Þegar tími er kominn fyrir þroskun æxlunarkerfisins seyta sérstakar taugaseytifrumur í undirstúku heilans losunarhormóni kynstýrihormóna. Það berst til kirtildinguls heilans og örvar hann til að mynda og seyta tvenns konar kynstýrihormónum. Annað þeirra, ESH (e. FSH), berst til sáðpíplna í eistum og örvar frumur í þeim til að mynda sáðfrumur. Hitt kynstýrihormónið, GSH (e. LH), berst til svokallaðra millifrumna í eistum og örvar þær til að mynda karlkynhormón, andrógen (testósterón og dihýdrótestósterón=DHT). Testósterón veldur þeim síðkomnu kyneinkennum sem koma fram þegar strákar verða kynþroska, það er vaxtarkipp, hárvexti í framan, á bringu, í handarkrikum og í kringum kynfæri, stækkun barkakýlis og dýpkun raddar í kjölfarið, aukinni virkni fitukirtla í húð og kynhvöt. Einnig er testósterón nauðsynlegt ásamt ESH til að sáðfrumumyndun fari í gang. DHT veldur stækkun og þroskun ytri kynfæranna. Þegar sáðfrumumyndun er komin vel í gang fara frumurnar sem mynduðu sáðfrumurnar að mynda hormónið inhibín sem berst með blóðinu til kirtildinguls og hindra hann í að seyta ESH. Einnig hefur aukinn testósterónstyrkur blóðs hindrandi áhrif á seyti GSH. Með slíkri neikvæðri afturverkun dregur úr myndun sáðfrumna og testósteróns. Með stjórnun af þessu tagi helst myndun sáðfrumna og sæðis nokkuð jöfn eftir að hún er komin í gang. Á hverjum degi myndast um það bil 300 milljónir sáðfrumna. Við sáðlát losna um 2,5 til 5 millilítrar af sæði en hver millilítri inniheldur 50-150 milljón sáðfrumur. Heilbrigðir karlmenn geta verið frjóir fram á ní- eða tíræðisaldur. Í kringum 55 ára aldur minnkar myndun testósteróns og í kjölfarið dvínar vöðvastyrkur, færri lífvænlegar sáðfrumur eru myndaðar og það dregur úr kynhvöt, en þó getur verið nóg af sáðfrumum fram í háa elli. Frekari fróðleikur á Vísindavefum:
- Við hvaða hitastig lifir sæði?
- Er hægt að lifa án hormóna?
- Hvernig breytist líkami stráka við kynþroska?
- Tortora, Gerald J. og Derrickson, Bryan. Introduction to the Human Body – the essentials of anatomy and physiology 7. útgáfa, John Wiley & sons, Inc., U.S.A., 2007.
- Mynd: Cosmos. Sótt 30. 3. 2010.