Sólin Sólin Rís 10:17 • sest 16:10 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 21:40 • Sest 15:54 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 10:12 • Síðdegis: 22:46 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 03:46 • Síðdegis: 16:36 í Reykjavík
Sólin Sólin Rís 10:17 • sest 16:10 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 21:40 • Sest 15:54 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 10:12 • Síðdegis: 22:46 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 03:46 • Síðdegis: 16:36 í Reykjavík
LeiðbeiningarTil baka

Sendu inn spurningu

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Hversu sannsöguleg er myndin Amadeus sem fjallar um ævi Mozarts?

Árni Heimir Ingólfsson

Leikritið Amadeus eftir Peter Shaffer var frumsýnt í Lundúnum 1979 og fimm árum síðar var gerð eftir því kvikmynd sem vakti mikla athygli og vann meðal annars til átta Óskarsverðlauna.

Bæði leikritið og kvikmyndin byggja að mörgu leyti á ævi tónskáldsins Wolfgangs Amadeusar Mozarts. Shaffer tekur sér þó einnig víða skáldaleyfi, sem eðlilegt er, og sjálfur sagði hann eitt sinn í viðtali að myndin væri „fantasía byggð á staðreyndum“. Í heildina má segja að umgjörðin og fjöldi smáatriða séu sagnfræðilega nokkuð trúverðug, á meðan nokkur burðaratriði í atburðarásinni eru skáldskapur.

Kvikmyndin Amadeus hefst á því að Antonio Salieri, fyrrum hirðtónskáld í Vínarborg, reynir að binda enda á líf sitt og játar að hann hafi verið valdur að dauða Mozarts. Jafnvel má segja að Salieri sé í raun aðalpersóna myndarinnar, og að drifkrafturinn í henni sé glíma Salieris við æðri máttarvöld, sem hann hefur heitið fullum tryggðum í skiptum fyrir snilligáfu á sviði tónlistar. Salieri tekur sárt að horfa upp á ótvíræða yfirburði Mozarts, sem hegðar sér oft eins og ofvaxið barn, og þykir Guð hafa svikið sig með því að útdeila snilligáfunni með þessum hætti.

Engar líkur eru á að Salieri hafi átt nokkurn þátt í dauða Mozarts. Sögusagnir um að ekki hafi allt verið með felldu komust hins vegar á kreik strax eftir lát þess síðarnefnda. Líkið var sagt hafa bólgnað mjög og var það talið grunsamlegt, auk þess sem Konstanza, ekkja Mozarts, sagði tónskáldið sjálft hafa grunað síðustu vikurnar sem það lifði að einhver reyndi að eitra fyrir sér.

Um 1820 var farið að nefna hinn aldna Salieri í þessu sambandi og var orðrómurinn á hvers manns vörum í Vínarborg og víðar. Shaffer var ekki fyrstur til að notfæra sér þetta sem efnivið. Rússneska þjóðskáldið Alexander Púshkin orti til dæmis ljóðið „Mozart og Salieri“ árið 1830, og 1898 samdi Nikolai Rimskí-Korsakov kammeróperu sem byggir á því. Salieri neitaði þó ávallt sök, og engar heimildir hafa síðan komið í ljós sem gefa annað í skyn.


Í þessu skoti úr kvikmyndinni sést Salieri aðstoða Mozart, á dánarbeði hins síðarnefnda, við að semja sálumessu. Í raunveruleikanum var það nemandi Mozarts, Franz Xavier Süssmayr, sem fullgerði sálumessu hans en þó ekki fyrr en eftir andlát tónskáldsins; engar heimildir eru um að þeir hafi starfað saman að verkinu á meðan Mozart var enn á lífi.

Til að gefa Salieri aukið vægi í myndinni hefur öðrum lykilpersónum í ævi Mozarts síðasta árið sem hann lifði verið skeytt saman við persónu Salieris. Salieri bað til dæmis ekki Mozart um að semja fyrir sig sálumessu, heldur var það greifi að nafni Franz Walsegg, sem hugðist láta flytja hana undir eigin nafni til minningar um eiginkonu sína sem var nýlátin.

