En það voru ekki bara sögurnar sem heilluðu lesendur, það var líka ímynd Nonna og vitundin um að hinn íslenski Nonni hafði hafist úr fátækt og orðið heimsfrægur höfundur. Hann var holdgervingur „íslenska draumsins“ og í bréfasafni hans eru mörg bréf frá íslenskum höfundum sem báðu hann um að greiða götu sína. Meðal þeirra var Halldór Laxness. Erlendir lesendur drukku í sig Nonnabækurnar af sömu ástæðum og þeir íslensku. Persóna Nonna og ævintýrin sem hann lendir í heilla en ólíkt íslenskum lesendum sem þekktu Nonna og landið hans vissu evrópsk börn lítið sem ekkert um Ísland. Aðdráttarafl Nonna fólst þess vegna ekki síst í því hversu framandi hann var. Evrópskir lesendur könnuðust hins vegar við bókmenntaformið sem Jón Sveinsson skrifar sig inn í, ævintýrasöguna, en þessu bókmenntaformi kynntust íslenskir lesendur líklega fyrst með Nonnabókunum. Á seinni hluta nítjándu aldar og á fyrstu áratugum þeirrar tuttugustu voru ævintýrabækur gríðarlega vinsælar í Evrópu. Upphaf þessarar bókmenntahefðar er yfirleitt rakið til Robinson Crusoe (1719) eftir enska rithöfundinn Daniel Defoe (um 1660-1731). Í kjölfarið var farið að gefa út svokallaðar Róbinsonsögur, byggðar á bók Defoe og ekki leið á löngu uns aðalsöguhetjan varð að ungum dreng og sögurnar einkum ætlaðar ungum piltum. Í fyrstu fjölluðu sögurnar um ævintýri skipreika drengja en smátt og smátt urðu þær fjölbreyttari að efni. Jón Sveinsson leitar á náðir þessarar bókmenntahefðar og Nonni litli er prýðis ævintýrabókahetja og óhætt að segja að Nonnabækurnar hafi haft mikil áhrif á íslenskar barnabókmenntir og borið hingað til lands alþjóðlega strauma. Nonnabækurnar eru meðal fyrstu frumsömdu íslensku barnabókanna og voru öðrum höfundum innblástur. Í kjölfar útgáfu Nonnabókanna á íslensku voru skrifaðar sérstök tegund bernskuminninga, svokallaðar prakkarasögur. Þetta eru sögur um káta og hressa pilta í ævintýraleit og þær voru mjög vinsælar á sjötta áratug tuttugustu aldar. Bernskuminningar hafa haldið vinsældum sínum hér á landi allt til dagsins í dag og má þá meðal annars minnast þríleiks Guðrúnar Helgadóttur (Sitji guðs englar, Saman í hring og Sænginni yfir minni) sem byggist á bernskuminningum höfundar. Prakkararnir hafa líka látið á sér kræla á síðustu árum og ber þar mest á bókum Kristínar Helgu Gunnarsdóttur um hnátuna Fíusól. Á Vísindavefnum eru fleiri svör um barnabækur, höfunda þeirra og söguhetjur:
- Hvað varð um Manna, bróður Jóns Sveinssonar (Nonna)? eftir Helgu Birgisdóttur.
- Eru sögurnar um Önnu í Grænuhlíð sannsögulegar? eftir Stellu Soffíu Jóhannesdóttur.
- Hvenær fæddist Astrid Lindgren og hvað hefur hún skrifað margar bækur? eftir Ólaf Pál Jónsson.
- Hvað heitir hesturinn hennar Línu Langsokks? eftir Helgu Sverrisdóttur.
- Helga Birgisdóttir. 16. nóvember 2009. „Láttu bækur mínar verða öllum þeim, sem lesa þær, til sannrar, djúprar og hjartanlegrar gleði“. Fyrirlestur á dagskrá íslenskunema í tilefni af degi íslenskrar tungu.
- Silja Aðalsteinsdóttir. 1981. Íslenskar barnabækur 1870-1970. Mál og menning, Reykjavík.
- Mynd af Jóni Sveinssyni: Akureyri. Sótt 27. 1. 2011.
- Mynd af Nonnabókum: Bókaútgáfan Hólar. Sótt 27. 1. 2011.