Áætlað er að um mitt ár 2011 séu íbúar Tadsjikistan um 7,6 milljónir. Um það bil 80% íbúanna tilheyra þjóðarbroti sem kallast Tadsjikar, tæp 16% eru Úsbekar, Rússar og Kirgisar eru um 1,1% hvor hópur um sig en önnur þjóðarbrot eru fámennari. Langflestir íbúanna eru múslimar. Landbúnaður er aðalatvinnuvegurinn og er bómullarrækt þar mikilvægust. Léttur iðnaður er mikið til tengdur þeim afurðum sem landbúnaðurinn skapar; textílvinnsla og matvælaiðnaður, en af stóriðnaði er álvinnsla mikilvægust. Fallvötn hafa verið virkjuð og eru áform um frekari framkvæmdir á því sviði. Meðal annarra náttúruauðlinda eru kol, salt, blý, sink, gull, silfur og túngsten. Tadsjikistan var hluti Sovétríkjanna en hefur verið sjálfstætt ríki frá árinu 1991. Landið er eitt hið fátækasta af fyrrum Sovétlýðveldunum og hefur mátt glíma við ýmsa erfiðleika. Borgarstyrjöld var í landinu á árunum 1992-1997 sem hafði mjög neikvæðar afleiðingar fyrir efnahag landsins og gætir þeirra enn þann dag í dag. Atvinnuleysi hefur verið töluvert með þeim afleiðingum að margir hafa leitað eftir vinnu erlendis. Talið er að áður en efnahagskreppan skall á árið 2008, hafi yfir 1 milljón Tadsjika verið í vinnu erlendis í lengri eða skemmri tíma, aðallega í Rússlandi. Árið 2004 er talið að allt að 15% heimila hafi treyst á tekjur sem fjölskyldumeðlimir öfluðu erlendis. Eitthvað hefur dregið úr þessu á síðustu árum en engu að síður er þetta mikilvæg tekjulind. Fyrir þá sem vilja fræðast meira um Tadsjikistan er um að gera að smella á tenglana í heimildalistanum hér fyrir neðan. Heimildir:
- Tajikistan á The World Factbook. Skoðað 22. 6. 2011.
- Economy of Tajikistan á Wikipedia Skoðað 22. 6. 2011.
- Demographics of Tajikistan á Wikipedia. Skoðað 22. 6. 2011.
- Tajikistan á Encyclopædia Britannica Online. Skoðað 22. 6. 2011.
- Tajikistan country profile á BBC News. Skoðað 22. 6. 2011.
- Mynd: Tajikistan, topographic map á UNEP/GRID-Arendal. Kortið einfaldað af ritstjórn Vísindavefsins. Sótt 22. 6. 2011.