Salieri aðstoðaði heldur ekki Mozart við að semja sálumessuna á dánarbeði, heldur Franz Xavier Süssmayr, nemandi Mozarts. Engar beinar heimildir eru heldur til um meinta óvild Salieris, sem meðal annars stjórnaði flutningi á nokkrum messum Mozarts skömmu fyrir andlát hans. Þá nefnir Mozart í síðasta bréfi sínu sem varðveist hefur að hann hafi sótt Salieri og söngkonuna Caterinu Cavalieri í vagni sínum og boðið þeim á sýningu á Töfraflautunni. „Þú getur varla gert þér í hugarlund... hve hrifin þau voru... Hann fylgdist með af mestu gaumgæfni og var ekkert atriði, frá fyrstu tónum forspilsins að síðasta kóratriðinu, sem þau kölluðu ekki „bravo“ eða „bello“ fyrir“ (ísl. þýð. ÁK).

Auk þessa er hægt að telja til fjölda smáatriða í myndinni sem ekki eru í samræmi við staðreyndir. Mozart og Salieri stjórna hljómsveitum með nútíma stjórnunartækni, sem tók ekki að mótast fyrr en á 19. öld. Engar heimildir eru fyrir því að Mozart hafi hegðað sér ósæmilega við hirðir Jósefs II eða í viðurvist Colloredos erkibiskups. Jósef II keisara hefur varla þótt óviðeigandi að sögusvið óperunnar Die Entführung aus dem Serail væri tyrkneskt kvennabúr, þar sem fjöldi tónskálda í Vínarborg hafði þegar samið slíkar óperur (þeirra á meðal Gluck 1764 og Jommelli 1768). Engar heimildir eru fyrir því að Konstanza hafi sýnt Salieri handrit eiginmanns síns eða biðlað til hans á annan hátt. Varla hefur snjóað þegar Mozart samdi Töfraflautuna, sumarið 1791. Þá skildi Mozart eftir sig tvo syni (Karl og Franz Xavier), ekki einn eins og myndin gefur í skyn.


Í Amadeus sjást Mozart og Salieri stjórna hljómsveitum með nútíma stjórnunartækni, en hún tók ekki að mótast fyrr en á 19. öld.

Þrátt fyrir þetta dregur Amadeus oft upp raunsæja mynd af Mozart sjálfum og tónlistargáfum hans. Handrit hans eru, eins og Salieri nefnir, yfirleitt laus við breytingar og leiðréttingar af þeim toga sem oftast má finna hjá öðrum tónskáldum. Þótt persóna Mozarts í myndinni kunni að vera nokkuð ýkt er hún kannski ekki fjarri lagi. Bréf Mozarts til frænku sinnar, Maríu Önnu Theklu (þau voru bræðrabörn) sanna að Mozart hafði óvenju klúra kímnigáfu og hafði gaman af tvíræðum orðaleikjum.

Í nýlegri ævisögu hefur tónlistarfræðingurinn Maynard Solomon fært rök fyrir því að barnaskap Mozarts á fullorðinsárum megi rekja til mikils álags í æsku og erfiðleika í samskiptum hans við föður sinn. Árið 1992 birtist grein eftir lækninn Benjamin Simkin í British Medical Journal þar sem hann velti fyrir sér hvort Mozart hafi hugsanlega haft Tourette-heilkenni. Engin leið er þó að svara því með vissu án frekari heimilda.

Það liggur í hlutarins eðli að þegar kvikmynd er byggð á ævi listamanns þarf ýmsu að breyta og annað þarf að fella burt. Kvikmynd er ekki sagnfræði, en fyrir þá sem vilja kynna sér ævi Mozarts nánar má benda á margar góðar ævisögur sem ritaðar hafa verið á undanförnum árum. Það sem skiptir mestu máli þegar upp er staðið er að myndin hefur kynnt Mozart og tónlist hans fyrir milljónum kvikmyndagesta og þannig vakið áhuga manna á að fræðast nánar um hann, eins og þessi spurning ber einmitt vott um.

Frekara lesefni á Vísindavefnum

Helstu heimildir og mynd

  • Jane Perry-Camp. Amadeus and Authenticity. Eighteenth-Century Life 9 (1984), 116-119.
  • Robert L. Marshall. Film as Musicology: Amadeus. Musical Quarterly 81 (1997), 173-179.
  • Maynard Solomon. Mozart – A Life. New York: HarperCollins, 1995.
  • Myndirnar eru fengnar af síðunni Amadeus. Adoro Cinema.

