Sólin Sólin Rís 10:17 • sest 16:10 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 21:40 • Sest 15:54 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 10:12 • Síðdegis: 22:46 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 03:46 • Síðdegis: 16:36 í Reykjavík
Sólin Sólin Rís 10:17 • sest 16:10 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 21:40 • Sest 15:54 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 10:12 • Síðdegis: 22:46 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 03:46 • Síðdegis: 16:36 í Reykjavík
LeiðbeiningarTil baka

Sendu inn spurningu

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Mætti ég fá að vita sem allra mest um afríska villihundinn?

Jón Már Halldórsson

Fyrr á tímum náði útbreiðsla afríska villihundsins (Lycaon pictus) um alla Afríku utan þétts skóglendis og eyðimarka. Í dag takmarkast útbreiðsla hans aðallega við lönd í suðurhluta álfunnar, Namibíu, Botsvana, Mósambík, Zimbabwe, Svasíland og Suður-Afríku.

Afríski villihundurinn er meðalstórt rándýr, á bilinu 18 til 36 kg að þyngd og 75 til 110 cm á lengd auk rúmlega 30 cm skotts. Nánast enginn stærðarmunur er á kynjunum. Latneska heiti hans, Lycaon pictus, þýðir bókstaflega litaði úlfurinn og vísar til litbrigða feldarins sem eru mjög sérstök.



Afríski villihundurinn hefur mjög sérstakan feld

Afrískir villihundar lifa í hópum sem telja allt að 40 dýr. Hér áður fyrr voru hóparnir oft mun stærri, eða allt að 100 dýr, en tegundinni hefur hnignað mjög á undanförnum áratugum og hóparnir hafa því að sama skapi minnkað. Rannsóknir hafa sýnt að meðalhópstærð nú er á bilinu sjö til fimmtán hundar.

Villihundar verða kynþroska við 12-18 mánaða aldur en ekki eru til mörg dæmi um að tík verði hvolpafull strax eftir kynþroska þó slíkt geti gerst. Meðgöngutíminn er um tíu vikur og fæðast hvolparnir á tímabilinu mars til júlí. Gotstærðin er mjög breytileg, frá tveimur og upp í tuttugu og tvo hvolpa. Tíkin gýtur í jarðholu, oft í yfirgefna holu jarðsvíns. Þar dvelur hún í þrjár til fjórar vikur þangað til hvolparnir hafa náð nægilegum þroska til að yfirgefa holuna. Þá sameinast tíkin gamla hópnum sínum að nýju og hópurinn tekur við sameiginlegri umsjón með hvolpunum.

Samsetning hópsins er í megin atriðum eins og hjá öðrum sambærilegum hunddýrum, svo sem asíska villihundinum (Cuon alpinus), úlfum (Canis lupus) eða dingóum (Canis lupus dingo) í Ástralíu. Innan hópsins er skýr goggunarröð bæði meðal karldýra og kvendýra. Fremst í hvorri goggunarröð er svokallað alfa-par, en það er eina parið í hópnum sem æxlast og eignast hvolpa.

Rannsóknir hafa sýnt að fleiri karlhundar eru í hópnum en tíkur. Tíkurnar yfirgefa hópinn yfirleitt við tveggja og hálfs árs aldurs og reyna að komast í aðra hópa þar sem ekki eru kynþroska tíkur fyrir. Um helmingur hundanna yfirgefur hópinn og sameinast öðrum hópum eða mynda nýja hópa.



Hvolpar að leik

Náin samvinna einstaklinga einkennir hópa villihunda. Hundarnir hjálpast að við að annast hvolpa, huga að slösuðum og veikum einstaklingum, auk þess sem samvinnan við veiðar er einstök og árangurinn þar af leiðandi langtum betri en hjá öðrum stórum rándýrum Afríku.

Afrísku villihundarnir veiða venjulega í ljósaskiptunum kvölds og morgna. Þeir nota fyrst og fremst sjón til að staðsetja bráðina. Þegar þeir hafa komið auga á heppilega bráð er hún elt uppi þar til hún þreytist en þá leggja þeir til atlögu og rífa hana í sig á meðan hún er enn uppistandandi. Villihundarnir gleypa í sig kjötið af nýfelldri bráðinni enda eiga þeir alltaf von á að ljón komi og hreki þá frá. Þeir virðast geta þolað hræætur nálægt sér nema ef vera skyldu blettahýenur (Crocuta crocuta). Ef ein eða tvær eru nærri ráðast þeir hiklaust á þær og reyna að drepa þær. Stórir hópar blettahýena geta hins vegar auðveldlega hrakið villihundana frá bráðinni.

