Hlutverk Veðurstofunnar var aukið og var henni meðal annars falið ákvörðunarvald um rýmingu húsnæðis vegna yfirvofandi snjóflóðahættu í samráði við heimamenn en áður höfðu almannavarnanefndir í héraði haft þetta hlutverk með höndum. Einnig var fagleg ábyrgð á hættumati vegna ofanflóða, sem áður var á könnu Almannavarna ríkisins og Ofanflóðanefndar sem starfaði almannavörnum til ráðuneytis, færð til Veðurstofunnar og efldar ýmsar rannsóknir sem tengjast hættumati og ofanflóðum við íslenskar aðstæður. Snjóathugunarmenn, sem starfað höfðu á vegum sveitarfélaga, sýslumannsembætta og almannavarna á nokkrum stöðum landsins, voru jafnframt færðir undir Veðurstofuna. Eftir þessar breytingar á skipulagi ofanflóðamála fellur starfsemi Veðurstofunnar á þessu sviði í meginatriðum undir fimm verkefnaflokka:
- Vöktun á snjóflóðahættu, þar með talinn rekstur athugunarmannakerfis.
- Skráning á upplýsingum um snjóflóð, bæði flóðum sem falla á hverjum vetri og einnig söfnun sögulegra upplýsinga, svo og rekstur tölvutæks ofanflóðagagnasafns í samvinnu við Náttúrufræðistofnun Íslands.
- Hættumat vegna ofanflóða.
- Rannsóknir á ofanflóðum, meðal annars í samvinnu við erlendar vísindastofnanir.
- Ráðgjöf til stjórnvalda um varnarvirki og rannsóknir á varnarvirkjum við íslenskar aðstæður.
Eins og áður var minnst á þá þarf að huga að ofanflóðahættu víðar en í þéttbýli. Undirbúningur hættumats fyrir skíðasvæði hófst á Veðurstofunni árið 2004 og var það verkefni vistað á nýstofnuðu Snjóflóðasetri Veðurstofunnar á Ísafirði. Hættumat fyrir skíðasvæðin í Oddsskarði milli Norðfjarðar og Reyðarfjarðar (Fjarðabyggð) og Skarðsdal í Siglufirði (Fjallabyggð) hefur verið kynnt fyrir rekstraraðilum og unnið er að mati á hættu á nokkrum öðrum skíðasvæðum landsins. Snjóflóðasetrið á Ísafirði tók við ýmsum ofanflóðaverkefnum sem áður var sinnt í höfuðstöðvum Veðurstofunnar í Reykjavík, meðal annars umsjón athugunarmannakerfis, og starfsmenn setursins taka þátt í vöktun snjóflóðahættu að vetrarlagi með starfsmönnum ,,Reykjavíkurseturs". Einnig eru stundaðar ýmsar rannsóknir á snjóflóðum á Ísafjarðarsetrinu, þar með talið snjóflóðalíkanreikningar, mælingar á snjóflóðum sem komið er að stað með sprengingum og fleira. Vinna er einnig hafin á Veðurstofunni við kerfisbundna könnun á ofanflóðahættu í dreifbýli en talið er að umtalsverð hætta sé á nokkur hundruð sveitabæjum hér á landi. Auk þessara nýju verkefna við hættumat, á skíðasvæðum og í dreifbýli, verða starfsmenn Veðurstofunnar varir við þörf á bættri þjónustu á nokkrum sviðum til viðbótar sem huga þarf að á næstu árum. Sem dæmi má nefna bættar snjóflóðaspár fyrir vegi og vegna ferðalaga í óbyggðum. Þar kemur til greina stigskipt greining á snjóflóðahættu fyrir ákveðin landsvæði eins og tíðkast í sumum nágrannalöndunum. Einnig er þörf á bættri miðlun upplýsinga til almennings um snjóflóð jafnóðum og fregnir berast til snjóflóðavaktar um fallin flóð og aukna samvinnu við starfsmenn Vegagerðar, skíðasvæða, veitufyrirtækja og almenning um skráningu snjóflóða. Frekari fróðleikur á Vísindavefnum:
- Af hverju falla snjóflóð? eftir Hörpu Grímsdóttur
- Hvar er mesta snjóflóðahættusvæði á Íslandi? eftir Hörpu Grímsdóttur og Emilíu Dagnýju Sveinbjörnsdóttur
- Hverjir rannsaka eldgos? eftir Freystein Sigmundsson
- Sveinsgil: Lexi.is. Sótt 25. 11. 2010.
- Hlíðarfjall: Gallery. Höfundur myndar: Benedikt Barðason. Sótt 25. 11. 2010.