Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.
Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar
um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að
svara öllum spurningum.
Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að
svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki
nægileg deili á sér.
Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.
Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!
Þegar grannt er skoðað er efnismenning jólanna nú til dags ekki ýkja merkileg í þeim skilningi að eiginlega bara jólaskrautið er geymt á milli ára og kannski jólatrén í vaxandi mæli eftir því sem æ fleiri þeirra eru úr plasti. Það sem aftur á móti einkennir jólahald nútímans eru gegndarlaus innkaup á fatnaði, bókum og mat jafnt til neyslu og gjafa. Án þess fjárausturs þætti sjálfsagt mörgum lítið varið í viðburðinn og mun mega rekja upphaf þess hugarástands svo sem hálfa öld aftur í tímann eða ríflega það. Íslenskt samfélag á fyrri öldum var annars eðlis. Peningamagn í umferð var sáralítið og innflutningur á varningi erlendis frá takmarkaðist við brýnustu nauðsynjar og varla það. Efnaðar fjölskyldur gátu þó leyft sér einhvern munað. Jólatré voru þannig fyrst sett upp í kaupstöðum um miðja 19. öld og barst siðurinn frá Danmörku þar sem hann var nokkrum áratugum eldri. Í byrjun 20. aldar tók útbreiðslan kipp og oftar en ekki voru trén þá smíðuð heima fyrir, enda ekki mikið um grenitré í landinu. Um og eftir 1940 tóku kaupahéðnar til við að flytja inn jólatré í stórum stíl.
Ljóst er af lýsingum sem til eru í sjálfsævisögum frá síðari hluta 19. aldar og í þjóðsagnatengdu efni sem er nokkru eldra að jólin voru afar mikilvæg í hugum alls þorra þjóðarinnar, enda fæðingarhátíð Krists sem var í miklum metum, sonur Guðs. Húsakynni voru þvegin hátt og lágt. Reynt var að hafa matinn sem bestan og ríflegastan. Ef marka má orð Jóns Árnasonar þjóðsagnasafnara árið 1862 var jafnframt – og kannski einkum – lagt upp úr því að hafa sem mesta birtu, jafnt í kirkjum sem í heimahúsum, ekki síst fyrir börnin: „þá er ekki lítið um dýrðir fyrir börnunum sem hlakka til að sjá svo mörg ljós sem kostur er á að sjá“ (Íslenzkar þjóðsögur II, bls. 548). Sama áhersla birtist í lýsingu Sveins Pálssonar, læknis og náttúrufræðings, á því hvernig skólapiltar í Hólavallaskóla í Reykjavík með ærnum tilkostnaði skreyttu skólann á aðfangadagskvöld árið 1791: „Alls eru sett upp um 300 kerti í tvöfalda röð meðfram gluggum og í ljósahjálma í loftinu. Sérstaklega er kennarapúltið skreytt með ljósum, lagt silki og öðrum slíkum útbúnaði“ (Árni Björnsson, Jól á Íslandi, bls. 135).
Að mati Jóns Árnasonar voru jólin „móðir allra hátíða“ og það eitt nefnir hann um efnisleg aðföng að miklu varðaði að allir eignuðust nýja flík að fara í á aðfangadagskvöld, svo sem til að fara ekki í jólaköttinn sem þá ýmist tók fólk með sér út í myrkrið eða át það á staðnum. Séra Jónas Jónasson á Hrafnagili gerir meira úr jólasveinunum – og miðar við lok 19. aldar – en ræðir líka jólaköttinn og leggur sömu áherslu á mikilvægi lýsingar í bæjarhúsum „svo að hvergi bæri skugga á“ (Íslenzkir þjóðhættir, bls. 209). Báðir höfundar geta þess að á stórum og vel stæðum heimilum hafi gjarnan verið efnt til veislu og jafnvel nágrönnum boðið, eða þá að heimili tóku sig saman um gleðskapinn. Til eru frásagnir í þá veru sem ná aftur fyrir miðja 18. öld og hafði Magnús Andrésson á Kópsvatni í Hrunamannahreppi eina þeirra eftir ömmu sinni, Marín Guðmundsdóttur, sem var fædd um 1720: „Baðstofan var uppljómuð með ljósum. Síðan paraði gleðifólkið sig saman, kall og kona, héldust í hendur og stigu dans í hring með kvæðasöng.“ Yfirvöld ömuðust auðvitað við slíku athæfi og nægja fáeinar setningar úr bréfi Jóns Árnasonar biskups 13. janúar 1733, sem líklega vísa til atvika í Flóanum um nýliðin jól: „Svoddan vökunætur og gleðileikir eru, að minni meiningu, svívirðing bæði fyrir Guði og öllum guðhræddum mönnum, og eiga þess vegna engan veginn að líðast. Þeirra nytsemi er engin, svo ég sjái, heldur eru þeir sæði andskotans í vantrúuðum mönnum sem eru fullir af gjálífi og vondum girndum og tilhneigingum, í hverjum djöfulsins ríki hefur fengið yfirhönd“ (Árni Björnsson, Jól á Íslandi, bls. 109, 111).
