- Af Anser-ættkvíslinni ber fyrst að nefna grágæsina (Anser anser) sem er Íslendingum vel kunn enda algengur og áberandi varpfugl hér á landi.
- Heiðagæs (Anser brachyrhynchus) er einnig varpfugl á Íslandi en verpir líka á Grænlandi og Svalbarða. Heiðagæsin hefur vetursetu aðallega á Bretlandi en einnig í Hollandi og á Jótlandi.
- Blesgæs (Anser albifrons) verpir á túndrusvæðum í Síberíu, Kanada og á Grænlandi. Hún kemur meðal annars við hér á landi á leið sinni til og frá varpsvæðum, aðallega sunnan- og vestanlands. Blesgæs hefur viðkomu hér á landi á vorin frá apríl og fram í miðjan maí en á haustin frá fyrri hluta september og fram í byrjun nóvember.
- Fjallgæs (Anser erythropus) er lík blesgæsinni en minni, auk þess sem hvíta blesan nær upp á koll. Varpútbreiðsla hennar er í Lapplandi og austur eftir Síberíu. Lapplandsstofninn fer suður til Grikklands til vetursetu en austurstofnarnir fara til Mið-Asíu.
- Svenjugæs (Anser cygnoides) verpir meðal annars í Mansjúríu í Kína, Mongólíu og Suðaustur-Rússlandi, bæði í Ussuri og á Sakhalin-eyju, en fer ekki langt á vetursetustöðvar, suður á Kóreuskaga og sunnar í Kína.
- Snjógæs (Anser caerulescens) verpir nyrst í Ameríku, meðal annars eru stórar varpstöðvar á kanadísku eyjunum og á Grænlandi. Vetrarstöðvar hennar eru í suðurríkjum Bandaríkjanna. Gæsin er mjallhvít með svörtum handflugfjöðrum en til er litaafbrigði sem nefnist blágæs, hjá þeim er hausinn hvítur en misjafnt er hve langt niður um hálsinn hvíti liturinn nær.
- Aðrar tegundir ættkvíslarinnar eru meðal annars mjallgæs (Anser rossii), sem verpir nyrst í Kanada, keisaragæs (Anser canagicus) sem verpir við Beringssund og taumgæs (Anser indicus) sem þekkist meðal annars á hvítum taumi niður um hliðar hálsins. Hún verpir í Mið-Asíu og hefur sést á flugi í 8 þúsund metra hæð yfir Himalajafjöllunum.
- Kanadagæsin (Branta canadensis) er án efa þekktust helsingjagæsa í Norður-Ameríku en hún verpir allt norðan frá túndrusvæðum Kanada og suður til Bandaríkjanna. Stórir stofnar hennar verpa nú í Svíþjóð en sá stofn er varpstofn nokkurra einstaklinga sem fluttir voru austur yfir haf á 19. öld. Fjölmörg afbrigði hennar eru þekkt og eru þau ákaflega breytileg að stærð. Stærstu fuglarnir verða um 8 kg en þeir minnstu um 1,5 kg eða á stærð við stokkönd.
- Helsingi (Branta leucopsis) verpir á Grænlandi, Svalbarða og Nova Zemlija við Barentshaf en hefur vetursetu í Evrópu og kemur reglulega hingað til lands á ferðum sínum til og frá varpstöðvum. Litlir varpstofnar virðast vera að myndast hér á landi.
- Margæs (Branta bernicla) er lítil, grásvört, með hvítan hálfhring um háls. Hún verpir á nyrstu ströndum allt umhverfis íshafið. Nær allur stofninn safnast til vetursetu við Norðursjóinn og kemur hingað á flugi sínu til og frá varpstöðvum, vor og haust, aðallega vestanlands. Höfuðborgarbúar geta séð nokkurn fjölda margæsa við voga innnesja og er hún mjög áberandi á túnum á Álftanesi.
- Fagurgæs (Branta ruficollis) hefur mjög sérkennilega rauða reiti á vöngum og brjósti. Hún verpir nyrst í Síberíu.
- Sandvíkurgæs (Branta sandvicensis) lifir í allt að 2.000 metra hæð í hlíðum og hraunum eldfjallanna Mauna Loa og Mauan Kea á Hawaii.
- Hænugæs (Cereopsis novaehollandiae) er undarlegur fugl sem lifir villtur í Ástralíu og Tasmaníu. Fjölmargir fuglafræðingar vilja ekki flokka hana til „sannra“ gæsa heldur sem sérætt við hliðina á hornögldum (Anhimidae) og skjógæs (Anseranas semipalata) en aðrir telja hana vera innan þessa hóps vegna sameiginlegra einkenna við ofangreindar ættkvíslir og eru nú flestir fuglafræðingar á þeirri skoðun. Hænugæsin hefur sérkennilega neflögun sem minnir á hænu. Hún er 75 sm á lengd, vegur um 3,5 kg og öskugrá að lit með einkennandi svarta bletti í fjöðrum.
- Wikipedia.com - grágæs. Sótt 23.6.2010.
- Wikipedia.com - helsingi. Sótt 23.6.2010.
- Wikipedia.com - hænugæs. Sótt 23.6.2010.