Sólin Sólin Rís 10:17 • sest 16:10 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 21:40 • Sest 15:54 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 10:12 • Síðdegis: 22:46 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 03:46 • Síðdegis: 16:36 í Reykjavík
Sólin Sólin Rís 10:17 • sest 16:10 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 21:40 • Sest 15:54 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 10:12 • Síðdegis: 22:46 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 03:46 • Síðdegis: 16:36 í Reykjavík
LeiðbeiningarTil baka

Sendu inn spurningu

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Er hægt að sanna að guð sé til?

Þorsteinn Vilhjálmsson

Þessi spurning hefur löngum verið áleitin í kristnum menningarheimi. Mestu heimspekingar Vesturlanda hafa brotið heilann um hana og sýnist sitt hverjum um niðurstöður og árangur úr þeirri viðleitni.

Ef við höfum í huga að kristnin er aðeins ein af mörgum trúarbrögðum manna, þá vaknar auðvitað meðal annars sú spurning, hvaða guð sé átt við í spurningunni. Ef Guð kristinna manna er til hvað þá með guði annarra trúarbragða, svo sem Búddatrúar, Hindúatrúar, Ásatrúar og svo framvegis? Hér bætist enn við að mörg trúarbrögð eru ekki eingyðistrú eins og kristnin, heldur fjölgyðistrú eins og Ásatrúin sem við þekkjum líklega best af slíkum trúarbrögðum. Ef Guð kristninnar er til, eru Óðinn og Þór þá líka til?

Oft er sagt að múslímar og Gyðingar hafi sama guð og kristnir menn af því að það heitir svo í trúarbókunum. Gamla testamentið er meirihluti Biblíunnar að blaðsíðutali og það er um leið trúarbók Gyðinga. Samkvæmt Kóraninum er Allah, guð múslíma, sami guðinn og Jahve, guð Gyðinga og kristinna manna, og spámenn Gamla testamentisins teljast ásamt Kristi og Múhameð til spámanna íslams eða múhameðstrúar. En samt er ekkert víst að þetta sé sami guðinn ef betur er að gáð. Til dæmis finnst mörgum að Guð Nýja testamentisins sé talsvert ólíkur Guði Gamla testamentisins.

Annað sem vert er að staldra við í þessari spurningu er það, hvað þýðir "að vera til" þegar svona er spurt. Margir sem eru trúaðir telja það til persónulegrar reynslu sem ekki sé hægt að deila með öðrum nema að takmörkuðu leyti. Menn móta þá kannski með sér persónulega heildarmynd af tilverunni þar sem þeir tvinna saman þekkingu og trú þannig að sem minnstir árekstrar verði þar á milli. Þegar horft er á málið frá slíkum persónulegum sjónarhóli getur fullyrðingin um að guð "sé til" fengið þá merkingu að hann sé til í huga þess sem talar án þess að hann þurfi að vera til á venjulegan hátt, þannig að hægt sé að deila því með öllum öðrum. Og margir gætu líklega samsinnt því að guð "sé til" í þessum skilningi, það er að segja að hann sé til í hugum margra.

Enn er þess að geta að margir halda því fram að trúarbrögð og guðir séu mannanna verk. Meðal annars er slík hugmynd ekki fjarri grundvallarviðhorfum flestra vísinda. Hins vegar breytir hún auðvitað engu um það hvort guð kunni að vera til eða ekki. En hún getur leitt hugann að því að líta megi á guði í eingyðistrúarbrögðum sem eins konar tákn mannkynsins eða samfélagsins í heild. Svo mikið er víst að menn sem láta trúarbrögð vísa sér leið til góðra verka eru um leið að þjóna samfélagi sínu.

Vonandi er ljóst af framansögðu að sá sem hér heldur á penna telur ekki hægt að sanna að tiltekinn guð "sé til" í venjulegri merkingu þeirra orða. Hins vegar er hægt að fræðast um viðhorf annarra til svipaðra spurninga með því að smella á efnisorðin sem fylgja svarinu.

