Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.
Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar
um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að
svara öllum spurningum.
Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að
svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki
nægileg deili á sér.
Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.
Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!
Varmasmiður (Carabus nemoralis) er skordýr sem finnst við fjölbreytileg skilyrði á heimaslóðum sínum í Evrópu og er þar algengastur stóru smiðanna. Hann heldur sig í allskyns þurrlendi með frjósömum jarðvegi, í opnum skógarbotnum, skrúðgörðum og húsagörðum, bæði í byggð og villtri náttúru. Ræktarlönd og garðyrkja henta honum vel.
Varmasmiður æxlast á vorin eftir vetrardvala, lirfurnar vaxa upp fram eftir sumri og ný kynslóð bjallna lítur dagsins ljós á haustin. Þá verður þeirra mest vart en algengt er að skyldar tegundir séu mest á ferli á haustin þegar þær leita sér að hentugum stöðum til vetrardvala. Varmasmiður athafnar sig að nóttu til, bæði lirfur og bjöllur, og veiðir önnur smádýr sér til matar, til dæmis snigla, maðka og skordýr.
Varmasmiður (Carabus nemoralis) á laufblaði
Talið er að varmasmiður hafi aukið útbreiðslu sína hægt og bítandi því Carl von Linné (1707-1778) komst ekki í kynni við hann á 18. öldinni. Hann fannst fyrst hérlendis í júní 1990 innan um búslóð í kössum sem hafði verið flutt til landsins. Næst fannst hann í apríl 1999 á yfirbyggðu Garðatorgi í Garðabæ þar sem eru verslanir af ýmsu tagi. Þessi tilfallandi atvik gefa til kynna hve auðveldlega varmasmiður hefur getað borist til landsins enda algengur á athafnasvæðum manna nágrannalöndum okkar.
Í október 1999 fannst varmasmiður á hlaupum á gangstétt í Hveragerði og á næstu árum fannst tegundin í auknum mæli þar í bæ og hafði greinilega komið sér þar vel fyrir. Líklegt má telja að hann hafi borist til Hveragerðis með innfluttum garðyrkjuvörum og þar hafa að sjálfsögðu mætt honum afar hentug skilyrði, enda um einstakt kjörlendi að ræða.
Dreifing smádýra sem tengjast garðrækt eru greiðar frá Hveragerði en þangað sækja margir garðræktendur plöntur í garða sína á höfuðborgarsvæðinu og víðar. Í október 2004 fannst varmasmiður í Garðheimum í Reykjavík. Frá og með 2006 hefur hann svo fundist reglulega og í allnokkrum fjölda í görðum á tiltölulega þröngu svæði í vesturbæ Reykjavíkur, það er í Sörlaskjóli og Faxaskjóli. Síðan skaut hann upp kolli í garði í Efstasundi í júní 2009. Gera má ráð fyrir að varmasmiður muni sjást í auknum mæli í görðum höfuðborgarbúa á komandi árum.
Þar með er ekki öll sagan sögð því varmasmiður hefur einnig komið sér fyrir á afmörkuðu svæði í Keflavík (Hringbraut/Smáratún). Það fékkst staðfest í apríl 2008. Þá skal getið um varmasmið sem fannst á Akureyri í desember 2009 lifandi í mandarínukassa. Sá hefur væntanlega borist erlendis frá. Síðast bárust svo nýjar upplýsingar um varmasmið í Garðabæ 12. mars 2010 (upplýsingar frá Náttúrufræðistofu Kópavogs) og hefur þá sennilega verið kominn þangað til að vera.
Landnám varmasmiðs er ekki til að hafa áhyggjur af. Frekar ættu garðræktendur að fagna honum því hann gæti orðið virkur í baráttunni við að halda sniglum í skefjum. Við fyrstu kynni af bjöllunni líst fólki oft ekki á blikuna því varmasmiður er mun stærri padda en fólk á að venjast, um 22 mm á lengd. Varmasmiðir sem slæðst hafa inn í hús hafa jafnvel verið grunaðir um að vera kakkalakkar og valdið með því óhug.
Varmasmiðurinn hefur tiltölulega slétt yfirborð, hálfgljáandi og breytilegt á lit eftir því hvernig ljósið fellur á, bronsleitt, brassgrænt, fjólurautt. Fullvaxin lirfa er um þrír cm á lengd, svarbrún og sterkleg.
Heimildir:
Lindroth, C.H., 1985. The Carabidae (Coleoptera) of Fennoscandia and Denmark. Fauna Entomologica Scandinavica 15, part 1. E.J. Brill/Scandinavian Science Press Ltd, Leiden, Kaupmannahöfn. 225 bls.
Lísa Anne Libungan, Gísli Már Gíslason & Tryggvi Þórðarson 2008. Varmasmiður – stærsta bjalla á Íslandi. Náttúrufræðingurinn 77: 15–18.
Þetta svar er fengið með góðfúslegu leyfi af vef Náttúrufræðistofnunar Íslands. Svarið er birt hér í örlítið breyttri mynd. Upprunalegi textinn er hér og lesendur eru hvattir til að kynna sér hann og afla sér frekari fróðleiks um pöddur.
Erling Ólafsson. „Hvað er varmasmiður og finnst hann á Íslandi?“ Vísindavefurinn, 12. maí 2010, sótt 21. nóvember 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=56294.
Erling Ólafsson. (2010, 12. maí). Hvað er varmasmiður og finnst hann á Íslandi? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=56294
Erling Ólafsson. „Hvað er varmasmiður og finnst hann á Íslandi?“ Vísindavefurinn. 12. maí. 2010. Vefsíða. 21. nóv. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=56294>.