Trúðfiskurinn finnst um allt kórallarifið mikla undan austurströnd Ástralíu, stærsta kórallarifi í heimi. Hann finnst einnig víða í Melanesíu í Kyrrahafinu og ef til vill víðar á þessu víðlenda hafsvæði. Líkt og aðrir fiskar af ættkvíslinni þá lifir trúðfiskurinn í mjög grunnum sjó, á 1 til 12 metra dýpi, þar sem dýrasvif og kórallar eru algengir. Helsta fæða hans eru kórallar og ýmsar tegundir dýrasvifs, auk botndýra svo sem ýmissa ormategunda. Félagskerfi trúðfiska er nokkuð sérstakt. Þeir halda sig í smáum hópum, oftast fjórir fiskar saman, ein kynþroska kerling, kynþroska karl og tveir eða fleiri ófrjóir fiskar. Valdapíramítinn fer eftir líkamsstærð og er kvenfiskurinn stærstur, svo karlfiskurinn, en ófrjóu fiskarnir eru neðstir í valdaröðinni. Ef kvenfiskurinn deyr þá einfaldlega skiptir frjói karlfiskurinn um kyn og við það verður stærsti ófrjói fiskurinn kynþroska og tekur við hlutverki hans. Oft eru mikil innbyrðis átök milli einstaklinga hópsins vegna valdabaráttu og getur "fjölskyldulífið" verið ansi óvægið, sérstaklega fyrir minnstu fiskana. Þeir virðast hins vegar vera lausir við slíkar innbyrðis deilur þegar þeir lifa í búrum og eru mjög vinsælir skrautfiskar og seldir í gæludýraverslunum víða um heim.
Dæmi um náskyldar tegundir trúðfisksins er falski trúðfiskurinn (Amphiprion ocellaris). Hann finnst mun norðar en hinn eiginlegi trúðfiskur eða undan ströndum austur Asíu, svo sem í Gulahafi, undan ströndum japönsku eyjarinnar Ryukyu og allt suður til Ástralíu, en nær þó ekki inn á útbreiðslusvæði trúðfisksins. Önnur kunn tegund er beltatrúðurinn (Amphiprion bicinstus). Frekara lesefni á Vísindavefnum efgtir sama höfund: Myndir:
- Récif France - ljósmyndari: Daniela Stettler
- Moe's Home Theater