Í ritmálssafni Orðabókar Háskólans eru aðeins þrjú notkunardæmi um orðið þumalfingursregla og ekkert um þumalputtaregla. Skýringin á því að ekkert dæmi finnst þar um þumalputtareglu er sennilega sú að í rituðu máli er fremur talað um fingur en putta. Í elsta dæminu, sem er úr Sjómannablaðinu Víkingi frá 1968, er orðið sett innan gæsalappa og getur það verið til merkis um að notandinn hafi talið eitthvað framandlegt við það, jafnvel litið á það sem aðkomuorð. Dæmið er svona:
Þá var „þumalfingursreglan“ úr sögunni, en fastar reglur komnar varðandi lestatal, stöðugleika, seglbúnað og fallbyssufyrirkomulag.Orðið þumalfingursregla er komið í málið úr dönsku. Þar virðist orðið tommelfingerregel einnig vera ungt þar sem það er ekki að finna í sögulegu dönsku orðabókinni Ordbog over det danske sprog, og ekki í útgáfum af Nudansk ordbog fyrr en eftir miðja 20. öld. Í dönsku, og reyndar í önnur Norðurlandamál einnig, hefur orðið líklegast borist úr ensku en í því máli er algengt að nota sambandið rule of thumb í sömu merkingu. Frekari fróðleikur á Vísindavefnum:
- Af hverju heita allir puttarnir fingur nema einn sem heitir TÖNG, langatöng? eftir Guðrúnu Kvaran
- Ritmálsskrá Orðabókar Háskólans
- Íslensk orðabók 3. útg. (2002)
- Mynd: Muddy Colors. Sótt 23. 2. 2011.
Þetta svar hefur einnig birst sem pistill um orð vikunnar á vef Stofnunar Árna Magnússonar og birt hér með góðfúslegu leyfi.