Eftir á hefur oft verið sagt um Ranke að hann hafi ekki stundað það hlutleysi sem hann boðaði. Hann hafi beitt mælskubrögðum til að ná tilfinningalegum áhrifum og verið hlutdrægur talsmaður ríkisvaldsins, eins og tíðkaðist mjög í Prússlandi á hans tíma. Svo er aftur á móti bent á að hann hafi sýnt hlutleysi og hlutlægni í að kenna Austurríkismönnum og Prússum um styrjaldirnar á árunum 1791 og 1792, fremur en andstæðingum þeirra, Frökkum. Ranke-skólinn var tortrygginn á frásagnarheimildir vegna þess að sögumenn væru hlutdrægir. Því var lagt kapp á að safna skjölum og nýta þau sem mest. Áhrif skólans voru framan af einkum þau að tekið var að gefa út forn skjöl. Í íslenskri söguiðkun er Íslenzkt fornbréfasafn fyrsti ávöxtur stefnunnar, en Jón Sigurðsson forseti gaf út fyrsta heftið af fyrsta bindi þess árið 1857, rúmum þremur áratugum eftir að Ranke kvaddi sér hljóðs um heimildarýni. Í söguritun ruddi Ranke-skóli sér til rúms á Norðurlöndum á síðustu áratugum 19. aldar. Norðmenn telja sterk áhrif frá honum á Gustav Storm (1845–1903) sem varð prófessor 1877. Í Danmörku urðu skýrari tímamót með Kristian Erslev (1852–1930) sem fékk stöðu við Kaupmannahafnar-háskóla árið 1883. Í Svíþjóð er talað um þessa stefnu sem Weibull-skóla, og er hún þá kennd við Lauritz Weibull (1873–1960), sem varð ekki prófessor fyrr en 1919. Sumum höfundum finnst of langt á milli Ranke á annan veginn og Erslev eða Weibull á hinn til að rétt sé að telja þá til sömu stefnu eða viðmiðs (e. paradigm). Frekar megi segja að þeir síðartöldu, og lærisveinar þeirra, hafi kippt Ranke út úr viðmiði sínu og gert hann að nokkurs konar spámanni stefnu sinnar. Á Íslandi átti heimildarýniskólinn sérstaklega erfitt uppdráttar, enda eigum við einstaklega auðugar og skemmtilegar frásagnarheimildir um fyrstu aldir byggðar í landinu og allt að því ómótstæðilegt að nota þær. Árið 1903 gaf Bogi Th. Melsteð (1860–1929) út fyrsta bindið af Íslendinga sögu sinni. Í formála fagnar hann því að „prófessor Kr. Erslev hefur stofnað „kritiskan“ sagnfræðingaskóla í Danmörku.“ En sá skóli hafði ekki haft meiri áhrif á Boga en svo að bindið er lítið annað en endursögn á Landnámabók. Og næsta bindi, 1910, var 570 blaðsíðna löng endursögn á Íslendingasögum. Í ritun okkar um fyrstu aldir Íslandssögunnar verður tæpast talað um veruleg áhrif frá Ranke-skóla fyrr en í Íslendinga sögu Jóns Jóhannessonar (1909–1957) 1956. Um síðari aldir var fyrr tekið að skrifa rit sem voru aðallega reist á skjalaheimildum. Meðal elstu meiri háttar rannsóknarrita má þar telja Einokunarverzlun Dana á Íslandi 1602–1787 eftir Jón J. Aðils (1869–1920), sem kom út 1919. Heimildir og myndir:
- Alfræðibækur ýmsar.
- Barnes, Harry Elmer: A History of Historical Writing. 2nd rev. ed. New York 1963.
- Bogi Th. Melsteð: Íslendinga saga I–II. Kaupmannahöfn 1903–10.
- Clausen, H.P.: Hvad er historie? København 1963.
- Dahl, Ottar: Norsk historieforskning i 19. og 20. Århundre. Oslo 1959.
- Dansk historievidenskabs krise. En undersøgelse af dansk historievidenskabs tradition af Hanne Eriksen o.fl. Odense 1977.
- Gunnar Karlsson: Inngangur að miðöldum. Handbók í íslenskri miðaldasögu I. Reykjavík 2007.
- Þórhallur Vilmundarson: Um sagnfræði. Þróun sagnaritunar. Heimspekikenningar um sögu. Heimildafræði. Reykjavík 1969.
- Mynd: Encyclopædia Britannica On. Mynd eftir J. Schrader frá árinu 1868. Sótt 17. 2. 2011.
- Mynd af Humboldt-háskóla í Berlín: Wikipedia.org. Sótt 17. 2. 2011.