Sólin Sólin Rís 10:17 • sest 16:10 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 21:40 • Sest 15:54 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 10:12 • Síðdegis: 22:46 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 03:46 • Síðdegis: 16:36 í Reykjavík
Sólin Sólin Rís 10:17 • sest 16:10 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 21:40 • Sest 15:54 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 10:12 • Síðdegis: 22:46 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 03:46 • Síðdegis: 16:36 í Reykjavík
LeiðbeiningarTil baka

Sendu inn spurningu

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Getið þið sagt mér eitthvað um eyðimerkurref?

Jón Már Halldórsson

Eyðimerkurrefur (Vulpes zerda), sem stundum er kallaður fennec-refur, er smávaxinn refur sem finnst á eyðimerkursvæðum norður Afríku (Sahara) og á Arabíuskaga. Hann lifir víðsvegar í Norður-Afríku og í miðri Sahara-eyðimörkinni og virðist dafna vel á þurrustu og verstu eyðimerkursvæðunum í Norður-Sahara. Útbreiðslusvæði hans er um Líbíu, austur um Egyptaland, um Sínaískaga, Palestínu, Arabíu og austur að Persaflóa. Þéttleikinn er þó afar lítill á sunnaverðum Arabíuskaga og í Jemen og svo virðist sem eyðimerkurrefurinn forðist strandsvæði en haldi sig frekar inn til landsins.



Útbreiðsla eyðimerkurrefsins.

Eyðimerkurrefurinn er minnstur allra refa. Fullvaxinn vegur hann aðeins um 1,5 kg og er 65 cm á lengd frá trýni að rófuenda (skrokklengdin er um 40 cm). Helstu einkenni hans eru geysilega stór eyru, allt að 12 cm á lengd og breið eftir því. Eyrnablöðkurnar eru sérkennilega rákóttar að innan. Hann hefur afburða heyrn sem sjálfsagt er með því besta sem þekkist meðal spendýra, hann getur til dæmis heyrt skordýr skríða í sandinum í nokkurra metra fjarlægð. Loppurnar eru kafloðnar um gangþófa og klær og er það sjálfsagt aðlögun sem veitir dýrinu betri viðspyrnu í lausum eyðimerkursandinum.

Pörunartíminn hjá eyðimerkurrefum byrjar að jafnaði í janúar og líkur oftast í mars. Meðgöngutíminn er að meðaltali 52 dagar og gýtur læðan 2-5 hvolpum. Hún heldur rakkanum frá bælinu þar til hvolparnir eru orðnir minnst hálfs mánaða gamlir. Þegar læðan hefur yrðlingana á spena verður hún mjög grimm og uppstökk og þolir ekki ónæði í kringum sig. Þó dregur úr árásargirninni þegar ungviðið stækkar og er hún venjulega orðin nokkuð róleg í skapinu þegar þeir eru orðnir um 30 daga gamlir. Yrðlingarnir eru vandir af spena þegar þeir eru um 60 til 70 daga gamlir. Vikurnar þar á undan er læðan mikið með þeim fyrir utan bælið, leggur þeim lífsreglurnar og leikur við þá. Yrðlingarnir halda sig hjá foreldrum sínum í bælinu í allt að ár. Eyðimerkurrefir gjóta að jafnaði einu sinni á ári en afar sjaldgæft er að þeir gjóti tvisvar sama árið.



Eitt af einkennum eyðimerkurrefsins eru hlutfallslega stór eyru.

Eyðimerkurrefir eru bæði rándýr og jurtaætur. Talið er líklegt að heilbrigðir staðbundnir stofnar eyðimerkurrefa haldi ýmsum tegundum nagdýra og engispretta niðri og verji þar af leiðandi landbúnað í Norður-Afríki fyrir ágangi þessara dýra. Af öðrum hópum dýra sem eyðimerkurrefurinn étur má nefna eðlur sem hann kann að rekast á í eyðimörkinni. Auk þess étur hann rætur og ávexti, svo sem döðlur og ýmsar tegundir berja sem vaxa á ákveðnum árstíðum í eyðimörkinni

Stofnstærð eyðimerkurrefs er óþekkt en hann er það algengur að hann er ekki talinn í hættu samkvæmt náttúrverndarsamtökunum International Union for Conservation of Nature.

