Boxarinn heimsfrægi Cassius Clay tók upp nafnið Muhammad Ali þegar hann gerðist múslími.
Á vefnum Wikipedia er að finna lista yfir algengustu mannanöfn í nokkrum löndum og á afmörkuðum svæðum heims. Takmarkaður fjöldi landa á þessum lista helgast sjálfsagt af því að upplýsingar af þessu tagi eru sjaldnast eins aðgengilegar og til dæmis hér á landi þar sem Hagstofa Íslands heldur utan um þessa tölfræði. Á síðunni Behind the Name má einnig nálgast lista yfir algeng nöfn í völdum löndum, aðallega í Evrópu. Rétt er að taka fram að hér er oftast um að ræða þau nöfn sem vinsælast hefur verið að gefa börnum á síðustu árum, en það þurfa alls ekki að vera algengustu nöfnin þegar litið er á þjóðina í heild. Sem dæmi má nefna að vinsælustu nöfn á drengjum sem fæddust á Íslandi árið 2009, voru Alexander, Daníel og Jón og á stúlkum Anna, Rakel og Emilía/Emelía. Hins vegar eru Jón, Sigurður og Guðmundur algengustu karlmannsnöfnin og Guðrún, Anna og Sigríður algengustu kvenmannsnöfnin. Það getur verið fróðlegt að skoða hvaða nöfn eru vinsæl í hinum ýmsu heimshlutum og hafa þá tungumál, menningu og trúarbrögð í huga. Í múslímaríkjum eru, auk Múhameðs, karlmannsnöfn eins og Ahmed, Hassan, Youssef og Abdul algeng, en af algengum kvenmannsnöfnum má meðal annars nefna Aya og Fatima. Nokkra samsvörun má sjá í vinsælustu nöfnunum í Ástralíu, Nýja-Sjálandi og Bretlandi en þar eru Jack, William, Oliver, Thomas, James og Joshua meðal algengustu karlmannsnafna en Emily, Olivia, Ruby, Amelia og Chloe dæmi um vinsæl kvenmannsnöfn. Í Bandaríkjunum voru vinsælustu strákanöfnin árið 2009 Jacob, Ethan, Michael, Alexander og William en Isabella, Emma, Olivia, Sophia og Ava vinsælustu stúlkunöfnin. Í efstu tíu sætunum voru fleiri nöfn sem einnig eru vinsæl í öðrum enskumælandi löndunum, svo sem Joshua, Daniel, Emily og Chloe.
Ef við lítum okkur nær og horfum til Norðurlandanna, nánar tiltekið Danmerkur, Noregs og Svíþjóðar, má sjá að karlmannsnafnið Lucas og kvenmannsnafnið Emma eru mjög vinsæl í öllum þessum löndum nú um stundir. Í Noregi var algengast árið 2009 að gefa drengjum nöfnin Lucas, Emil, Alexander, Oliver og Mathias og stúlkum nöfnin Emma, Linnea, Nora, Sofie og Sara. Í Svíþjóð voru flestir strákar fæddir 2009 skírðir Lucas, Elias, Oscar, William og Hugo en algengustu stúlkunöfnin voru Alice, Maja, Ella, Emma og Elsa. Í Danmörku voru það svo nöfnin Mikkael, Lucas, William, Emil og Noah sem flestir drengir fengu árið 2009 og Freja, Ida, Emma, Lærka og Caroline meðal stúlkna. Frekari fróðleikur á Vísindavefnum:
- Hvað hét Múhameð spámaður fullu nafni? eftir Jón Gunnar Þorsteinsson
- Af hverju þurfa menn að heita eitthvað? Af hverju ekki bara þú, hún eða hann? eftir Erlendur Jónsson
- Eru til menningarheimar þar sem fólk er nafnlaust? eftir Guðrúnu Kvaran
- Hvað eru til mörg nöfn á Íslandi? eftir Guðrúnu Kvaran
- Hver eru 10 sjaldgæfustu nöfnin á Íslandi? eftir Guðrúnu Kvaran
- Eru til einhver séríslensk mannanöfn? eftir Guðrúnu Kvaran
- List of most popular given names á Wikipedia. Skoðað 8. 10. 2010.
- Mohammed is most popular name for baby boys in London á Telegraph.co.uk. Skoðað 8. 10. 2010.
- Popular Baby Names á Social Security Online. Skoðað 8. 10. 2010.
- Namnestatistikk, 2009 á Statistisk sentralbyrå. Skoðað 8. 10. 2010.
- Mest populære navne for danskere født i et bestemt år á Danmarks statistik. Skoðað 8. 10. 2010.
- Alice och Lucas populäraste namnen 2009 á Statistiska centralbyrån. Skoðað 8. 10. 2010.
- Hve margir heita? á Hagstofa Íslands. Skoðað 8. 10. 2010.
- Mynd af Muhmmad Ali: Muhammad Ali, The Champ: previously unseen photographs á Telegraph.co.uk. Sótt 8. 10. 2010.
- Mynd af tvíburum: Meet the Multiples: Photo Gallery of Twins and Multiples á About.com. Sótt 11. 10. 2010.