos og Heraklídes. Hann taldi sig því einnig hafa leyfi til þess að koma með sínar eigin kenningar um hreyfanleika jarðarinnar og skýrt betur snúning himinhvelanna en fyrirrennarar hans. Eftir miklar rannsóknir komst Kópernikus svo að þessari niðurstöðu:

Ef hreyfing hinna reikistjarnanna er sett í samhengi við brautarhreyfingu jarðar og reiknuð fyrir snúning hverrar reikistjörnu um sig, þá koma ekki aðeins út þau fyrirbæri sem við nú þekkjum, heldur einnig röð og stærðir allra reikistjarna og hvela, og himnarnir sjálfir tengjast þannig saman að ekki er hægt að hreyfa við neinu í einum hluta þeirra, nema rugla um leið öllum hinum pörtunum og alheiminum sem heild.

Hin fræga bók Kópernikusar Um snúninga himinhvelanna frá 1543 er að meginefni til hið mesta torf. Fyrsti kaflinn er þó undantekning en þar lýsir Kópernikus útlínum þeirrar heimsmyndar sem hann hafði sett saman til þess að hýsa jörð á hreyfingu. Kaflinn var ætlaður leikmönnum og hafði að geyma allar þær röksemdir sem hann taldi sig geta gert aðgengilegar þeim sem höfðu enga þjálfun í stjörnufræði.

Millifyrirsagnir kaflans eru þessar:

  1. Alheimurinn er hnöttóttur.
  2. Jörðin er einnig hnöttótt.
  3. Hvernig jörðin myndar eina kúlu ásamt vatninu.
  4. Hreyfing himinhnattanna er jöfn, eilíf hringhreyfing, eða samsett úr hringhreyfingum.
  5. Hæfir hringhreyfing jörðu? Hver er staða hennar?
  6. Um óravídd himnanna samanborið við stærð jarðar.
  7. Hvers vegna menn héldu til forna að jörðin væri kyrr í miðju alheimsins eins og miðpunktur.
  8. Að hvaða leyti þessar röksemdir eru ófullnægjandi og hvernig þær eru hraktar.
  9. Er hægt að eigna jörðinni ýmsar hreyfingar? Miðja alheimsins.
  10. Um röð himinhvelanna.

Í lok kaflans dregur Kópernikus saman hugmyndir sínar en þar fullyrðir hann að jörðin fari á árlegum snúningi um sólina. Miðja alheimsins sé þannig í grennd við sólina en allar sýndarhreyfingar hennar stafi af hreyfingu jarðar. Hann telur þetta mun skynsamari kenningu en þær sem gera ráð fyrir jörðinni sem miðju alheimsins en þeir sem aðhyllast hana þurfa að gera ráð fyrir fjölmörgum hnöttum til þess að útskýra hreyfingar himintunglanna. Kópernikus lýsir hlutverki sólarinnar og stöðu hennar á mjög ljóðrænan hátt en hann segir:

Í miðju allra hvelanna situr sólin á tignarstóli. Hver gæti fundið þessum ljósgjafa nokkurn annan eða betri stað í þessu glæsta musteri en einmitt þennan, þaðan sem hún getur lýst um allan heim í einni svipan? Hún hefur með réttu verið kölluð lampi, hugur og stjórnandi alheimsins... Þannig situr sólin sem í konunglegu hásæti og stjórnar fjölskyldu sinni, reikistjörnunum, sem hringsnúast í kringum hana.

Teikning af sólmiðjukerfi úr handriti eftir Kópernikus. Handritið er frá því um 1520-1541.

Kópernikus segir jafnframt að aðeins sé hægt að útskýra hreyfingar hinna hnattanna ef gert er ráð fyrir því að jörðin hreyfist en ekki sólin. Sú staðreynd að ekki er hægt að sjá svipaðar hreyfingar á sólinni staðfestir kenningu hans um að sólin sé fastastjarna. Það er því reginmunur á reikistjörnum og fastastjörnum, hlutum sem hreyfast og þeim sem hreyfast ekki.

Það er ljóst að Kópernikus var þrátt fyrir allt barn síns tíma. Þegar bók hans er lesin sést að honum gekk ýmislegt fleira til en það sem nú á dögum er fellt undir sannleiksást, skynsemi eða vísindaleg vinnubrögð. Raunar er þá rétt að hafa í huga að á þessum tíma voru aðferðir vísindanna fjarri því að vera eins fastmótaðar og þær eru nú.