Höfundur

Árni Heimir Ingólfsson

tónlistarfræðingur

Útgáfudagur

14.6.2006

Síðast uppfært

26.3.2018

Spyrjandi

Páll Ingvarsson

Tilvísun

Árni Heimir Ingólfsson. „Hversu sannsöguleg er myndin Amadeus sem fjallar um ævi Mozarts?“ Vísindavefurinn, 14. júní 2006, sótt 21. nóvember 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=6015.

Árni Heimir Ingólfsson. (2006, 14. júní). Hversu sannsöguleg er myndin Amadeus sem fjallar um ævi Mozarts? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=6015

Árni Heimir Ingólfsson. „Hversu sannsöguleg er myndin Amadeus sem fjallar um ævi Mozarts?“ Vísindavefurinn. 14. jún. 2006. Vefsíða. 21. nóv. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=6015>.

Chicago | APA | MLA

Senda grein til vinar

=

Hversu sannsöguleg er myndin Amadeus sem fjallar um ævi Mozarts?
Leikritið Amadeus eftir Peter Shaffer var frumsýnt í Lundúnum 1979 og fimm árum síðar var gerð eftir því kvikmynd sem vakti mikla athygli og vann meðal annars til átta Óskarsverðlauna.

Bæði leikritið og kvikmyndin byggja að mörgu leyti á ævi tónskáldsins Wolfgangs Amadeusar Mozarts. Shaffer tekur sér þó einnig víða skáldaleyfi, sem eðlilegt er, og sjálfur sagði hann eitt sinn í viðtali að myndin væri „fantasía byggð á staðreyndum“. Í heildina má segja að umgjörðin og fjöldi smáatriða séu sagnfræðilega nokkuð trúverðug, á meðan nokkur burðaratriði í atburðarásinni eru skáldskapur.

Kvikmyndin Amadeus hefst á því að Antonio Salieri, fyrrum hirðtónskáld í Vínarborg, reynir að binda enda á líf sitt og játar að hann hafi verið valdur að dauða Mozarts. Jafnvel má segja að Salieri sé í raun aðalpersóna myndarinnar, og að drifkrafturinn í henni sé glíma Salieris við æðri máttarvöld, sem hann hefur heitið fullum tryggðum í skiptum fyrir snilligáfu á sviði tónlistar. Salieri tekur sárt að horfa upp á ótvíræða yfirburði Mozarts, sem hegðar sér oft eins og ofvaxið barn, og þykir Guð hafa svikið sig með því að útdeila snilligáfunni með þessum hætti.

Engar líkur eru á að Salieri hafi átt nokkurn þátt í dauða Mozarts. Sögusagnir um að ekki hafi allt verið með felldu komust hins vegar á kreik strax eftir lát þess síðarnefnda. Líkið var sagt hafa bólgnað mjög og var það talið grunsamlegt, auk þess sem Konstanza, ekkja Mozarts, sagði tónskáldið sjálft hafa grunað síðustu vikurnar sem það lifði að einhver reyndi að eitra fyrir sér.

Um 1820 var farið að nefna hinn aldna Salieri í þessu sambandi og var orðrómurinn á hvers manns vörum í Vínarborg og víðar. Shaffer var ekki fyrstur til að notfæra sér þetta sem efnivið. Rússneska þjóðskáldið Alexander Púshkin orti til dæmis ljóðið „Mozart og Salieri“ árið 1830, og 1898 samdi Nikolai Rimskí-Korsakov kammeróperu sem byggir á því. Salieri neitaði þó ávallt sök, og engar heimildir hafa síðan komið í ljós sem gefa annað í skyn.


Í þessu skoti úr kvikmyndinni sést Salieri aðstoða Mozart, á dánarbeði hins síðarnefnda, við að semja sálumessu. Í raunveruleikanum var það nemandi Mozarts, Franz Xavier Süssmayr, sem fullgerði sálumessu hans en þó ekki fyrr en eftir andlát tónskáldsins; engar heimildir eru um að þeir hafi starfað saman að verkinu á meðan Mozart var enn á lífi.

Til að gefa Salieri aukið vægi í myndinni hefur öðrum lykilpersónum í ævi Mozarts síðasta árið sem hann lifði verið skeytt saman við persónu Salieris. Salieri bað til dæmis ekki Mozart um að semja fyrir sig sálumessu, heldur var það greifi að nafni Franz Walsegg, sem hugðist láta flytja hana undir eigin nafni til minningar um eiginkonu sína sem var nýlátin.