Skemmtanir, uppljómuð herbergi og matarnautn skilja ekki annað eftir sig en minninguna. Jólagjafir lifa heldur ekki áfram sem slíkar, heldur hverfa þær inn í eignasafn þiggjandans þyki þær einhvers nýtar. Þær eru líka fyrirbæri úr nútímanum, sem aftur sýnir að efnismenning jólanna nú er harla hverful. Reyndar var farið að auglýsa varning til jólagjafa seint á 19. öld en heldur dauflega, svo sem í Þjóðólfi 7. desember 1881, neðst á síðu í tveimur prentlínum: „Við verzlun herra Th. A. Thomsen eru byrgðir af glysvarnaði, sem hentugur er til jólagjafa. Einnig fæst þar Hoffs heilbrigðisöl og kostar hálfflaskan 85 aura“ (bls. 78). Sjö árum síðar upp á dag var þó farið að færast fjör í leikinn og athafnamaðurinn Sigfús Eymundsson, bóksali og ljósmyndari, lét prenta heilan dálk með nýjungum sem höfðu borist með síðasta póstskipi og voru „hentugar til jólagjafa“; má nefna albúm fyrir ljósmyndir, fallega hnífa og vasablýanta, náðhúsapappír, bókatöskur fyrir skólabörn og útlend skáldverk í skrautútgáfum, að ógleymdum jólakortum og ekki síst ljósmynd af Jóni Sigurðssyni forseta (Þjóðólfur 7. desember 1888, bls. 228).
Árið 1888 lét Sigfús Eymundsson prenta heilan dálk með nýjungum sem höfðu borist með síðasta póstskipi og voru „hentugar til jólagjafa“.
Þetta væri efni í mikla rannsókn en slíkur áróður hefði verið óhugsandi hálfri öld fyrr þegar helstu tíðindin í neyslu landsmanna voru að alþýða hafði orðið efni á því að drekka kaffi á hverjum degi. Að öðru leyti var öllu haldið í skefjum og ekkert keypt sem ekki var bráðnauðsynlegt, hvorki um jól né á öðrum tímum árs. Þetta aðhald birtist greinilega í uppskriftum dánarbúa sem varðveitt eru þúsundum saman frá 19. öld og nægir eitt dæmi frá Húsatóftum í Grindavík árið 1812, eftir að Þorsteinn Sigurðsson bóndi þar drukknaði 38 ára gamall frá konu og þremur barnungum dætrum. Heimilið var í meðallagi stætt og búsgögn sem tengdust hversdagsneyslu sem hér segir: stór járnpottur og tveir litlir, átta tunnur og fjögur keröld til geymslu matvæla, fjórar mjólkurfötur og sjö mjólkurtrog, drykkjarkanna og drykkjarlegill, fjórar skálar og sjö askar, en ellefu „matarspænir“ eða með öðrum orðum skeiðar. Til lýsingar innanhúss voru tveir lampar og ein kola (Þessi sárfátæka sveit, bls. 122–126).
Svarið við spurningunni er því einfalt: Nei, Íslendingar áttu fyrr á öldum ekkert sem beinlínis tengdist jólahaldi.
Heimildir
Árni Björnsson, Jól á Íslandi. Reykjavík: Sögufélag 1963.
Jón Árnason, Íslenzkar þjóðsögur og ævintýri. Sex bindi. Önnur útgáfa. Árni Böðvarsson og Bjarni Vilhjálmsson önnuðust útgáfuna. Reykjavík: Bókaútgáfan Þjóðsaga 1961.
Jónas Jónasson, Íslenzkir þjóðhættir. Þriðja útgáfa. Einar Ólafur Sveinsson bjó undir prentun. Reykjavík: Ísafoldarprentsmiðja 1961.
Þessi sárfátæka sveit. Lausafjáreign í Grindavík og Krísuvík árin 1773–1824. Már Jónsson annaðist útgáfuna. Grindavík: Grindavíkurbær 2018.
Már Jónsson. „Áttu Íslendingar á 18. og 19. öld einhverja muni sem tengdust jólum eða jólahaldi?“ Vísindavefurinn, 21. desember 2021, sótt 21. nóvember 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=58021.
Már Jónsson. (2021, 21. desember). Áttu Íslendingar á 18. og 19. öld einhverja muni sem tengdust jólum eða jólahaldi? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=58021
Már Jónsson. „Áttu Íslendingar á 18. og 19. öld einhverja muni sem tengdust jólum eða jólahaldi?“ Vísindavefurinn. 21. des. 2021. Vefsíða. 21. nóv. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=58021>.