Heimildir:
  • Kópernikus, Nikulás, 1985. Complete Works, Vol. 3: Minor Works. Ensk þýðing Edward Rosen með Erna Hilfstein. London: MacMillan.
  • Kópernikus, Nikulás, 1992. Complete Works, Vol. 2: On the Revolutions. Ensk þýðing og athugasemdir eftir Edward Rosen, nýr inngangur eftir Erna Hilfstein. London: MacMillan og Polish Science Publications. [Endurprentun á útgáfu frá 1978].
  • Þorsteinn Vilhjálmsson, 1986. Heimsmynd á hverfanda hveli I. Reykjavík: Mál og menning. [Þetta svar er að miklu leyti byggt á þessari bók].

Myndir:

Höfundar

Þorsteinn Vilhjálmsson

prófessor emeritus, ritstjóri Vísindavefsins 2000-2010 og ritstjóri Evrópuvefsins 2011

Ívar Daði Þorvaldsson

M.Sc. í hugbúnaðarverkfræði og fyrrverandi starfsmaður Vísindavefsins

Útgáfudagur

23.1.2017

Spyrjandi

Magdalena Katrín Sveinsdóttir, f. 1994

Tilvísun

Þorsteinn Vilhjálmsson og Ívar Daði Þorvaldsson. „Af hverju setti Nikulás Kópernikus fram nýja heimsmynd?“ Vísindavefurinn, 23. janúar 2017, sótt 23. nóvember 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=60204.

Þorsteinn Vilhjálmsson og Ívar Daði Þorvaldsson. (2017, 23. janúar). Af hverju setti Nikulás Kópernikus fram nýja heimsmynd? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=60204

Þorsteinn Vilhjálmsson og Ívar Daði Þorvaldsson. „Af hverju setti Nikulás Kópernikus fram nýja heimsmynd?“ Vísindavefurinn. 23. jan. 2017. Vefsíða. 23. nóv. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=60204>.

Chicago | APA | MLA

Senda grein til vinar

=

Af hverju setti Nikulás Kópernikus fram nýja heimsmynd?
Einhver forvitnilegasta spurningin sem saga Kópernikusar vekur er um það hvað honum gekk til að vilja setja fram nýja heimsmynd. Hefðbundin söguskoðun gefur vitaskuld það einfalda svar að þarna hafi blátt áfram verið um að ræða einarða sannleiksást og vísindalega snilli. Ýmsir fræðimenn síðari ára hafa þó viljað sjá fleiri litbrigði í myndinni en svo.

Í upphafsorðunum í Commentariolus lýsir Kópernikus því hvernig forfeður okkar leituðust við að skýra hreyfingar himintunglanna með kúlum og reglubundnum hreyfingum þeirra. Þeir gerðu sér ljóst að hægt var að láta hvaða hlut sem var hreyfast hvernig sem vera skyldi með því að setja saman reglubundnar hreyfingar með nógu mikilli útsjónarsemi.

Málverk sem sýnir Nikulás Kópernikus (1473-1543). Málverkið er frá 1580.

Kópernikus taldi þó kenningar Ptólemaíosar og annarra stjarnfræðinga um föruhnettina ekki nógu góðar. Hann taldi að þær dygðu ekki til og að „slíkt kerfi virðist hvorki nægilega altækt né heldur nægilega skynsamlegt“. Eftir að hafa gert sér grein fyrir þessum göllum eyddi hann miklum tíma í að reyna að finna betra fyrirkomulag á þeim hringjum sem föruhnettir fara eftir. Hann vildi geta reiknað út frá því öll sýnileg frávik en allir hlutar kerfisins áttu að hreyfast með jöfnum hraða um sína eigin miðju.

Síðan rifjar Kópernikus upp að ýmsir hugsuðir Forngrikkja létu sér detta í hug að jörðin hreyfðist með ýmsum hætti og nefnir meðal annarra þá Fílólaos og Heraklídes. Hann taldi sig því einnig hafa leyfi til þess að koma með sínar eigin kenningar um hreyfanleika jarðarinnar og skýrt betur snúning himinhvelanna en fyrirrennarar hans. Eftir miklar rannsóknir komst Kópernikus svo að þessari niðurstöðu:

Ef hreyfing hinna reikistjarnanna er sett í samhengi við brautarhreyfingu jarðar og reiknuð fyrir snúning hverrar reikistjörnu um sig, þá koma ekki aðeins út þau fyrirbæri sem við nú þekkjum, heldur einnig röð og stærðir allra reikistjarna og hvela, og himnarnir sjálfir tengjast þannig saman að ekki er hægt að hreyfa við neinu í einum hluta þeirra, nema rugla um leið öllum hinum pörtunum og alheiminum sem heild.

