Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.
Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar
um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að
svara öllum spurningum.
Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að
svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki
nægileg deili á sér.
Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.
Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!
Kæfisvefn (e. sleep apnea) getur verið hættulegur og það er full ástæða til að leita til læknis. Kæfisvefn er til hjá börnum og fullorðnum en er langalgengastur hjá fullorðnum karlmönnum. Flestir þeirra sem þjást af kæfisvefni eru of feitir en það er þó ekki algilt. Kæfisvefn er eins og hrotur að því leyti að hann kemur einkum fyrir þegar sofið er á bakinu. Áfengi og svefnlyf stuðla að kæfisvefni og sama er að segja um nefstíflu af hvaða orsök sem er, meðal annars kvefi og ofnæmi.
Venjulega er talað um þrjár tegundir kæfisvefns, hindrun á loftflæði um kverkar og barka, truflun á stjórnun öndunar í heilanum og í síðasta lagi blöndu af þessu tvennu. Hindrun á loftflæði er langalgengasta ástæðan. Það sem einkennir kæfisvefn er stöðvun öndunar af og til, hrotur, órólegur svefn, sviti, martröð og að börn væta rúmið. Að deginum kemur oft fram morgunhöfuðverkur, syfja og sljóleiki. Sum börn með kæfisvefn eiga í erfiðleikum í skóla vegna syfju eða hegðunarvandamála. Syfjan að deginum getur í sjálfu sér verið hættuleg, ef fólk sofnar við vinnu eða akstur, en fleiri hættur eru á ferðinni.
Meðan á kæfisvefni stendur minnkar súrefnið í blóðinu og þar með flutningur þess út í vefi líkamans, meðal annars til hjartans. Þeir sem eru með kransæðasjúkdóm geta, við þennan súrefnisskort, fengið hjartsláttartruflanir sem eru einstaka sinnum lífshættulegar.
Að sofa á hliðinni getur hjálpað til við að koma í veg fyrir kæfisvefn.
Fundist hafa tengsl milli kæfisvefns annars vegar og kransæðasjúkdóms, hás blóðþrýstings og æðasjúkdóma hins vegar. Ekki er vitað hvort um einhvers konar orsakasamband er að ræða en offita stuðlar að þessu öllu.
Hægt er að beita ýmiss konar meðferð og má þar fyrst nefna megrun hjá þeim sem eru of feitir. Megrun getur hjálpað mikið og í sumum tilfellum losað viðkomandi nær alveg við kæfisvefninn. Til eru nokkrar gerðir tækja sem veita öndunaraðstoð í svefni og eru þau oft áhrifamikil auk þess sem þau minnka hættu á hjartsláttartruflunum hjá þeim sem eru hjartveikir. Þessi tæki eru þannig að sjúklingurinn sefur með grímu sem er tengd við loftdælu eða loftkút og við það hækkar þrýstingur loftsins við innöndun en það dregur oftast úr eða kemur í veg fyrir kæfisvefn. Forðast ber áfengi og svefnlyf því allt sem gerir svefninn dýpri eykur hættu á kæfisvefni.
Engin árangursrík lyfjameðferð er til við kæfisvefni þó að ýmislegt hafi verið reynt. Ef annað bregst má grípa til ýmiss konar skurðaðgerða. Stundum hjálpar að fjarlægja stóra háls- eða nefkirtla og ýmsar aðgerðir á efri gómi hafa verið reyndar. Slíkar aðgerðir hjálpa oft en ekki alltaf og ógerlegt er að spá um árangur. Sama er að segja um lausan góm sem sofið er með og ýtir neðri kjálkanum fram á við. Í öllum tilvikum eru fyrstu skrefin að grennast (þegar það á við), forðast áfengi og svefnlyf og reyna að sofa á hliðinni.
Frekara lesefni á Vísindavefnum:
Magnús Jóhannsson. „Hvað er kæfisvefn og hvað er hægt að gera í þeim efnum?“ Vísindavefurinn, 28. júní 2000, sótt 21. nóvember 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=586.
Magnús Jóhannsson. (2000, 28. júní). Hvað er kæfisvefn og hvað er hægt að gera í þeim efnum? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=586
Magnús Jóhannsson. „Hvað er kæfisvefn og hvað er hægt að gera í þeim efnum?“ Vísindavefurinn. 28. jún. 2000. Vefsíða. 21. nóv. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=586>.