Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.
Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar
um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að
svara öllum spurningum.
Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að
svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki
nægileg deili á sér.
Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.
Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!
Góan er fimmti og næstsíðasti mánuður vetrar eftir gömlu íslensku tímatali. Hún tekur við af þorranum. Hún hefst á sunnudegi á bilinu 18.- 24. febrúar og stendur þar til einmánuður tekur við.
Orðmyndin góa virðist ekki notuð fyrr en í lok 17. aldar. Áður var notuð kvenkynsmyndin gói (beygist eins og elli) allt frá því í fornu máli.
Gömul saga, sem lesa má um í fyrsta kafla Orkneyingasögu, segir frá Fornjóti konungi í landi því er kallað er Finnland og Kvenland. Hann átti soninn Þorra sem aftur átti dótturina Gói og tvo syni, Nór og Gór. Þorri var mikill blótmaður og hélt á miðjum vetri ár hvert blót sem kallaðist þorrablót. Það bar til tíðinda á einu slíku blóti að Gói hvarf og fannst ekki þótt víða væri leitað. Þremur vetrum síðar, þegar Gói var enn ófundin, strengdu bræður hennar þess heit að leita hennar, Nór um löndin en Gór um útsker og eyjar. Leituðu þeir víða og lengi um það land sem nú heitir Noregur. Loks komast þeir að því að Hrólfur nokkur úr Bjargi á Heiðmörk, sonur Svaða jötuns norðan úr Dofrum, hafði numið Gói á brott og heldur Nór til fundar við hann. Þegar Hrólfur fréttir af Nór fer hann til móts við hann og Nór býður honum til einvígis. Þeir börðust lengi og hafði hvorugur betur. Þeir sættust þá, Nór fékk systur Hrólfs en Hrólfur Gói og hafði Nór í leitinni að systur sinni lagt undir sig Noreg.
Orðin góa og gói finnast einnig í Norðurlandamálum. Í færeysku er myndin gø, í nýnorsku gjø, go, í sænskum mállýskum göja, gya og í forndönsku gue, gøj. Ásgeir Blöndal Magnússon telur orðið líklega skylt nýnorsku gjø í merkingunni 'snjóföl' og forníslenska veðurheitinu gæ (í þulum).
Húsfreyjur áttu að fagna góu með því að ganga fáklæddur út fyrsta morgun í góu.
Húsfreyjur áttu að fagna góu á sama hátt og bændur fögnuðu fyrsta degi í þorra. Þær áttu að fara fyrstar allra á fætur, ganga út fáklæddar fyrsta morgun í góu og bjóða hana í garð með þessari vísu:
Velkomin sértu, góa mín,
og gakktu í bæinn;
vertu ekki úti í vindinum
vorlangan daginn.
Þorrinn og góan þóttu erfiðastir vetrarmánaðanna þar sem oft var farið að ganga á matarbirgðirnar. Í söfnum Orðabókar Háskólans er þessi orðatiltæki meðal annars að finna um góuna:
Hægt er að þreyja þorrann og góuna
Kerling kvað það væri óséð. ,,Því að ekki er öll góa úti enn." Hafa margir haft þetta að máltæki síðan.
Góunnar er einnig oft getið í þulum og vísum. Vel þekktur er þessi þulupartur:
Við skulum þreyja
þorrann og hana góu
og fram á miðjan einmánuð;
þá ber hún Grána.
Margar skemmtilegar vísur um góu er að finna í bók Árna Björnssonar Saga daganna.
Frekari fróðleikur á Vísindavefnum:
Guðrún Kvaran. „Hvenær er góa og hvað þýðir orðið eiginlega?“ Vísindavefurinn, 3. mars 2010, sótt 30. október 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=55529.
Guðrún Kvaran. (2010, 3. mars). Hvenær er góa og hvað þýðir orðið eiginlega? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=55529
Guðrún Kvaran. „Hvenær er góa og hvað þýðir orðið eiginlega?“ Vísindavefurinn. 3. mar. 2010. Vefsíða. 30. okt. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=55529>.