- Hvað éta býflugur?
- Hvað geta býflugur lifað lengi?
- Leggjast býflugur í dvala? Ef svo er, hversu lengi?
- Af hverju suða býflugur?
- Hvernig gera býflugur bú sín?
- Hvar gera hunangsflugur oftast búin?
- Hvernig fjölga býflugnadrottningarnar sér?
- Geta hunangsflugur stungið?
- Geta býflugur/hunangsflugur bara stungið einu sinni svo og deyja svo?
- Er það satt sem að vísindamenn segja um að býflugur eigi ekki að geta flogið?
- Er einhver munur á býflugum, randaflugu, og hunangsflugum, eða eru þetta bara mismunandi heiti yfir sömu fluguna?
Lífsferill allra hunangsflugna er svipaður. Drottningin lifir í dvala yfir veturinn eftir að hafa makast við karldýr. Strax og hún vaknar gerir hún lítið bú í holu í jörðinni, oft undir steini eða í veggjarholu. Hún útbýr nesti fyrir afkvæmi sín, sem er blómasykur sem breytist í hunang eftir að hafa verið geymdur í meltingarvegi flugunnar, og frjókorn, sem eru próteinrík fæða fyrir vaxandi lirfur. Úr frjóvguðum eggjum klekjast kvendýr, sem verða ókynþroska þernur vegna boðefna sem móðirin gefur frá sér og kölluð eru ferómón. Þessar þernur taka við störfum í búinu og lifa þær í um 30 daga. Þernurnar sjá um að stækka búið, gera hirslur fyrir lirfurnar, systur sínar, safna fæðu og færa í búið og fæða lirfurnar. Búið er margskipt í hirslur, sem gegna mismundandi hlutverkum. Hirslurnar eru gerðar úr vaxi sem þernurnar framleiða í kirtlum. Sérstakar hirslur eru gerðar til að geyma hunang, aðrar fyrir frjókorn og enn aðrar til að ala lirfur í. Á haustin þegar drottningin er búin með sæðisforðann frá seinasta hausti fæðir hún ófrjóvguð egg sem verða að karldýrum. Máttur boðefna drottningarinnar dvínar á haustin og að lokum deyr hún. Því koma upp á haustin karldýr og kvendýr, sem þernurnar hafa gefið kjarnríkari fæðu. Þessi kvendýr verða kynþroska og því ný kynslóð af drottningum. Þær makast við karldýr og geyma sæðið fram á næsta vor til að frjóvga eggin. Að mökun lokinni leggjast þær í dvala í holu í jörðu, en karlarnir og þernurnar drepast. Næsta vor byrjar ung drottning á að byggja nýtt bú og lífsferillinn endurtekur sig. Bú hunangsflugna eru ekki varanleg eins og bú býflugna og gera drottingarnar ný bú á hverju vori. Hunangsflugur lifa eingöngu á afurðum blóma og sjást því oft í blómskrúði. Móhumlan sækir lítið í þéttbýli en er á víðavangi um allt land og sækir fæðu sína í víðirekla. Hún fær frjókorn úr karlreklum og blómasykur úr kvenreklum. Einnig sækja þær í ýmsan annan gróður, svo sem bláberjalyng, blóðberg og hvítsmára.
Garðhumla nam land um 1960 og var í þéttbýli á Suður- og Vesturlandi. Hún er miklu stærri en móhumla og tungulengri og getur sótt blómasykur í stór garðablóm. Húshumla nam land árið 1979. Hún er einnig miklu stærri en móhumla og lifir mikið í þéttbýli, en er ekki eins matvönd og garðhumla og hefur dreift sér um landið. Eftir að húshumla nam land hefur garðhumla næstum horfið og finnst núna einstöku sinnum á höfuðborgarsvæðinu. Þó að hunangsflugur séu stórar þá eru þær ágætis flugdýr. Þær eru alsettar hárum þannig að þær sýnast búkmeiri en þær eru í raun. Þær hreyfa vængina mjög títt þegar þær fljúga, en til þess að þær geti gert það þurfa þær að hita upp líkamann áður en þær taka á loft. Þær sjást því oft í sólbaði utan við búin á morgnana og drekka í sig hitann af sólarljósinu en flugvöðvarnir þurfa að ná 32°C áður en þær hefja sig til flugs. Þegar hunangsflugur fljúga heyrist suð í vængjunum en suðið, það er vænghreyfingar, nota þær meðal annars til þess að fella frjókornin af fræflunum og eru margar plöntur háðar slíkri ,,suðfrævun“ til að fjölga sér. Flugur af býflugnaættinni, eins og hunangsflugur, hafa flókið samskiptakerfi sem þær nota til að koma upplýsingum á milli þernanna. Þetta samskiptakerfi eru boðefni sem þær gefa frá sér, hreyfingar og hegðun ýmiss konar. Á þann hátt geta þernur sagt öðrum þernum til um hvar fæðu er að finna og varað við hættu frá rándýrum, sem oftast eru fuglar. Drottningar og þernur hafa sting, sem er umbreytt varppípa. Þennan sting nota þær til að verja búið eða þegar þær verða fyrir áreiti og stinga þann sem gerir þeim mein. Stingurinn brotnar af þannig að flugan deyr fljótlega á eftir, en fórnarlambið hefur þá lært af sársaukanum að svona flugur er betra að láta í friði. Heimildir og myndir:
- Björg Sveinsdóttir 1981. Bú hunangsflugna í Heiðmörk 1981. 5 eininga BS rannsóknarverkefni við líffærðiskor. Líffræðiskor Háskóla Íslands, Reykjavík.
- Erling Ólafsson, Náttúrufræðistofnun Íslands. Munnlegar upplýsingar.
- Guðmundur Halldórsson, Oddur Sigurðsson og Erling Ólafsson 2002. Dulin Veröld. Smádýr á Ísland. Mál og mynd, Reykjavík.
- Kristján Kristjánsson 1983. Rannsóknir á íslenskum hunangsflugum (Hym. Apidae). 22 eininga rannsóknarverkefni í framhaldsnámi. