Í hverju felst sálfræði húðskynjunar og eru einhverjir sérfræðingar hérna á Íslandi í þessari grein? Hvernig skilgreinir maður húðskynjun yfir höfuð?Flestum finnst húðskynjun vera það sjálfsögð að við veltum því ekki fyrir okkur hvernig lífið væri án hennar. Hvernig þætti okkur til dæmis ef við fyndum ekki fyrir kossi á kinn, tækjum ekki eftir því þegar við værum kitluð eða þegar okkur klæjaði, fyndum hvorki mun á hita né kulda og brygðumst ekki við sársauka? Það yrði bæði tilbreytingarsnautt og hættulegt líf. Hvernig væri það til dæmis ef við kipptum ekki að okkur hendinni þegar við snertum heita eldavélarhellu, eða hlífðum ekki brotnum fæti? Húðskynjun er líklega eitt af mikilvægustu skilningarvitunum, og hún er einmitt viðfangsefni sálfræði húðskynjunar. Eins og öll skynjunarsálfræði fjallar sálfræði húðskynjunar um skynfærin og túlkun heilans á þeim umhverfisáreitum sem honum berast, í þessu tilfelli snertingu, hita, kulda eða sársauka. Þótt nokkrir skynjunarsálfræðingar séu starfandi á Íslandi hefur enginn þeirra sérhæft sig í húðskynjun, allavega ekki enn sem komið er. Það fyrsta sem fræðimenn innan þessa sviðs þurfa að kynna sér er hvernig skynfærin í húðinni starfa. Til eru nokkrar tegundir snertinema eða aflnema sem svara við þrýstingi, titringi og strekkingu húðar. Að auki eru tvenns konar varmanemar í húðinni (hitanemar og kuldanemar) og þrjár tegundir sársaukanema. Þeim sem vilja lesa meira um þetta efni er bent á svar sama höfundar við spurningunni Er jafnvægisskynið ef til vill sjötta skilningarvitið? og svar Þuríðar Þorbjarnardóttur við spurningunni Hvað er snertiskyn? Það næsta sem þarf að kanna er hvernig skynboðin berast heilanum og hvar heilinn vinnur úr þessum upplýsingum og breytir þeim í þau skynhrif sem við síðan finnum. Boð frá húðnemum berast til mænu og þaðan upp til heila. Húðskynjun, sérstaklega snertiskynjun, fer síðan aðallega fram í svokölluðum líkamsskynjunarberki (e. somatosensory cortex). Þeir hlutar líkamans sem mikilvægt er að séu næmastir fyrir snertingu (svo sem fingurgómar) taka hlutfallslega mesta plássið í heilanum, enda þarf öflugri úrvinnslutækni því nákvæmari sem skynjunin þarf að vera.
Snertikanínan er skynvilla í húðskynjun. Hægt er að fá fram sams konar skynvillu fyrir önnur skynfæri.
Snertiviðmótið (e. haptic interface) til vinstri gerir daufblindum kleift að rata um umhverfi sitt. Tækið til hægri nemur fingrahreyfingar. Það líkist blásturshljóðfæri og gengur því undir nafninu OBOE eða óbó.
- Goldstein, E. B. (2002). Sensation and perception. Pacific Grove, CA: Wadsworth.
- Hedge, A. (1999). Cutaneous Displays.
- Hirose, M. og Amemiya, T. Wearable finger-braille interface for navigation of deaf-blind in ubiquitous barrier-free space.
- Snertiskynvillur.
- Snertikanínan er af Purely visual saltation, cutaneous, auditory, “rabbit”. Farshad Moradi. Myndin er upphaflega frá Geldard og Sherrick (1972).
- Snertiviðmótið er af Interface for Wearable Computers. Tomohiro Amemiya. Sensory and Motor Research Group.