Hvað veldur því að blanda af maíssterkju og vatni verður fast efni við högg og hvers vegna dansar hún á hátalara við lága tíðni?Maíssterkja blönduð með vatni er dæmi um svokallaðan ó-Newtonskan (e. non-Newtonian) vökva. Slíkur vökvi á það til að breyta þykkt (seigju) sinni þegar hann er áreittur. Flestir vökvar úr daglegu lífi eru Newtonskir og breyta ekki þykkleika sínum við áreiti. Sumir vökvar verða þynnri þegar þeir eru áreittir eins og til dæmis tómatssósa. Þessi eiginleiki veldur því að tómatsósan flæðir auðveldar úr flöskunni í andartak eftir að barið er á hana. Eitt besta þekkta dæmið um vökva sem þykkist þegar hann er áreittur er vatn blandað með sandi; maíssterkja blönduð með vatni er einnig gott dæmi. Maíssterkja er samsett úr litlum ögnum sem innihalda fjölsykrurnar amýlósa og amýlópektín. Maíssterkja leysist ekki upp í vatni og fljóta agnirnar því um þegar sterkjan er blönduð vatni. Agnirnar forðast hverja aðra í vatnsblöndunni, jafnvel þegar ýtt er laust á blönduna. En þegar ýtt er fast á blönduna festast agnirnar saman og mynda klasa (sjá mynd 1). Þessir klasar auka þykkt blöndunnar og ef hlutfall sterkjunnar og vatnsins er rétt hagar blandan sér nánast eins og fast efni. Þegar blandan er látin í friði losna klasarnir í sundur og þá verður blandan þynnri og snýr aftur í sitt venjulega form. Svipaða sögu er að segja þegar blanda af maíssterkju og vatni er sett á hátalara. Við ákveðna tíðni ýta hljóðbylgjurnar frá hátalaranum á agnirnar með þeirri tíðni. Ef tíðnin er mjög há er verið að ýta mjög oft á agnirnar og þá mynda þær stóra klasa. Klasarnir hafa ekki tíma til að leysast upp á milli högga frá hljóðbylgjunum og verður blandan því nánast að föstu efni. Þegar tíðnin er lækkuð hafa klasarnir meiri tími til að losna í sundur og getur það gerst á ákveðnu tíðnibili að blandan er í millibilsástandi að vera vökvi og fast efni. Í þessu ástandi getur blandan myndað strýtur sem hristast og virðast dansa (sjá mynd 2). Á YouTube og Vimeo má sjá skemmtilegar tilraunir gerðar með maíssterkju og vatni á hátalara. Annað myndandið sést hér fyrir neðan. Auðvelt er að gera svipaðar tilraunir heima hjá sér. Það eina sem þarf til er maíssterkja sem hægt er að kaupa í flestum matvörubúðum, vatn, smá matarlit ef maður vill hafa blönduna litaða og hátalara tengda við græjur. Setjið maíssterkjuna í skál og bætið í 1-2 dropum af matarlit. Bætið vatni við þangað til að blandan hegðar sér eins og vökvi þegar hrært er rólega. Prófið að berja aðeins í blönduna og ef hún hegðar sér svipað og fast efni er blandan tilbúin. Setjið skálina á hátalarann og látið tónana fljóta um hátalarann.
- Non-Newtonian fluid - Wikipedia, the free encyclopedia. (Skoðað 08.09.2013).
- Nathan C. Crawford, et al., "Shear thickening of corn starch suspensions: Does concentration matter?", Journal of Colloid and Interface Science Volume 396, 15 April 2013, Pages 83–89.
- Starch - Wikipedia, the free encyclopedia.
- Fong Wang 2013: 2011/6/1 - 2011/7/1. (Sótt 16.09.2013).
- 20090420-DSC07486 | Flickr - Photo Sharing! Myndin er birt undir Creative Commons-leyfi. Myndrétthafi er Lis Bokt. (Sótt 15.09.2013).
- Slow-Mo Non-Newtonian Fluid on a Speaker - YouTube. (Skoðað 21.09.2013).
- Dancing Speaker - Non Newtonian Fluid on Vimeo. (Skoðað 14.05.2014).