Á árunum 1785-91 lagði Coulomb fram sjö ritgerðir varðandi rafmagn og segulmagn. Voru þær að hluta byggðar á vönduðum tilraunum með hjálp snúningsvogar hans, þar sem hann mældi ýmist útslag vogarinnar eða sveiflutíma hennar kringum jafnvægisstöðu. Ein niðurstaðna hans var sú að krafturinn sem ein rafhleðsla ylli á aðra, væri í öfugu hlutfalli við annað veldi fjarlægðarinnar á milli þeirra. Það rafsviðslögmál Coulombs er sjálfsagt kunnasta framlag hans til vísindanna, enda undirstöðuatriði allra rafmagnsfræða. Hefur það síðar verið staðfest með mikilli nákvæmni, og er að mörgu leyti hliðstætt við lögmálið um þyngdarkraftana milli tveggja massa sem Isaac Newton hafði áður leitt út. Coulomb fann jafnframt, að sambærilegt lögmál gilti um kraftverkun milli segulmagnaðra hluta. Í ritgerðunum lýsti svo Coulomb til dæmis því hvernig rafhleðsla dreifir sér um yfirborð leiðara af mismunandi lögun, og hvernig hún lekur þaðan burt með tímanum. Þær niðurstöður standa enn fyllilega fyrir sínu. Hér er langt frá því að öll afrek Charles-Augustins de Coulomb hafi verið talin upp. Nefna má að hann lagði fram tillögur um endurskipulagningu verkfræðideilda hersins, stýrði um árabil fyrir frönsku byltinguna vatnsveitum í landareignum konungs, samdi ritgerðir um vinnuvísindi og um varmafræði, kynnti mikilvægar nýjar hugmyndir og hugtök um eðli raf- og segulmagns, rannsakaði rennsli og seigju vökva, var meðhöfundur yfir 300 nefndarálita einkum um tæknileg efni fyrir frönsku akademíuna, og varð forseti hennar 1801. Napóleon útnefndi Coulomb sem riddara af heiðursfylkingunni, og skipaði hann 1802 sem stjórnanda (fr. commissaire, síðar inspecteur général) menntamála. Í því embætti sem hann gegndi til dauðadags 1806, átti Coulomb meðal annars þátt í að koma upp nýju skólakerfi fyrir landið. Hinar fjölþættu rannsóknir Coulombs og samtíðarmanna hans svo sem verkfræðinganna J.C. Borda (1733-1799) og G. de Prony (1755-1839), stærðfræðingsins G. Monge (1746-1818) og kristallafræðingsins R.J. Haüy (1743-1822) leiddu síðan ásamt öðru til mjög örra framfara í Frakklandi á mörgum sviðum tækni og raunvísinda fram eftir 19. öldinni. Við innleiðingu nýs alþjóðlegs einingakerfis fyrir raf- og segulstærðir 1881 var samþykkt að hafa tiltekið magn rafhleðslu sem eina af grunneiningum kerfisins og kalla það 1 coulomb. Er þetta heiti enn við lýði, þótt síðar hafi einingin Ampère (fyrir rafstrauminn 1 coulomb á sekúndu) reynst hagkvæmari grunneining. Frekari fróðleikur á Vísindavefnum:
- Af hverju haldast hlutir eins og atóm og sameindir saman í heilu lagi? eftir Ágúst Valfells
- Hvernig eru volt og amper skilgreind? eftir Jón Tómas Guðmundsson
- Hefur ljóseind massa og þyngd? eftir Kristján Rúnar Kristjánsson
- Hver var Alessandro Volta og hvert var hans framlag til vísindanna? eftir Þorstein Vilhjálmsson
- Kafli um C.-A. de Coulomb eftir C.S. Gillmor í 3. bindi Dictionary of Scientific Biography, aðalritstj. C.C. Gillispie, útg. C. Scribner’s Sons, New York 1981.
- Charles-Augustin de Coulomb á Wikipedia.org. Sóttar 1.2.2011.