Höfundur

Þorsteinn Vilhjálmsson

prófessor emeritus, ritstjóri Vísindavefsins 2000-2010 og ritstjóri Evrópuvefsins 2011

Útgáfudagur

5.4.2006

Spyrjandi

Jónatan Jónatansson, f. 1993
Hersir Aron ÓIafsson, f. 1993

Tilvísun

Þorsteinn Vilhjálmsson. „Er hægt að sanna að guð sé til?“ Vísindavefurinn, 5. apríl 2006, sótt 21. nóvember 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=5786.

Þorsteinn Vilhjálmsson. (2006, 5. apríl). Er hægt að sanna að guð sé til? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=5786

Þorsteinn Vilhjálmsson. „Er hægt að sanna að guð sé til?“ Vísindavefurinn. 5. apr. 2006. Vefsíða. 21. nóv. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=5786>.

Chicago | APA | MLA

Senda grein til vinar

=

Er hægt að sanna að guð sé til?
Þessi spurning hefur löngum verið áleitin í kristnum menningarheimi. Mestu heimspekingar Vesturlanda hafa brotið heilann um hana og sýnist sitt hverjum um niðurstöður og árangur úr þeirri viðleitni.

Ef við höfum í huga að kristnin er aðeins ein af mörgum trúarbrögðum manna, þá vaknar auðvitað meðal annars sú spurning, hvaða guð sé átt við í spurningunni. Ef Guð kristinna manna er til hvað þá með guði annarra trúarbragða, svo sem Búddatrúar, Hindúatrúar, Ásatrúar og svo framvegis? Hér bætist enn við að mörg trúarbrögð eru ekki eingyðistrú eins og kristnin, heldur fjölgyðistrú eins og Ásatrúin sem við þekkjum líklega best af slíkum trúarbrögðum. Ef Guð kristninnar er til, eru Óðinn og Þór þá líka til?

Oft er sagt að múslímar og Gyðingar hafi sama guð og kristnir menn af því að það heitir svo í trúarbókunum. Gamla testamentið er meirihluti Biblíunnar að blaðsíðutali og það er um leið trúarbók Gyðinga. Samkvæmt Kóraninum er Allah, guð múslíma, sami guðinn og Jahve, guð Gyðinga og kristinna manna, og spámenn Gamla testamentisins teljast ásamt Kristi og Múhameð til spámanna íslams eða múhameðstrúar. En samt er ekkert víst að þetta sé sami guðinn ef betur er að gáð. Til dæmis finnst mörgum að Guð Nýja testamentisins sé talsvert ólíkur Guði Gamla testamentisins.

Annað sem vert er að staldra við í þessari spurningu er það, hvað þýðir "að vera til" þegar svona er spurt. Margir sem eru trúaðir telja það til persónulegrar reynslu sem ekki sé hægt að deila með öðrum nema að takmörkuðu leyti. Menn móta þá kannski með sér persónulega heildarmynd af tilverunni þar sem þeir tvinna saman þekkingu og trú þannig að sem minnstir árekstrar verði þar á milli. Þegar horft er á málið frá slíkum persónulegum sjónarhóli getur fullyrðingin um að guð "sé til" fengið þá merkingu að hann sé til í huga þess sem talar án þess að hann þurfi að vera til á venjulegan hátt, þannig að hægt sé að deila því með öllum öðrum. Og margir gætu líklega samsinnt því að guð "sé til" í þessum skilningi, það er að segja að hann sé til í hugum margra.

Enn er þess að geta að margir halda því fram að trúarbrögð og guðir séu mannanna verk. Meðal annars er slík hugmynd ekki fjarri grundvallarviðhorfum flestra vísinda. Hins vegar breytir hún auðvitað engu um það hvort guð kunni að vera til eða ekki. En hún getur leitt hugann að því að líta megi á guði í eingyðistrúarbrögðum sem eins konar tákn mannkynsins eða samfélagsins í heild. Svo mikið er víst að menn sem láta trúarbrögð vísa sér leið til góðra verka eru um leið að þjóna samfélagi sínu.

Vonandi er ljóst af framansögðu að sá sem hér heldur á penna telur ekki hægt að sanna að tiltekinn guð "sé til" í venjulegri merkingu þeirra orða. Hins vegar er hægt að fræðast um viðhorf annarra til svipaðra spurninga með því að smella á efnisorðin sem fylgja svarinu....