Spóinn er vaðfugl eins og einkenni hans bera með sér en gerist oft mófugl á varptíma og unir sér hérlendis best í kargaþýftu mólendi eða lyngmóum, helst á láglendi eða upp til heiða. Spóinn er einkvænisfugl og virðist hjónatryggð hans vara ævilangt. Parið helgar sér óðal og hefur síðan ástarleiki með dillandi hljóðrunum sem þykja líkjast klúgg klúgg-hljóði þegar sýður í hafragraut. Er þá spóinn að vella graut. Þessi hljóð eru annars mjög misjöfn og ótal tilbrigði við þau. Stundum heyrist taktföst runa með nokkru bili á milli hljóðanna, það kallast „langvell“. Samfelld runa, sem myndar eins og svífandi fiðluóm kallast „hringvell“. Hreiðurgerð spóans er einföld, sinuklædd laut við mosaþúfu. Eggin eru oftast fjögur talsins og skiptast hjónin á að sitja á. Ungarnir eru hreiðurfælnir, það er þeir fara strax eftir klak að bjarga sér með því að tína upp skordýr. Þeir verða fleygir um 6 vikna gamlir. Í lok ágúst og byrjun september fara spóarnir að safnast saman í hópa sunnanlands, en þó sjaldan í eins stóra hópa og lóur. Þá tekur við undirbúningur undir að yfirgefa landið og fljúga þeir stundum í oddaflugi líkt og gæsir. Stærsti hópurinn yfirgefur landið um miðjan september til vetursetu í Vestur-Afríku (Senegal). Þar halda þeir sig oft á kjarrsléttum og veiða sér engisprettur. Auk Íslands eru varpsvæði spóans meðal annars í Norður-Noregi, Finnlandi, Rússlandi og Alaska. Spóinn er farfugl hér á landi og verða engir spóar eftir hér yfir veturinn. Áður töldu menn að hluti spóastofnsins dveldi hér yfir veturinn og héldi til í fjörum þar sem alltaf er eitthvað framboð á æti. Menn urðu varir við þessa spóa við og við en þeir virtust stærri en spóarnir sem voru yfir sumarið í mólendinu. Síðan hefur komið í ljós að hér er um aðra tegund að ræða, fjöruspóa sem sumir hafa einnig kallað stóra spóa, Numenius arquata, enda er hann nokkuð stærri en íslenski spóinn eða 58 cm á lengd. Frekari fróðleikur á Vísindavefnum:
- Er einhver þjóðtrú tengd spóanum? eftir Sigurð Ægisson
- Af hverju fljúga fuglar svo gjarnan í V? eftir JMH
- Hvernig geta fuglar ratað svona langar vegalengdir? eftir Jón Má Halldórsson
- Aves.is. Sótt 4. 6. 2010.