Kínverski heimspekingurinn Feng Youlan 馮友蘭 (Fung Yu-lan, 1895-1990) hélt því fram að Sima Qian hafi ruglað saman Laozi sem var goðsögukennd persóna og Li Er sem var raunverulegur stofnandi dao-skólans. Sambærilegt viðhorf hefur verið að ryðja sér mjög til rúms í seinni tíð, það er að Laozi hafi aldrei verið til og að ritið Daodejing, eins og Ragnar Baldursson hefur bent á, sé „safnrit tilvitnana í daoíska spekinga sem ýmsir fylgismenn þeirra hafa tekið saman“ og heimfært upp á goðsagnapersónuna Laozi (Laozi, Inngangur, s. 15). Ágreiningur um þessi efni hefur ekki verið til lykta leiddur og persóna Laozi því enn sveipuð dulúð. Í ofangreindum fornritum er að finna ýmsar mistrúverðugar sögur um Laozi, til dæmis um fundi Laozi og Konfúsíusar þar sem hinn síðarnefndi kemur fram sem auðmjúkur lærisveinn Laozi til að læra af honum um helgiathafnir, siði og hið góða líf. Í Zhuangzi er Konfúsíus til dæmis beðinn að leggja mat á Laozi:
Loksins hef ég litið augum dreka, dreka í öllu sínu veldi sem breiðir úr sér til að sýna fegurstu mynstur sín, svífur á andardrætti skýjanna og nærist á yin og yang. Munnur minn opnaðist upp á gátt og mér var um megn að loka honum. Hvernig í ósköpunum ætti ég að geta lagt eitthvert mat á Lao Dan? (Zhuangzi, kafli 14, s. 196)Sömuleiðis er greint frá því að Laozi hafi haldið vestur á bóginn og mætt þar hinum upplýsta landamæraverði Yin Xi 尹喜 sem bar kennsl á Laozi og krafðist þess að hann ritaði niður hugmyndir sínar áður en hann fengi að halda áfram leið sinni til vesturs. Laozi mun þá hafa sest við skriftir og ritað bókina Daodejing í um 5000 táknum sem Yin Xi dreifði síðan meðal Kínverja. Í trúarlegum ritum frá seinna Han-keisaraveldinu 漢 á annarri öld eftir okkar tímatal, þegar búddismi hafði tekið að festa rætur í Kína, má finna ýmsar viðbætur við þessa sögu. Þá heldur Laozi til Indlands gagngert í því skyni að „umturna skrælingjunum“ með því að leiða þeim leyndardóma dao í ljós og verður síðan kennari sjálfs Gautama Búdda. Í sumum ritum reynist Laozi sjálfur hafa verið Búdda! Hvað sem líður mismunandi útfærslum þessara frásagna var markmiðið að sannfæra fólk um að rætur búddisma fólust í speki daoismans, að öllum líkindum til að færa Kínverjum kunnuglegri framsetningu á hinu framandi hugmyndakerfi búddismans, enda var búddisma í fyrstu miðlað til Kínverja fyrir tilstilli daoískra hugtaka. Á sama tímabili tók að bera á fyrstu tilhneigingunum til að móta kerfisbundin daoísk trúarbrögð og þar kemur Laozi fram sem guðleg vera er leiðir okkur fyrir sjónir „leið himnameistarans“ (tianshi dao 天師道) en það var jafnframt opinbert heiti fyrstu daoísku trúarhreyfingarinnar. Í seinni útfærslu trúarlegs daoisma er Laozi jafnan persónugerving dao sem gengið hefur í gegnum ótal umbreytingar og birst mönnum í ýmsum gervum, þar á meðal Lao Dan, til að miðla visku sinni til þeirra, stuðla að samstillingu mannlífs við veraldaröflin og koma þar með á friðsælu og farsælu samfélagi. Samkvæmt þessari trúarlegu hefð, sem enn hefur sterk ítök meðal kínversks almennings, hefur ritið Daodejing eftir Laozi að geyma grundvöll þessarar djúptæku daoísku visku um hið ákjósanlegasta líf í sátt og samlyndi við veraldar- og náttúruöflin. Frekari fróðleikur á Vísindavefnum:
- Hver var Lao Tse og hvað gerði hann? eftir Hauk Má Helgason
- Hver var hinn kínverski Konfúsíus og hvað er konfúsismi? eftir Geir Sigurðsson
- Hver er saga og menning hinna fornu kínversku ríkja? eftir Hrannar Baldvinsson
- Hvað getið þið sagt mér um kínverskt samfélag? eftir Geir Sigurðsson
- Geir Sigurðsson. „Jafngildir heimar. Um náttúrusýn í daoisma.“ Ritið 10. árgangur (3/2010), s. 117-129.
- Graham, A.C. Disputers of the Tao. Philosophical Argument in Ancient China. Chicago and La Salle: Open Court, 1989.
- Lao Tzu. Tao Te King. Bókin um veginn og dyggðina. Þýð. Njörður P. Njarðvík. Reykjavík: JPV, 2004.
- Laozi. Ferlið og dygðin. 道德经. Þýð. Ragnar Baldursson. Reykjavík: Hið íslenska bókmenntafélag, 2010.
- Littlejohn, Ronnie. „Laozi (Lao-tzu, fl. 6th C. BCE)“. Internet Encyclopedia of Philosophy.
- Kohn, Livia (ritstj.). Daoist Handbook. Leiden, Boston og Köln: Brill, 2000.
- Zhuangzi. Í Laozi Zhuangzi zhijie. Ritstj. Chen Qinghui. Hangzhou: Zhejiang wenyi chubanshe, 1998.