Grænlendingar segja, að fyrir hreindýraveiðimenn á leið heim, sé steindepill – ef hann er kyrr í lofti yfir höfðum þeirra – tákn um að þeir muni fella stóran tarf. Og þeir segja líka, að hrafn, steindepill, hávella og sendlingur séu fuglar hins illa, því hann ráði yfir sálum þeirra. Steindepillinn hafði á 19. öld vont orð á sér á Norður-Englandi og í Skotlandi. Sumir álitu, að það eitt að sjá fuglinn þýddi að sá maður ætti skammt ólifað. Aðrir töldu þetta einungis geta hent, ef fuglinn sat á grjóti, þegar viðkomandi fyrst leit hann augum. En ef fuglinn sat á þúfu eða í grasi, boðaði það hins vegar gæfu. Skýringarinnar á þessu gæti verið að leita í þeirri staðreynd, að fuglarnir halda sig á varptíma þar sem nóg af grjóti er að finna, og oft afskekkt eða á fáförnum stöðum. Draugalegar rústir og kirkjugarðar eru þar á meðal. Meira þarf ekki til, í raun og veru. Hinsvegar gæti annað og meira legið hér að baki. Menn sem höfðu dáið snögglega eða á óhugnanlegan máta voru nefnilega gjarnan urðaðir; siðurinn átti rætur í þeirri trú, að í voveiflegum dauða losnaði um sál og átti hún þá að leita í sín gömlu heimkynni, full af reiði og hefndarþorsta. Og eitthvað róttækt þurfti að gera við því. Grjóthrúgan átti að halda sálinni kyrri, binda hana. Og hafi steindeplar einhvern tíma sést á þvílíkri gröf, og látið í sér heyra, hefur það ekki verið ósvipað og ef klappað væri í stein og það minnt óþægilega á tilburði látins manns við að koma sér upp úr gröfinni. Frekari fróðleikur á Vísindavefnum:
- Er einhver þjóðtrú tengd spóanum?
- Er einhver þjóðtrú tengd stara?
- Getið þið sagt mér einhverjar þjóðsögur um hrafninn?