Eyðimerkurrefurinn er frábærlega aðlagaður að eyðimerkurlífinu líkt og heimskautarefurinn (Alopex lagopus) er að lífinu á nyrstu svæðum jarðar. Það sem eyðimerkurdýr eiga sameiginlegt er glíman við vatnsleysi. Hinir ólíku hópar dýra sem þar lifa hafa leyst þennan vanda með ýmsum hætti. Nýru eyðimerkurrefsins eru til að mynda þannig þróuð að þau taka upp hærra hlutfall vatns en að jafnaði gerist meðal spendýra. Eyðimerkurrefurinn er næturdýr og með því að liggja á skuggsælum stað yfir heitasta hluta dagsins og veiða á næturnar kemur hann í veg fyrir mikið vatnstap.

Tvær aðrar aðlaganir eyðimerkurrefsins hjálpa honum við varmastjórnun og veiðar. Eins og áður sagði eru óvenju stór eyru eitt af einkennum eyðimerkurrefsins en þau eru æðarík og virka sem varmaskiptir við umhverfið, þannig að varmi tapast þar úr líkama refsins.

Ljósbrúnn litur eyðimerkurrefsins virkar bæði sem dulbúningur auk þess sem ljósi liturinn endurkastar varma og virkar líkt og eyrun sem varmajafnari gagnvart umhverfinu. Hárfeldurinn er einnig þéttur en grófhærður og hann svitnar ekki.

Allt þetta miðar að því að takmarka þann vökva sem tapast en það litla vatn sem refurinn þarfnast fær hann úr bráð sinni.

Frekari fróðleikur á Vísindavefnum:

Heimildir:

  • McDonald. D. 2001. The New Encyclopedia of mammals. Oxford University Press, Oxford.
  • Vaughan, T. A. 1986. Mammalogy. 3. útgáfa. Saunders College Publishing, Fort Worth.
  • Valdespino, C. Asa og J. Bauman. Estrous cycles, copulation, and pregnancy in the fennec fox (Vulpes zerda). Journal of Mammology 83 (1) 99-102. 2002.
  • Kort: Fennec Fox á Wikipedia. Sótt 4. 3. 2010.
  • Mynd af eyðimerkurref: Fennec Fox (Vulpes zerda) Wilhelma Zoo-8.jpg á Wikimedia Commons. Sótt 4. 3. 2010.

Höfundur

Jón Már Halldórsson

líffræðingur

Útgáfudagur

5.3.2010

Spyrjandi

Magnús Bergmann Jónasson

Tilvísun

Jón Már Halldórsson. „Getið þið sagt mér eitthvað um eyðimerkurref?“ Vísindavefurinn, 5. mars 2010, sótt 21. nóvember 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=54603.

Jón Már Halldórsson. (2010, 5. mars). Getið þið sagt mér eitthvað um eyðimerkurref? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=54603

Jón Már Halldórsson. „Getið þið sagt mér eitthvað um eyðimerkurref?“ Vísindavefurinn. 5. mar. 2010. Vefsíða. 21. nóv. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=54603>.

Chicago | APA | MLA

Senda grein til vinar

=

Getið þið sagt mér eitthvað um eyðimerkurref?
Eyðimerkurrefur (Vulpes zerda), sem stundum er kallaður fennec-refur, er smávaxinn refur sem finnst á eyðimerkursvæðum norður Afríku (Sahara) og á Arabíuskaga. Hann lifir víðsvegar í Norður-Afríku og í miðri Sahara-eyðimörkinni og virðist dafna vel á þurrustu og verstu eyðimerkursvæðunum í Norður-Sahara. Útbreiðslusvæði hans er um Líbíu, austur um Egyptaland, um Sínaískaga, Palestínu, Arabíu og austur að Persaflóa. Þéttleikinn er þó afar lítill á sunnaverðum Arabíuskaga og í Jemen og svo virðist sem eyðimerkurrefurinn forðist strandsvæði en haldi sig frekar inn til landsins.



Útbreiðsla eyðimerkurrefsins.

Eyðimerkurrefurinn er minnstur allra refa. Fullvaxinn vegur hann aðeins um 1,5 kg og er 65 cm á lengd frá trýni að rófuenda (skrokklengdin er um 40 cm). Helstu einkenni hans eru geysilega stór eyru, allt að 12 cm á lengd og breið eftir því. Eyrnablöðkurnar eru sérkennilega rákóttar að innan. Hann hefur afburða heyrn sem sjálfsagt er með því besta sem þekkist meðal spendýra, hann getur til dæmis heyrt skordýr skríða í sandinum í nokkurra metra fjarlægð. Loppurnar eru kafloðnar um gangþófa og klær og er það sjálfsagt aðlögun sem veitir dýrinu betri viðspyrnu í lausum eyðimerkursandinum.

