Millifrumuvökvinn er í sífelldri endurnýjun og er honum safnað í vessaæðar en vökvinn innan þeirra er kallaður vessi (e. lymph). Ef hringrás millifrumuvökvans í vessaæðar er ekki eðlilegur fáum við bjúg sem er óeðlilega mikið vatn í millifrumuvökvanum. Vessinn í vessaæðum er hreinsaður í svokölluðum eitlum og endar svo í enn öðru vökvahólfinu sem er blóðið. Blóð er að jafnaði um 3,5 lítrar í um 70 kg fullorðnum manni. Í blóði eru blóðkorn á sveimi í blóðvökva sem inniheldur vatn, sölt, næringarefni, úrgangsefni og ýmis blóðprótín. Hluti af blóðvökvanum endar inni í frumum sem innanfrumuvökvi eða utan þeirra sem millifrumuvökva. Ýmsir vökvar í líkamanum eru utan hefðbundnu hólfanna en eru þó utanfrumuvökvar. Hér er um að ræða meltingarsafa, heila- og mænuvökva, slím og fleira en samtals er þetta um 1-2 lítrar í 70 kg manni. Ef hægt væri að fylgja einni vatnssameind eftir um tíma kæmi í ljós að hún flakkar á milli allra hólfanna; fer úr blóði í millifrumuvökva, inn í frumur, út úr þeim í millifrumuvökvann, þaðan í æðavessa og að lokum þaðan aftur í blóðið. Frekari fróðleikur á Vísindavefnum:
- Er dagleg vatnsdrykkja umfram tvo lítra holl?
- Hvað gerist ef við drekkum ekki vökva?
- Getur maður drukkið svo mikið vatn að það verði óhollt eða skaðlegt líkamanum?
- Fluid Compartments in the Body. Joe Patlak, Department of Physiology, University of Vermont.
- Fluid Physiology á Anaesthesia Education Website.
- Mynd: Environment Canada. Sótt 13. 4. 2010.