Mannheim-háskóli og Tennessee-háskóli gefa út tvisvar á ári lista um öflugustu ofurtölvurnar í heiminum hverju sinni (sjá mynd hér að neðan, smellið á myndina til að sjá hana stærri). Þessi listi byggir ekki á hrárri reiknigetu heldur því hversu vel tölvunum gengur að leysa geysistórar línulegar jöfnur. Tölvurnar eru látnar leysa eins stórar jöfnur og þær ráða við og mælt hve margar reikniaðgerðir þær framkvæma á sekúndu. Þessi aðferð er kölluð LINPACK-mæling (LINPACK Benchmark), en LINPACK er pakki af algrímum (e. algorithms) til að reikna línulega algebru.
Samkvæmt þessum lista var öflugasta tölva veraldarinnar í júní 1999 gripur sem heitir ASCI Red, en ASCI er stytting fyrir "Accelerated Strategic Computing Initiative". ASCI er samvinnuverkefni þriggja rannsóknarstofnana og varnaráætlunar bandaríska orkuráðuneytisins sem ætlað er að skapa framúrskarandi tölvulíkön og tölvuherma sem notaðir verða til að líkja eftir kjarnaorkusprengingum og öðru slíku. ASCI Red er svo sem engin venjuleg borðtölva, heldur er hún í 104 stórum skápum, sjá mynd, og er með 9632 stykki af Pentium II Xenon, 333 MHz örgjörvum. Hún er með 606 GB innra minni (20 skápar) og 12,5 TB diskpláss. GB er stytting á gígabæti (109 bæti) sem jafngildir 1000 megabætum. Til viðmiðunar mætti geta þess að DVD diskur sem tekur heila bíómynd er 17 GB, þannig að það komast 35 bíómyndir fyrir í vinnsluminninu! TB er stytting á terabæti (1012 bæti) sem jafngildir 1000 gígabætum og því rúmar harði diskurinn um 735 bíómyndir. Þessi tölva var framleidd í samvinnu Intel og Sandia National Laboratories í Bandaríkjunum. Hún er í eigu Sandia sem er rannsóknarstofnun á vegum Bandaríkjastjórnar sem er ásamt tveimur öðrum rannsóknarstofum í ASCI verkefninu. Þeir hafa hannað allt sem ekki hefur að gera með kjarnorku í kjarnorkuvopnabúri Bandaríkjanna. Auk þess að vera öflugasta tölva veraldar þá er hún merkileg fyrir þær sakir að hún er fyrsta TOPS-tölvan. TOPS stendur fyrir "Tera Operations Per Second" eða Tera aðgerðir á sekúndu. Tölvan getur því framkvæmt billjón (1.000.000.000.000) aðgerðir á sekúndu. Í öðru sæti var ASCI Blue-Pacific SST, IBM SP604e, öðru nafni IBM RS/6000 SP. Hún er í svipuðum skala: 162 skápar með 5808 stykki PowerPC 604, 332 MHz örgjörva, 2,6 TB í innra minni (pláss fyrir 152 bíómyndir í vinnsluminninu á þessari), 62,5 TB diskpláss (3675 bíómyndir á harða disknum!). Þessi vél er framleidd af IBM fyrir Lawrence Livermore National Laboratory í Bandaríkjunum, sem er önnur af þremur rannsóknarstofnunum í ASCI verkefninu. Þeir munu meira hafa verið í rannsókunum á kjarnorkunni sjálfri. Sjá nánar um 500 öflugustu tölvur veraldar: http://www.top500.org/ Frekara lesefni af Vísindavefnum:
- Hvenær var fyrsta tölvan fundin upp, hver gerði það og hve öflug var hún? eftir Hjálmtý Hafsteinsson
- Hvernig er hugsanlegt að byggja tölvur á skammtafræðilegum vinnsluaðferðum? eftir Viðar Guðmundsson
- Hver er stærsti harði diskur í heimi og hver á hann? eftir Bergþór Jónsson
- Hversu stór er Cray X1 ofurtölvan? eftir EÖÞ