Jörðin gengur eftir sporbaug, ofurlítið ílöngum ferli sem líkist hring. Vegna þessa er fjarlægðin til sólu ekki alltaf sú sama, þótt ekki muni miklu. Mesta fjarlægð jarðar frá sólu eru 152,1 milljón kílómetrar sem er um þremur hundraðshlutum meira en minnsta fjarlægðin, 147,1 milljón kílómetrar. Þessi munur er það lítill að hann hefur ekki teljandi áhrif á veðurfar á jörðu.5 milljón kílómetrar kann að virðast löng vegalengd en í óravíddum geimsins er það ekki ýkja stór tala. Þegar jörðin er hvað lengst frá sólu tölum við um sólfirð en þegar hún er hvað næst okkur er talað um sólnánd. Munurinn á sólarhringnum við sólfirð og sólnánd er einungis 16 sekúndur en við sólnánd virðist sólin hreyfast örlítið hraðar eftir himninum. Sólarhringurinn er nánar tiltekið 86.400 sekúndur svo við sjáum að 16 sekúndna munur er hverfandi.
Enn fremur hafa sólgos mikið verið í fréttum en aukning þeirra hefur eðlilegar skýringar. Sólin fer í gegnum ellefu ára tímabil sem nefnist sólblettasveiflan og er þannig misvirk á því tímabili. Meira má lesa um sólgos í svari Sævars Helga Bragasonar við spurningunni: Hvað eru sólgos og segulstormur?
Þess má til gamans geta að þó við tökum vart eftir mismikilli fjarlægð jarðar frá sólu þá mun tunglið vera í jarðnánd laugardaginn 19. mars árið 2011 en þá verður einnig fullt tungl. Tunglið mun þá líta út fyrir að vera aðeins stærra og bjartara. Meira má lesa um það í svari Sævars Helga við spurningunni: Af hverju verður ofurmáni?
Mynd:
- University of Washington. Sótt 21.3.2011. Íslenskur texti settur inn af ritstjórn.
Þetta svar er í flokknum "bekkirnir spyrja" þar sem starfsfólk vefsins svarar spurningum frá grunnskólabekk í kennslustund, samkvæmt samningi. Lögð er áhersla á skjót svör, stutt og aðgengileg. Oft er byggt á öðrum svörum sem kunna að nýtast almennum lesendum betur.