Villihundar drepa venjulega bráð sem er um helmingi stærri en þeir, svo sem impala (Aepyceros melampus) og kjarrantilópur (Sylvicapra grimmia), auk gamalla og veikra einstaklinga af stærri tegundum eins og gný (Connochaetes spp.) og sebrahesta (Equus spp.). Auk þess leggja þeir sér til munns eitthvað af smærri spendýrum og ungviði grasbíta.

Afríska villihundinum hefur hnignað verulega frá því sem áður var þar sem heimkynni hans hafa að miklu leyti verið tekin undir akuryrkju. Hann er til að mynda algerlega horfinn í vestur- og miðhluta Afríku og einnig af stórum svæðum í austurhluta álfunnar. Í dag finnst hann aðallega í suðurhlutanum eins og áður sagði.

Fækkun innan tegundarinnar hefur verið svo mikil undanfarna áratugi að árið 1996 settu alþjóðlegu náttúruverndarsamtökin IUCN hann á lista yfir tegundir í útrýmingarhættu (e. endangered). Vísindamenn telja að heildar stofnstærð villtra dýra sé um þrjú til fimm þúsund hundar. Óttast er að enn eigi eftir að fækka í stofninum á komandi árum þar sem aukin nautgriparækt og annar landbúnaður í álfunni gengur á heimkynni hans. Sjúkdómar hafa einnig herjað á tegundina, en hundaæði hefur til dæmis verið vandamál á sumum svæðum.

Heimildir og mynd:
  • Estes, R. 1991. The Behavior Guide to African Mammals. Berkeley and Los Angeles, California: The University of California Press.
  • Nowak, R. 1999. Walker's Mammals of the World 6. útg. Baltimore: The Johns Hopkins University Press.
  • Stuart, C., T. Stuart. 1995.
  • Stuart's Field Guide to the Mammals of Southern Africa. Cape Town: Struik.
  • McNutt, J.W., Mills, M.G.L., McCreery, K., Rasmussen, G., Robbins, R. & Woodroffe, R. 2004. Lycaon pictus. Á: IUCN 2004. 2004 IUCN Red List of Threatened Species. Skoðað í mars 2006.
  • African Safari Pictures
  • National Geographic Photo Galleries

Höfundur

Jón Már Halldórsson

líffræðingur

Útgáfudagur

12.4.2006

Spyrjandi

Rósa Jórunn, f. 1995

Tilvísun

Jón Már Halldórsson. „Mætti ég fá að vita sem allra mest um afríska villihundinn?“ Vísindavefurinn, 12. apríl 2006, sótt 21. nóvember 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=5822.

Jón Már Halldórsson. (2006, 12. apríl). Mætti ég fá að vita sem allra mest um afríska villihundinn? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=5822

Jón Már Halldórsson. „Mætti ég fá að vita sem allra mest um afríska villihundinn?“ Vísindavefurinn. 12. apr. 2006. Vefsíða. 21. nóv. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=5822>.

Chicago | APA | MLA

Senda grein til vinar

=

Mætti ég fá að vita sem allra mest um afríska villihundinn?
Fyrr á tímum náði útbreiðsla afríska villihundsins (Lycaon pictus) um alla Afríku utan þétts skóglendis og eyðimarka. Í dag takmarkast útbreiðsla hans aðallega við lönd í suðurhluta álfunnar, Namibíu, Botsvana, Mósambík, Zimbabwe, Svasíland og Suður-Afríku.

Afríski villihundurinn er meðalstórt rándýr, á bilinu 18 til 36 kg að þyngd og 75 til 110 cm á lengd auk rúmlega 30 cm skotts. Nánast enginn stærðarmunur er á kynjunum. Latneska heiti hans, Lycaon pictus, þýðir bókstaflega litaði úlfurinn og vísar til litbrigða feldarins sem eru mjög sérstök.



Afríski villihundurinn hefur mjög sérstakan feld

Afrískir villihundar lifa í hópum sem telja allt að 40 dýr. Hér áður fyrr voru hóparnir oft mun stærri, eða allt að 100 dýr, en tegundinni hefur hnignað mjög á undanförnum áratugum og hóparnir hafa því að sama skapi minnkað. Rannsóknir hafa sýnt að meðalhópstærð nú er á bilinu sjö til fimmtán hundar.

Villihundar verða kynþroska við 12-18 mánaða aldur en ekki eru til mörg dæmi um að tík verði hvolpafull strax eftir kynþroska þó slíkt geti gerst. Meðgöngutíminn er um tíu vikur og fæðast hvolparnir á tímabilinu mars til júlí. Gotstærðin er mjög breytileg, frá tveimur og upp í tuttugu og tvo hvolpa. Tíkin gýtur í jarðholu, oft í yfirgefna holu jarðsvíns. Þar dvelur hún í þrjár til fjórar vikur þangað til hvolparnir hafa náð nægilegum þroska til að yfirgefa holuna. Þá sameinast tíkin gamla hópnum sínum að nýju og hópurinn tekur við sameiginlegri umsjón með hvolpunum.

