Hvað er hrörnunarstuðull?Stærðirnar helmingunartími (half-life) og hrörnunarstuðull eða sundrunarstuðul (decay constant) eru notaðar í tengslum við svokallaða veldishrörnun eða vísishrörnun (exponential decay). Veldisvöxtur kallast það þegar stærð vex á hraða sem er í beinu hlutfalli við stærðina sjálfa. Eftir því sem stærðin er meiri, því hraðar vex hún. Veldisvöxtur lýsir því stækkun þar sem vöxturinn er hraðari eftir því sem hluturinn er stærri. Á sama hátt kallast það veldishrörnun þegar stærð minnkar á hraða sem er í hlutfalli við stærðina, þegar stærðin verður minni hægir á hrörnuninni. Ýmsar stærðir í náttúrunni sýna annað hvort veldisvöxt eða veldishrörnun. Dæmi um veldisvöxt má meðal annars finna í dýraríkinu þar sem einfalt líkan gerir ráð fyrir að fjöldi dýra í ákveðnu vistkerfi vaxi samkvæmt veldisfalli ef engar takmarkanir eru á fæðuframboði. Eftir því sem fleiri dýr eru til staðar þeim mun meiri verður fjölgun þeirra. Þannig getur þeim fjölgað með veldisvexti þangað til þættir einsog takmörkuð fæða eða búsvæði fara að hafa áhrif. Eitt þekktasta dæmið um veldishrörnun er á sviði geislavirkni, þar sem geislavirkum kjörnum fækkar veldislega. Fjöldi kjarna sem hrörnar og geislar frá sér á tilteknu tímabili er í réttu hlutfalli við fjölda geislavirkra kjarna í sýninu. Þegar fleiri og fleiri kjarnar í sýninu hafa hrörnað hægir á geisluninni, það er minni geislun verður á tímaeiningu þegar færri geislavirkir kjarnar eru eftir. Helmingunartími geislavirkra efna er sá tími sem það tekur helming kjarnanna í efninu að geisla frá sér og hrörna. Þessi tími er óháður upphaflegu magni efnisins. Ef við höfum 100 grömm af geislavirku efni með helmingunartímann 2 sekúndur þá munum við hafa 50 g af geislavirkum kjörnum eftir 2 sekúndur, 25 g eftir 4 sekúndur, 12,5 g eftir 6 sekúndur og svo framvegis. Þekking á helmingunartíma geislavirkra sameinda hefur reynst ómetanlegt tæki við aldursákvarðanir lífrænna og jarðfræðilegra sýna. Nánar er fjallað um þetta í svörum Sigurðar Steinþórssonar við spurningunum: Hversu áreiðanlegar eru aldursgreiningar innan jarðfræðinnar? og Er „kolefnisklukkan” alltaf áreiðanleg?
Stærðfræðilega er veldishrörnun lýst á eftirfarandi hátt:
Með því að setja N/2 í stað N0 í jöfnuna hér að ofan og leysum hana fyrir t fáum við helmingunartímann, sem er táknaður t1/2: $$t_{1/2}=\frac{ln(2)}{k}\approx \frac{0,69}{k}$$ Helmingunartíminn, t1/2, er því í öfugu hlutfalli við hrörnunarstuðulinn. Frekara lesefni á Vísindavefnum:
- Hver fann upp geislakolsaðferðina til að aldursgreina til dæmis risaeðlur og hvenær gerðist það? eftir Sigurð Steinþórsson
- Hversu lengi er geislavirkni frá kjarnorkuúrgangi að helmingast? eftir Ágúst Valfells
- Hvað er geislun og hvað eru til margar gerðir af henni? eftir Kristján Leósson og Þorstein Vilhjálmsson
Beiser, A. 2003. Concept of Modern Physics. McGraw-Hill, Boston.