Öll krabbamein einkennast af afbrigðilegri frumufjölgun og því að frumurnar hegða sér ekki lengur rétt í samfélagi frumna. Er þá talað um að frumurnar séu illkynja. Þær ryðja sér braut inn í heilbrigðan vef og vaxa inn í blóðæðar og sogæðar. Þannig geta þær dreift sér víðs vegar um líkamann og myndað meinvörp.Um þetta má einnig lesa nánar í svari við spurningunni Hvað er það sem gerist í frumunum þegar við fáum krabbamein?
Einkenni krabbameins eru bæði einstaklingsbundin og misjöfn eftir tegundum krabbameins. Helga Ögmundsdóttir segir í svari sínu við spurningunni Hvernig veit maður hvort maður er með krabbamein?:
Fólk getur fundið hjá sér ákveðin einkenni eða hættumerki sem gætu verið vísbending um tiltekið krabbamein. Þannig geta konur fundið hnút í brjósti, sem vekur grun um brjóstakrabbamein, fólk getur orðið vart við breytingu á hægðum, eða blóð í hægðum, sem getur verið merki um ristilkrabbamein, fæðingarblettur getur farið að stækka og breyta um lögun, sem gæti verið byrjun á sortuæxli í húð, og svo framvegis. Í þessum dæmum er um að ræða grun um tiltekið krabbamein og með læknisrannsókn er hægt að ganga úr skugga um hvort um það er að ræða.Mikið efni er til á Vísindavefnum um krabbamein sem hægt er að finna með því að setja orðið inn í leitarvélina á forsíðunni eða smella á efnisorðin hér fyrir neðan.