Adenóveirur geta einnig valdið blöðrubólgu, maga- og garnabólgu og ákveðinni tegund farsóttar sem er sýking í horn- og sjónhimnu augna (e. keratoconjunctivitis). Smit verður oftast á milli manna með lofti, til dæmis hnerra. Auk þess valda adenóveirur lifrarbólgu í hundum auk ýmissa sjúkdóma í fuglum, músum, kúm, svínum og öpum. Adenóveirur hafa þó einnig hagnýtt gildi og eru notaðar sem genaferjur í genalækningum. Gen er þá einangrað úr erfðaefni lífveru og skeytt saman við DNA adenóveirunnar sem er síðan látin flytja genið inn í lifandi frumur. Vandamál við að nota adenóveirur í þessum tilgangi eru að þær innlimast ekki í erfðaefni hýsilfrumunnar heldur eru frjálsar í kjarna hennar. DNA þeirra afritast eins og önnur gen frumunnar en tvöfaldast ekki þegar hún skiptir sér. Þær hverfa því að jafnaði úr frumum á nokkrum vikum svo stöðugt þarf að endurtaka ferlið. Að auki er ekki hægt að flytja mjög stór gen með adenóveirum og þær geta valdið mikilli bólgusvörun. Kostir adenóveirugenaferja eru aftur á móti að auðvelt er að útbúa þær í miklu magni, þær geta flutt gen í frumur sem eru ekki í skiptingu og valda ekki ákveðinni tegund krabbameina sem getur verið áhættuþáttur þegar vissar aðrar tegundir genaferja eru notaðar. Miklar vonir eru bundnar við genalækningar og notkun genaferja. Aðferðir eru í stöðugri þróun en margar hindranir þarf að enn yfirstíga. Sem dæmi er unnið að því að endurbæta adenóveirugenaferjur svo þær geti flutt stærri gen og valdi minni bólgusvörun. Heimildir og frekara lesefni:
- Hvað er splæst gen? eftir Guðmund Eggertsson.
- Gene Therapy - Adenoviral vectors explained.
- Britannica - adenovirus
- Wikipedia - Adenovirus. Sótt 24. 6. 2011.