[Descartes] hafði þar með sýnt fram á það að um himneska hluti giltu sömu lögmál og gilda um jarðneska hluti. Í öllu efni væru hringiður eða hvirflar, og heimurinn samanstæði ekki af öðru en slíkum hvirflum. Í hvirflunum væri þyngdarlögmál að verki sem ylli því að reikistjörnurnar þeystu ekki í beina línu burt frá sólinni eins og þær ættu að gera samkvæmt tregðulögmálinu. Þær dragast að sólinni eins og pappírsbleðill dregst að miðju hringiðu í vatni.1Þessi tilvitnun svarar líklega ekki spurningunni á fullnægjandi hátt og því er ekki úr vegi að skoða aðeins nánar eðlisfræði Descartes. Þar verður svokallað tregðulögmál fyrst fyrir okkur. Það er líklega þekktara sem fyrsta lögmál Newtons en það segir að hlutir á ferð haldi jafnri hreyfingu sinni nema á þá verki kraftar eða loftmótstaða. Kyrrir hlutir halda kyrru fyrir. Galileo Galilei (1564–1642) hafði fyrstur reynt að koma orðum að þessu lögmáli og tókst Descartes að betrumbæta skýringuna á því þannig að stundum er talað eins og hann hafi uppgötvað það.
- 1 René Descartes, Hugleiðingar um frumspeki, íslensk þýðing eftir Þorstein Gylfason (Reykjavík: Hið íslenska bókmenntafélag, 2001), bls. 43.