Þó að raki loftsins þéttist á öllum flötum sem eru kaldari en daggarmarkið hverju sinni er þéttingin mest áberandi á gróðri, svo sem grasi, vegna hegðunar hita í gróðrinum. Hann kólnar mest við yfirborð, þar er útgeislunarvarmatap mest. Loftið þar er því fyrst til þess að kólna niður í daggarmarkið. Neðar í grasinu er mun minni útgeislun og hiti því lítillega hærri en við yfirborðið. Þar getur vatn því haldið áfram að gufa upp svo lengi sem hitinn þar er ofan daggarmarks. Þetta loft er ívið hlýrra en það sem ofar er og streymir því upp og rakinn þéttist um leið við yfirborð gróðurþekjunnar. Rakinn sem við sjáum á grasinu er því ekki aðeins kominn úr loftinu heldur einnig neðan úr gróðurþekjunni. Að auki anda plönturnar, hiti inni í þeim er ívið meiri en utan við. Raki gufar því upp innan við öndunaropin, en þéttist þegar loftið kemur út um þau og bætir enn í bleytuna. Rakinn sem kemur innan úr plöntunni hefur getað borist um æðar hennar neðan úr rótarkerfinu. Bleyta á gangstétt að morgni er öll tilkomin vegna þéttingar vatnsgufu sem var í loftinu, en bleytan á gróðrinum er ekki aðeins vatnsgufa úr loftinu ofan við heldur einnig úr lofti niðri í gróðurþekjunni og líka raki innan úr plöntunni sem hún hefur ef til vill dregið upp úr jarðveginum. Þessar viðbótaruppsprettur raka í gróðri valda því að ofan á honum er stundum mun meiri bleyta en á gróðurlausri jörð, svo ekki sé talað um steinsteypu. Hafa ber þó í huga að yfirborð er mjög fjölbreytilegt og hiti þess ræðst ekki aðeins af geislunarjafnvægi heldur einnig af leiðnieiginleikum þess og varmarýmd. Bílablikk er til dæmi mjög fljótt að kólna vegna þess hversu þunnt það er. Raki eða jafnvel hrím er því oft á bílum í morgunsárið jafnvel þó jörðin í kring sé þurr eða hrímlaus. Enn er því við að bæta að vatn á yfirborði hlutar hagar sér mjög misjafnlega eftir því hvort efnið í hlutnum er vatnssækið eða vatnsfælið sem kallað er. Ef efnið er vatnsfælið hneigist vatnið frekar til að mynda stóra og greinilega dropa. Glöggt dæmi um þetta er á plöntu sem er oftast nefnd maríustakkur en gengur líka undir nafninu döggblaðka vegna þessa eiginleika. Frekari fróðleikur á Vísindavefnum:
- Hver er munurinn á daggarmarksmælingu og venjulegri hitamælingu? eftir Harald Ólafsson
- Hvernig og við hvaða aðstæður myndast móða á gleri? eftir Þorstein Vilhjálmsson