Bíll með málmþaki er eins konar rafbúr sem oftast eru kennd við enska eðlisfræðinginn Michael Faraday (1791-1867). Bíllinn er gott rafbúr fyrir rafsegulbylgjur sem hafa hafa miklu lengri bylgjulengd en stærð glugganna á honum en það á einmitt við um eldingar. Bylgjulengd sem notuð er í farsímum er miklu minni en hæð og breidd bílglugga og þess vegna er hægt að nota slíka síma í bílum. Öðru máli gegnir um eldingar og það er því nánast hættulaust að sitja í bíl sem verður fyrir eldingu en vert er að hafa í huga nokkur ráð lendi menn í þrumuveðri í bíl. Ef bíllinn er á ferð þegar eldingunni slær niður þá þarf fyrst að stöðva bílinn. Það er hvorki nauðsynlegt né æskilegt að drepa á honum. Öruggast er að halda sig inni í bílnum með hendur í kjöltu og bíða þar til veðrið gengur yfir. Það getur verið hættulegt að fikta í útvarpi eða slíku. Ef kviknar í bílnum þurfa menn að sjálfsögðu að koma sér út eins fljótt og auðið er. Slökkviliðið á höfuðborgarsvæðinu mælir með því að menn hoppi því sem næst jafnfætis út úr bílnum, ef ske kynni að einhver hleðsla sæti eftir á honum. Frekara lesefni á Vísindavefnum:
- Hvernig skaða eldingar líkamann og hvernig má reyna að minnka þann skaða? eftir Hrannar Baldursson, Tryggva Þorgeirsson og Þorstein Vilhjálmsson
- Hvað er mikill straumur í einni eldingu? eftir Þorstein Vilhjálmsson, Ögmund Jónsson og Hildi Guðmundsdóttur
- Hvernig drepur rafstraumur lifandi vef? eftir Gunnlaug Geirsson
- Samtal við slökkvilið höfuðborgarsvæðisins.
- Ríkislögreglustjórinn: Almannavarnadeild.
- Lightning. Grein á Wikipedia.org.
- Vehicles and Lightning.
- Helium.com.
- Boston.com.
- The Tech Herald. Sótt 12.10.2010.