Samsetning hópsins er í megin atriðum eins og hjá öðrum sambærilegum hunddýrum, svo sem asíska villihundinum (Cuon alpinus), úlfum (Canis lupus) eða dingóum (Canis lupus dingo) í Ástralíu. Innan hópsins er skýr goggunarröð bæði meðal karldýra og kvendýra. Fremst í hvorri goggunarröð er svokallað alfa-par, en það er eina parið í hópnum sem æxlast og eignast hvolpa.

Rannsóknir hafa sýnt að fleiri karlhundar eru í hópnum en tíkur. Tíkurnar yfirgefa hópinn yfirleitt við tveggja og hálfs árs aldurs og reyna að komast í aðra hópa þar sem ekki eru kynþroska tíkur fyrir. Um helmingur hundanna yfirgefur hópinn og sameinast öðrum hópum eða mynda nýja hópa.



Hvolpar að leik

Náin samvinna einstaklinga einkennir hópa villihunda. Hundarnir hjálpast að við að annast hvolpa, huga að slösuðum og veikum einstaklingum, auk þess sem samvinnan við veiðar er einstök og árangurinn þar af leiðandi langtum betri en hjá öðrum stórum rándýrum Afríku.

Afrísku villihundarnir veiða venjulega í ljósaskiptunum kvölds og morgna. Þeir nota fyrst og fremst sjón til að staðsetja bráðina. Þegar þeir hafa komið auga á heppilega bráð er hún elt uppi þar til hún þreytist en þá leggja þeir til atlögu og rífa hana í sig á meðan hún er enn uppistandandi. Villihundarnir gleypa í sig kjötið af nýfelldri bráðinni enda eiga þeir alltaf von á að ljón komi og hreki þá frá. Þeir virðast geta þolað hræætur nálægt sér nema ef vera skyldu blettahýenur (Crocuta crocuta). Ef ein eða tvær eru nærri ráðast þeir hiklaust á þær og reyna að drepa þær. Stórir hópar blettahýena geta hins vegar auðveldlega hrakið villihundana frá bráðinni.

Villihundar drepa venjulega bráð sem er um helmingi stærri en þeir, svo sem impala (Aepyceros melampus) og kjarrantilópur (Sylvicapra grimmia), auk gamalla og veikra einstaklinga af stærri tegundum eins og gný (Connochaetes spp.) og sebrahesta (Equus spp.). Auk þess leggja þeir sér til munns eitthvað af smærri spendýrum og ungviði grasbíta.

Afríska villihundinum hefur hnignað verulega frá því sem áður var þar sem heimkynni hans hafa að miklu leyti verið tekin undir akuryrkju. Hann er til að mynda algerlega horfinn í vestur- og miðhluta Afríku og einnig af stórum svæðum í austurhluta álfunnar. Í dag finnst hann aðallega í suðurhlutanum eins og áður sagði.

Fækkun innan tegundarinnar hefur verið svo mikil undanfarna áratugi að árið 1996 settu alþjóðlegu náttúruverndarsamtökin IUCN hann á lista yfir tegundir í útrýmingarhættu (e. endangered). Vísindamenn telja að heildar stofnstærð villtra dýra sé um þrjú til fimm þúsund hundar. Óttast er að enn eigi eftir að fækka í stofninum á komandi árum þar sem aukin nautgriparækt og annar landbúnaður í álfunni gengur á heimkynni hans. Sjúkdómar hafa einnig herjað á tegundina, en hundaæði hefur til dæmis verið vandamál á sumum svæðum.

Heimildir og mynd:
  • Estes, R. 1991. The Behavior Guide to African Mammals. Berkeley and Los Angeles, California: The University of California Press.
  • Nowak, R. 1999. Walker's Mammals of the World 6. útg. Baltimore: The Johns Hopkins University Press.
  • Stuart, C., T. Stuart. 1995.
  • Stuart's Field Guide to the Mammals of Southern Africa. Cape Town: Struik.
  • McNutt, J.W., Mills, M.G.L., McCreery, K., Rasmussen, G., Robbins, R. & Woodroffe, R. 2004. Lycaon pictus. Á: IUCN 2004. 2004 IUCN Red List of Threatened Species. Skoðað í mars 2006.
  • African Safari Pictures
  • National Geographic Photo Galleries
...