Nóróveirur eru bráðsmitandi og berast auðveldlega manna á milli. Hópsýkingar á sjúkrahúsum og öðrum meðferðar- og umönnunarstofnunum geta verið alvarlegt vandamál þegar þær koma upp og því er mjög mikilvægt að reyna að hindra útbreiðslu veiranna innan sjúkrastofnana. Hópsýkingar á skemmtiferðaskipum og hótelum hafa einnig valdið töluverðum usla. Meðgöngutími sýkingarinnar, það er tími frá smiti til einkenna, er einn til tveir sólarhringar. Algengustu einkennin eru niðurgangur og/eða uppköst sem fylgt geta kviðverkir, beinverkir, höfuðverkur og stundum vægur hiti. Sjúkdómurinn gengur í langflestum tilfellum yfir á einum til þremur sólarhringum án nokkurrar meðferðar. Smitleiðir eru margar og geta veirurnar smitast beint manna á milli við snertingu en einnig benda líkur til að smitið geti verið loftborið. Uppköst eru bráðsmitandi og eru dæmi þess að veiran hafi borist í loftinu til fólks í nánasta umhverfi. Önnur algeng smitleið er með fæðu og vatni og er mengun matvæla frá sýktum einstaklingum algeng smitleið. Einnig er smit með ostrum vel þekkt, en smitið berst í ostrurnar með nóróveirumenguðu vatni. Einstaklingar með nóróveirusýkingu smita meðan á veikindum stendur en eru í flestum tilfellum lausir við smit tveimur til þremur sólarhringum eftir að einkenni eru horfin. Þó eru dæmi um smitandi einstaklinga allt að tíu dögum eftir bata. Frekara lesefni á Vísindavefnum:
- Hver er munurinn á bakteríu og veiru? Eru sýklar og bakteríur það sama? eftir Evu Benediktsdóttur
- Geta veirusýkingar fylgt mat? Hverjar eru þær helstu og afleiðingar þeirra? eftir Guðmund Pétursson
- Hvers vegna gengur erfiðlega að finna og þróa lyf sem virka á veirusýkingar? eftir Hilmar Hilmarsson
- Star News Online. Sótt 20.10.2010.