Með viðræðum sínum vildi [Sókrates] vekja [lærisveinana] til sjálfstæðrar hugsunar, leiða innsta eðli þeirra í ljós og hjálpa því til þroska. Þessari starfsemi sinni líkti hann við ljósmóðurstarf móður sinnar. En með henni var hann í raun og veru að skapa nýja kennsluaðferð, og hefur engin betri verið fundin enn í dag.1Ljósmóðurlíkingin á að sýna fram á hvernig þekking getur orðið til hjá viðmælanda án þess að honum séu gefnar þær forsendur sem liggja þekkingunni til grundvallar. Kennarinn (Sókrates) hjálpar viðmælandanum til að komast að niðurstöðu án þess að gefa niðurstöðuna í skyn og með því að láta eins og að hann sjálfur viti ekki svarið eða hafi ekki nauðsynleg rök á hraðbergi. Kennarinn spyr samt leiðandi spurninga og það er með því að svara þeim sem nemandinn öðlast þekkingu. Forsendur þessarar kennsluaðferðar Sókratesar eru býsna fjölbreyttar og snerta meðal annars þá miklu kenningu sem er frummyndakenning Platons. Aðrar forsendur eru ekki eins frumspekilegar. Þar má meðal annars nefna að Sókrates átti bágt með að telja sig öðrum mönnum vitrari. Véfréttin í Delfí hafði sagt að Sókrates væri vitrastur allra en hann komst að þeirri niðurstöðu að það væri bara vegna þess að hann væri meðvitaður um eigin vanþekkingu.2 Þetta yfirlætisleysi ásamt því að gera sem minnst úr eigin skoðunum, mælsku og röksnilld hefur verið kallað „sókratísk kaldhæðni“.
- 1 Platon Síðustu dagar Sókratesar, inngangur og þýðing Sigurður Nordal (Reykjavík: Hið íslenska bókmenntafélag, 1990) bls. 17.
- 2 Sama rit, bls. 36.
- Dauði Sókratesar eftir David - Wikipedia, the free encyclopedia. (Sótt 7.11.2012)