Salieri aðstoðaði heldur ekki Mozart við að semja sálumessuna á dánarbeði, heldur Franz Xavier Süssmayr, nemandi Mozarts. Engar beinar heimildir eru heldur til um meinta óvild Salieris, sem meðal annars stjórnaði flutningi á nokkrum messum Mozarts skömmu fyrir andlát hans. Þá nefnir Mozart í síðasta bréfi sínu sem varðveist hefur að hann hafi sótt Salieri og söngkonuna Caterinu Cavalieri í vagni sínum og boðið þeim á sýningu á Töfraflautunni. „Þú getur varla gert þér í hugarlund... hve hrifin þau voru... Hann fylgdist með af mestu gaumgæfni og var ekkert atriði, frá fyrstu tónum forspilsins að síðasta kóratriðinu, sem þau kölluðu ekki „bravo“ eða „bello“ fyrir“ (ísl. þýð. ÁK).

Auk þessa er hægt að telja til fjölda smáatriða í myndinni sem ekki eru í samræmi við staðreyndir. Mozart og Salieri stjórna hljómsveitum með nútíma stjórnunartækni, sem tók ekki að mótast fyrr en á 19. öld. Engar heimildir eru fyrir því að Mozart hafi hegðað sér ósæmilega við hirðir Jósefs II eða í viðurvist Colloredos erkibiskups. Jósef II keisara hefur varla þótt óviðeigandi að sögusvið óperunnar Die Entführung aus dem Serail væri tyrkneskt kvennabúr, þar sem fjöldi tónskálda í Vínarborg hafði þegar samið slíkar óperur (þeirra á meðal Gluck 1764 og Jommelli 1768). Engar heimildir eru fyrir því að Konstanza hafi sýnt Salieri handrit eiginmanns síns eða biðlað til hans á annan hátt. Varla hefur snjóað þegar Mozart samdi Töfraflautuna, sumarið 1791. Þá skildi Mozart eftir sig tvo syni (Karl og Franz Xavier), ekki einn eins og myndin gefur í skyn.


Í Amadeus sjást Mozart og Salieri stjórna hljómsveitum með nútíma stjórnunartækni, en hún tók ekki að mótast fyrr en á 19. öld.

Þrátt fyrir þetta dregur Amadeus oft upp raunsæja mynd af Mozart sjálfum og tónlistargáfum hans. Handrit hans eru, eins og Salieri nefnir, yfirleitt laus við breytingar og leiðréttingar af þeim toga sem oftast má finna hjá öðrum tónskáldum. Þótt persóna Mozarts í myndinni kunni að vera nokkuð ýkt er hún kannski ekki fjarri lagi. Bréf Mozarts til frænku sinnar, Maríu Önnu Theklu (þau voru bræðrabörn) sanna að Mozart hafði óvenju klúra kímnigáfu og hafði gaman af tvíræðum orðaleikjum.

Í nýlegri ævisögu hefur tónlistarfræðingurinn Maynard Solomon fært rök fyrir því að barnaskap Mozarts á fullorðinsárum megi rekja til mikils álags í æsku og erfiðleika í samskiptum hans við föður sinn. Árið 1992 birtist grein eftir lækninn Benjamin Simkin í British Medical Journal þar sem hann velti fyrir sér hvort Mozart hafi hugsanlega haft Tourette-heilkenni. Engin leið er þó að svara því með vissu án frekari heimilda.

Það liggur í hlutarins eðli að þegar kvikmynd er byggð á ævi listamanns þarf ýmsu að breyta og annað þarf að fella burt. Kvikmynd er ekki sagnfræði, en fyrir þá sem vilja kynna sér ævi Mozarts nánar má benda á margar góðar ævisögur sem ritaðar hafa verið á undanförnum árum. Það sem skiptir mestu máli þegar upp er staðið er að myndin hefur kynnt Mozart og tónlist hans fyrir milljónum kvikmyndagesta og þannig vakið áhuga manna á að fræðast nánar um hann, eins og þessi spurning ber einmitt vott um.

Frekara lesefni á Vísindavefnum

Helstu heimildir og mynd

  • Jane Perry-Camp. Amadeus and Authenticity. Eighteenth-Century Life 9 (1984), 116-119.
  • Robert L. Marshall. Film as Musicology: Amadeus. Musical Quarterly 81 (1997), 173-179.
  • Maynard Solomon. Mozart – A Life. New York: HarperCollins, 1995.
  • Myndirnar eru fengnar af síðunni Amadeus. Adoro Cinema.

...