Pörunartíminn hjá eyðimerkurrefum byrjar að jafnaði í janúar og líkur oftast í mars. Meðgöngutíminn er að meðaltali 52 dagar og gýtur læðan 2-5 hvolpum. Hún heldur rakkanum frá bælinu þar til hvolparnir eru orðnir minnst hálfs mánaða gamlir. Þegar læðan hefur yrðlingana á spena verður hún mjög grimm og uppstökk og þolir ekki ónæði í kringum sig. Þó dregur úr árásargirninni þegar ungviðið stækkar og er hún venjulega orðin nokkuð róleg í skapinu þegar þeir eru orðnir um 30 daga gamlir. Yrðlingarnir eru vandir af spena þegar þeir eru um 60 til 70 daga gamlir. Vikurnar þar á undan er læðan mikið með þeim fyrir utan bælið, leggur þeim lífsreglurnar og leikur við þá. Yrðlingarnir halda sig hjá foreldrum sínum í bælinu í allt að ár. Eyðimerkurrefir gjóta að jafnaði einu sinni á ári en afar sjaldgæft er að þeir gjóti tvisvar sama árið.



Eitt af einkennum eyðimerkurrefsins eru hlutfallslega stór eyru.

Eyðimerkurrefir eru bæði rándýr og jurtaætur. Talið er líklegt að heilbrigðir staðbundnir stofnar eyðimerkurrefa haldi ýmsum tegundum nagdýra og engispretta niðri og verji þar af leiðandi landbúnað í Norður-Afríki fyrir ágangi þessara dýra. Af öðrum hópum dýra sem eyðimerkurrefurinn étur má nefna eðlur sem hann kann að rekast á í eyðimörkinni. Auk þess étur hann rætur og ávexti, svo sem döðlur og ýmsar tegundir berja sem vaxa á ákveðnum árstíðum í eyðimörkinni

Stofnstærð eyðimerkurrefs er óþekkt en hann er það algengur að hann er ekki talinn í hættu samkvæmt náttúrverndarsamtökunum International Union for Conservation of Nature.

Eyðimerkurrefurinn er frábærlega aðlagaður að eyðimerkurlífinu líkt og heimskautarefurinn (Alopex lagopus) er að lífinu á nyrstu svæðum jarðar. Það sem eyðimerkurdýr eiga sameiginlegt er glíman við vatnsleysi. Hinir ólíku hópar dýra sem þar lifa hafa leyst þennan vanda með ýmsum hætti. Nýru eyðimerkurrefsins eru til að mynda þannig þróuð að þau taka upp hærra hlutfall vatns en að jafnaði gerist meðal spendýra. Eyðimerkurrefurinn er næturdýr og með því að liggja á skuggsælum stað yfir heitasta hluta dagsins og veiða á næturnar kemur hann í veg fyrir mikið vatnstap.

Tvær aðrar aðlaganir eyðimerkurrefsins hjálpa honum við varmastjórnun og veiðar. Eins og áður sagði eru óvenju stór eyru eitt af einkennum eyðimerkurrefsins en þau eru æðarík og virka sem varmaskiptir við umhverfið, þannig að varmi tapast þar úr líkama refsins.

Ljósbrúnn litur eyðimerkurrefsins virkar bæði sem dulbúningur auk þess sem ljósi liturinn endurkastar varma og virkar líkt og eyrun sem varmajafnari gagnvart umhverfinu. Hárfeldurinn er einnig þéttur en grófhærður og hann svitnar ekki.

Allt þetta miðar að því að takmarka þann vökva sem tapast en það litla vatn sem refurinn þarfnast fær hann úr bráð sinni.

Frekari fróðleikur á Vísindavefnum:

Heimildir:

  • McDonald. D. 2001. The New Encyclopedia of mammals. Oxford University Press, Oxford.
  • Vaughan, T. A. 1986. Mammalogy. 3. útgáfa. Saunders College Publishing, Fort Worth.
  • Valdespino, C. Asa og J. Bauman. Estrous cycles, copulation, and pregnancy in the fennec fox (Vulpes zerda). Journal of Mammology 83 (1) 99-102. 2002.
  • Kort: Fennec Fox á Wikipedia. Sótt 4. 3. 2010.
  • Mynd af eyðimerkurref: Fennec Fox (Vulpes zerda) Wilhelma Zoo-8.jpg á Wikimedia Commons. Sótt 4. 3. 2010.
...