En þá er ekki nema hálf sagan sögð. Hvað með þessa kæti sem hann virðist hafa orðið frægur fyrir? Demókrítos hafði ekki bara kenningu um eðli veruleikans, heldur einnig um mannlegt siðferði og raunar fjallar meirihluti brotanna sem varðveitt eru úr ritum hans um siðferði og stjórnmál. Engu að síður gefa þau ekki nema grófa mynd af hugmyndum Demókrítosar um þau efni. En hann virðist þó hafa talið að í lífinu skipti gleði og umfram allt jafnaðargeð (evþýmía) mestu máli. Að öllum líkindum má rekja myndina sem brugðið er upp af Demókrítosi sem hlæjandi heimspekingi að einhverju leyti til ákveðinnar afbökunar á þessum staðreyndum: Hann var annars vegar efnishyggjumaður og taldi að í raun samanstæði veruleikinn af eindum á flugi í tómarúmi en hins vegar hélt hann fram mikilvægi gleðinnar. Rómverski stjórnmálamaðurinn og rithöfundurinn Marcus Tullius Cicero segir reyndar frá því hve vel Demókrítos tók því þegar hann tapaði sjóninni. (Cic. Tusc. V.114) Ef eitthvað er að marka þann vitnisburð virðist sem Demókrítosi hafi tekist prýðilega halda sínu jafnaðargeði í gegnum súrt og sætt. En þar að auki virðist Demókrítos beinlínis hafa haft kenningu um hlátur. Þegar umræðan í ritinu Um ræðumanninn eftir Cicero berst að hlátrinum og notkun hans í ræðumennsku segir Gaius Iulius Caesar Strabo Vopiscus (einn þátttakenda í samræðunni) að hann láti Demókrítos um að útskýra eðli hláturs, hvernig hann verði til og hvaða áhrif hann hafi á líkamann og svo framvegis, þótt það sé reyndar allt saman óskiljanlegt. (Cic. De oratore II.235) Í ævisögu Demókrítosar eftir Díogenes Laertíos eru taldir upp bókatitlar Demókrítosar en enginn þeirra gefur til kynna að hann hafi skrifað bók um hlátur. Eftir sem áður má telja sennilegt að Cicero hafi í huga einhver skrif Demókrítosar um hlátur þegar hann lætur Caesar Strabo vísa til hans um útskýringu á hlátrinum. Ef til vill fjallaði Demókrítos um hláturinn í einhverjum rita sinna um siðfræði, til dæmis Um hneigð vitringsins eða Um gleðina eða Athugsemdum um siðfræði. Hvernig svo sem því er farið festist hláturinn við ímynd Demókrítosar. Þannig minnist rómverska skáldið Horatius á Demókrítos í kvæði þar sem hann fjallar um leiksýningar síns tíma og segir að væri hann enn á lífi myndi Demókrítos eflaust horfa heldur á áhorfendurna og hlæja (si foret in terris rideret Democritus, Hor. Ep. II.1.194). Þess má geta að næstur í röðinni á eftir Demókrítosi í Sölu heimspekinganna var Herakleitos, annálaður fýlupúki og oft lýst sem heimspekingnum grátandi. Mynd:
- Wikipedia.org. Sótt 3.11.2011.