Helstu áhrif á líkamann frá eldingu eru eftirtalin: Hætt er við að rafmagn frá eldingunni trufli eðlilega starfsemi hjartans, breyti tíðni hjartsláttar eða stöðvi algjörlega gang þess. Elding getur einnig skaðað taugakerfið og orsakað bólgur eða blæðingar í heila. Elding getur brennt húðina, einkum þar sem hún kemur inn í líkamann og þar sem hún fer út úr honum aftur. Um helmingur þeirra sem verða fyrir eldingu og lifa það af verða fyrir skaða á augum eða eyrum. Í einstaka tilvikum, þegar eldingin er sérlega öflug, skaðast vöðvar þegar liðbönd rifna í sundur. Dýr í þrumuveðri eru í tvenns konar hættu. Annars vegar geta dýr sem standa upp úr umhverfinu fengið eldingu beint í sig, sem þá leiðir gegnum líkamann og niður í jörð. Önnur hætta og ef til vill minna þekkt, er að eldingu ljósti í tré eða annað nálægt dýrinu. Við það myndast spennumunur og rafsvið eftir jörðinni í kring í stefnu að eða frá trénu. Dýr sem liggur á jörðinni í þeirri stefnu fær þá mikinn rafstraum í sig og sömuleiðis hleypur straumur gegnum dýrið milli fótanna ef bilið milli þeirra er verulegt í þessa stefnu. Ferfætlingum er hættara en tvífætlingum í þrumuveðri að þessu leyti vegna þess að miklu meiri spenna verður milli fótanna ef ferfætlingurinn stendur þannig að höfuðið vísar annaðhvort frá trénu eða að því. Hættan af þessu er hins vegar lítil ef dýr stendur annað hvort á einum fæti eða bilið milli fótanna vísar hornrétt á stefnuna til trésins. Viðbrögðin við þessum tvenns konar hættum eru ekki þau sömu. Til að varast það að fá eldingu beint í sig þarf að forðast að vera hæsti punktur í nágrenninu og því mætti jafnvel halda að það borgaði sig að leggjast flatur á jörðina. Ef aðeins eitt tré er í grenndinni er þá eins gott að leggjast þvert á stefnuna til þess. En ef trén eru fleiri sem elding gæti farið í er betra að leggjast ekki.
Besta leiðin til að forðast alvarlegan skaða af eldingu er að beygja sig niður í þessa stöðu.
- Mynd af eldingum er af coolfacts.in. Sótt 29.6.2011
- Mynd af eldingastöðu er af Thunderstorms. Sótt 29.6.2011.