Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.
Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar
um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að
svara öllum spurningum.
Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að
svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki
nægileg deili á sér.
Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.
Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!
Jónas Hallgrímsson (1807-1845) var ekki síður mikilsvirtur náttúrufræðingur en skáld. Meðal annars skrifaði hann og þýddi á námsárum sínum greinar um náttúruvísindi. Jónas fór í fjölmargar rannsóknarferðir um Ísland, þá fyrstu árið 1837 þar sem hann safnaði sýnishornum og gerði ýmsar athuganir sem hann hélt til haga í dagbókum sínum. Hann skrifaði meðal annars greinar um Geysi og Strokk í Haukadal, útseli, norðurljós, kaldavermsl og hitaútgeislun jarðaryfirborðs sem birtust í Naturhistorisk Tidsskrift. Brot úr dagbókum Jónasar frá þessum tíma eru varðveitt víða á söfnum, meðal annars á Landsbókasafninu, á Geologisk Museum í Kaupmannahöfn og á Árnastofnun.
Höfundur þessa svars þekkir ekki til skordýraathuganna Jónasar eða hvort hann gerði einhverjar kerfisbundnar athuganir á skordýrafánu Íslands. Á ferðum sínum, meðal annars um heiðar og mólendi landsins, hefur hann þó án efa rekið augun í móhumlu (Bombus jonellus) eða hina gömlu íslensku hunangsflugu.
Móhumlan hefur verið hér á landi frá aldaöðli og að öllum líkindum hefur hún verið algeng um allt land á dögum þjóðskáldsins. Eftir daga Jónasar hafa hins vegar bæst við tvær nýjar tegundir humla, garðhumla (Bombus hortorum), sem sjá má á myndinni hér til hliðar, og húshumla (Bombus lucorum). Þessar tegundir eru nokkuð stærri en hin íslenska móhumla og eru tíðar nú á dögum í húsagörðum í þéttbýli. Sérstaklega er húshumla algeng á höfuðborgarsvæðinu en garðhumlu hefur fækkað í seinni tíð.
Til gamans má geta að galdurinn við að þekkja í sundur mó- og garðhumlu er að garðhumla er áberandi stærri og svört um miðbik bolsins en móhumla er hins vegar gul um sig miðja.
Frekari fróðleikur á Vísindavefnum:
Jón Már Halldórsson. „Voru hunangsflugur á Íslandi á tímum Jónasar Hallgrímssonar?“ Vísindavefurinn, 20. nóvember 2009, sótt 21. nóvember 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=54119.
Jón Már Halldórsson. (2009, 20. nóvember). Voru hunangsflugur á Íslandi á tímum Jónasar Hallgrímssonar? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=54119
Jón Már Halldórsson. „Voru hunangsflugur á Íslandi á tímum Jónasar Hallgrímssonar?“ Vísindavefurinn. 20. nóv. 2009. Vefsíða. 21. nóv. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=54119>.