Því engi er sá maður, hvorki meira háttar, né minna, að ekki fái eitthvert nafn, þá hann eitt sinn er til kominn, því allir foreldrar gefa heiti börnum sínum, þá þau eru fædd. (Sveinbjörn Egilsson 1948)Þetta lætur skáldið Hómer Alkinóus segja við hina róðrargjörnu Feaka í áttunda þætti Ódysseifskviðu en hún var ort á 8. öld fyrir Krist. Í þúsundir ára hefur tíðkast að mönnum séu gefin nöfn og mannanöfn koma fyrir í elstu rituðum heimildum. Þótt meginhlutverk nafna sé að greina persónur hverja frá annarri liggja oft aðrar ástæður að baki nafngiftum. Gyðingar gáfu oft alvarlega veikum sjúklingi nýtt nafn í þeirri von að hann styrktist og gæti orðið að nýjum manni. Í Biblíunni eru dæmi um að nöfnum sé breytt til þess að merkingin hæfi nafnbera betur. Sumir þjóðflokkar trúa því að einstaklingur getir orðið nýr maður með því einu að breyta um nafn. Indíánaþjóðflokkur einn í Suður-Ameríku trúir því til dæmis að hver sá sem deyr af ættflokknum hafi undir höndum skrá með nöfnum ættingja sinna til þess að hann geti komið og sótt þá yfir í dauðraríkið. Til þess að koma í veg fyrir það taka ættingjarnir upp ný nöfn. Með því telja þeir sig hafa leikið á hinn látna og hann þekki þá ekki aftur. Af því sem vitað er um nafngjafir og mikilvægi þeirra tel ég ólíklegt að til séu menningarheimar þar sem engin nöfn eru gefin. Þrátt fyrir leit hefur mér ekki tekist að finna heimildir um slíkt. Heimildir:
- Sveinbjörn Egilsson. 1948. Kviður Hómers. II. Bindi. Ódysseifskviða. Bókaútgáfa Menningarsjóðs, Reykjavík.
- Guðrún Kvaran. 1991. Formáli að verkinu Nöfn Íslendinga. Heimskringla, Reykjavík.
- Kapla, Justin og Bernays, Anne. 1997. The Language of Names. Simon & Schuster, New York.
- Wikimedia Commons. (Sótt 11.7.2018).