Er skírdreymi til? Er það vísindalega sannað? Innan þeirrar sálfræði sem rannsakar hugarstarfsemi mannsins eru vísindalegar sönnur frekar vandamál en í flestum öðrum fræðigreinum því um hverja reynslu er aðeins einn maður til vitnis, óhjákvæmilega. Um leið og hver maður er einn vitni að sínum draumum efast þó enginn um að draumar séu til. Vitnisburð fjöldans um slíkt taka flestir gildan sem staðfestingu enda stangast tilvist drauma ekki á við önnur viðurkennd vísindi. Það virðist að sama skapi víst að skírdreymisástand sé til og margir upplifi það. Þegar einstaklingur er í ástandi skírdreymis er algengara en í öðru draumástandi að hann geti beitt vilja sínum og ákveðið atburðarás draumsins.
Draumur Jakobs. Olía á striga (1639) eftir Jusepe de Ribera.
Í janúar 1898 … dreymdi mig að ég lægi í garðinum, framan við gluggann í vinnuherbergi mínu, og ég sæi augu hundsins míns gegnum glerið. Ég lá á maganum og fylgdist áhugasamur með hundinum. Á sama tíma vissi ég hins vegar að mig var að dreyma og að ég lá á bakinu í rúminu mínu. Þá afréð ég að vakna hægt og rólega og fylgjast með hvernig upplifun mín af því að liggja á maganum myndi breytast í upplifun þess að liggja á bakinu. Og það gerði ég, hægt en ákveðið. Umbreytingin – sem ég hef gengist undir mörgum sinnum síðan – er öll hin unaðslegasta. Hún er lík því að renna sér úr einum líkama í annan, og það er greinileg tvöföld minning um líkamana tvo. Ég mundi það sem ég fann í draumnum, hvernig ég lá á maganum; en þar sem ég hvarf aftur til hversdagsleikans mundi ég einnig að efnislíkami minn hafði legið rólegur á bakinu allan tímann. Ég hef veitt þessu tvöfalda minni athygli oft síðan. Það er svo óhrekjandi að það leiðir nánast óhjákvæmilega til hugmyndarinnar um draumlíkama.Mörgum þykja dulrænar skýringar á upplifuninni freistandi og hugsa sér að einhvers konar sál (draumlíkami eða astrallíkami), sem sé persónan, sé að yfirgefa efnislíkamann um stundarsakir. En flestir vísindamenn hallast á þá sveif að leita nærtækari, sálfræðilegra skýringa, sem krefjast ekki breyttrar heimsmyndar. Einhverjar tilraunir hafa verið gerðar með að beita skírdreymisástandi til sálrænna smámeðferða – sér í lagi til að hafa stjórn á draumförum og snúa martröðum sér í hag. Ritstjórn hefur fátt fundið um skírdreymi á vefsetrum háskóla eða öðrum sem Vísindavefurinn vill ábyrgjast. Nokkuð má lesa um fyrirbærið á Lucidity.com. Mynd: Jacob's Dream. Web Gallery of Art.