Hin fræga bók Kópernikusar Um snúninga himinhvelanna frá 1543 er að meginefni til hið mesta torf. Fyrsti kaflinn er þó undantekning en þar lýsir Kópernikus útlínum þeirrar heimsmyndar sem hann hafði sett saman til þess að hýsa jörð á hreyfingu. Kaflinn var ætlaður leikmönnum og hafði að geyma allar þær röksemdir sem hann taldi sig geta gert aðgengilegar þeim sem höfðu enga þjálfun í stjörnufræði.

Millifyrirsagnir kaflans eru þessar:

  1. Alheimurinn er hnöttóttur.
  2. Jörðin er einnig hnöttótt.
  3. Hvernig jörðin myndar eina kúlu ásamt vatninu.
  4. Hreyfing himinhnattanna er jöfn, eilíf hringhreyfing, eða samsett úr hringhreyfingum.
  5. Hæfir hringhreyfing jörðu? Hver er staða hennar?
  6. Um óravídd himnanna samanborið við stærð jarðar.
  7. Hvers vegna menn héldu til forna að jörðin væri kyrr í miðju alheimsins eins og miðpunktur.
  8. Að hvaða leyti þessar röksemdir eru ófullnægjandi og hvernig þær eru hraktar.
  9. Er hægt að eigna jörðinni ýmsar hreyfingar? Miðja alheimsins.
  10. Um röð himinhvelanna.

Í lok kaflans dregur Kópernikus saman hugmyndir sínar en þar fullyrðir hann að jörðin fari á árlegum snúningi um sólina. Miðja alheimsins sé þannig í grennd við sólina en allar sýndarhreyfingar hennar stafi af hreyfingu jarðar. Hann telur þetta mun skynsamari kenningu en þær sem gera ráð fyrir jörðinni sem miðju alheimsins en þeir sem aðhyllast hana þurfa að gera ráð fyrir fjölmörgum hnöttum til þess að útskýra hreyfingar himintunglanna. Kópernikus lýsir hlutverki sólarinnar og stöðu hennar á mjög ljóðrænan hátt en hann segir:

Í miðju allra hvelanna situr sólin á tignarstóli. Hver gæti fundið þessum ljósgjafa nokkurn annan eða betri stað í þessu glæsta musteri en einmitt þennan, þaðan sem hún getur lýst um allan heim í einni svipan? Hún hefur með réttu verið kölluð lampi, hugur og stjórnandi alheimsins... Þannig situr sólin sem í konunglegu hásæti og stjórnar fjölskyldu sinni, reikistjörnunum, sem hringsnúast í kringum hana.

Teikning af sólmiðjukerfi úr handriti eftir Kópernikus. Handritið er frá því um 1520-1541.

Kópernikus segir jafnframt að aðeins sé hægt að útskýra hreyfingar hinna hnattanna ef gert er ráð fyrir því að jörðin hreyfist en ekki sólin. Sú staðreynd að ekki er hægt að sjá svipaðar hreyfingar á sólinni staðfestir kenningu hans um að sólin sé fastastjarna. Það er því reginmunur á reikistjörnum og fastastjörnum, hlutum sem hreyfast og þeim sem hreyfast ekki.

Það er ljóst að Kópernikus var þrátt fyrir allt barn síns tíma. Þegar bók hans er lesin sést að honum gekk ýmislegt fleira til en það sem nú á dögum er fellt undir sannleiksást, skynsemi eða vísindaleg vinnubrögð. Raunar er þá rétt að hafa í huga að á þessum tíma voru aðferðir vísindanna fjarri því að vera eins fastmótaðar og þær eru nú.

Heimildir:
  • Kópernikus, Nikulás, 1985. Complete Works, Vol. 3: Minor Works. Ensk þýðing Edward Rosen með Erna Hilfstein. London: MacMillan.
  • Kópernikus, Nikulás, 1992. Complete Works, Vol. 2: On the Revolutions. Ensk þýðing og athugasemdir eftir Edward Rosen, nýr inngangur eftir Erna Hilfstein. London: MacMillan og Polish Science Publications. [Endurprentun á útgáfu frá 1978].
  • Þorsteinn Vilhjálmsson, 1986. Heimsmynd á hverfanda hveli I. Reykjavík: Mál og menning. [Þetta svar er að miklu leyti byggt á þessari bók].

Myndir:

...