Í umfjöllun um þoku skiptir daggarmark máli en daggarmark hitans er mælikvarði á rakainnihald loftsins. Ef loft kólnar fer raki í því að þéttast þegar hiti fellur niður í daggarmarkið. Skilgreiningu daggarmarks má finna á vef Veðurstofu Íslands. Skýjað veður Í skýjuðu veðri er loft rakt og þá er dægursveifla daggarmarksins um 0,6 stig í Vestmannaeyjum. Raki er svipaður kvölds og morgna og dægursveifla þokumyndunartíðni ekki áberandi. Bjart veður Þegar bjart er í veðri er dægursveifla daggarmarksins rúm 2 stig. Það byrjar að hækka milli sex og sjö að morgni þegar sólin fer að hita yfirborð lands og sjávar. Hækkunin heldur jafnt og þétt áfram, er mest milli kl. 14 og 15. Daggarmarkið er í hámarki kl. 19, síðan breytist það lítið. Það er uppgufun úr sjó sem eykur raka í lofti og hækkar daggarmarkið þar með. Lítið gufar hins vegar upp eftir að sól tekur að lækka á lofti eftir kl. 19. Á tímabilinu frá kl. 19 til 24 breytist daggarmarkið lítið en hitinn fellur á sama tíma um nærri 3 stig (í björtu veðri). Á þessum tíma er því líklegt að þoka eða lág þokuský geti farið að myndast vegna rakaþéttingar. Þoka sem myndast að deginum yfir sjó breiðist stundum inn á land þegar kólnar að kvöldlagi. Annars fer það eftir aðstæðum hverju sinni hvort þokan myndast fyrst yfir landi eða sjó. Það auðveldar myndun yfir landi að landið kólnar hraðar en sjórinn og hiti fellur því fyrr að daggarmarki þar en yfir sjónum. Sé einhver vindur er einnig mun líklegra að þokan myndist fyrst yfir hæðum á landi þar sem uppstreymi er. Meira uppstreymi er yfir eyjum heldur en yfir sjó á daginn, en oftast veldur það aukinni blöndun við þurrara loft sem er ofar og heldur þokumyndun í skefjum. Þar með er þoka líklegri yfir sjó heldur en landi á hlýjasta tíma dagsins. Það hindrar myndun þoku á eyjum á kvöldin að kólnun lands veldur útstreymi lofts frá eyjunni og þar með niðurstreymi yfir henni. Það dregur úr þokulíkum. Myndist þoka á annað borð getur hún bæði breiðst út eða rýrnað mjög hratt. Frekari fróðleikur á Vísindavefnum:
- Hvað er Austfjarðaþoka? eftir Trausta Jónsson
- Hver er munurinn á daggarmarksmælingu og venjulegri hitamælingu? eftir Harald Ólafsson
- Af hverju er grasið blautt á sumarmorgnum þótt ekki hafi rignt yfir nóttina? eftir Trausta Jónsson
- Konný Guðjónsdóttir á flickr.com. Sótt 16. 6. 2010.
Hvernig stendur á þoku eins myndast í Vestmannaeyjum yfir alla eyjuna? Gerist mjög oft á sumarkvöldum.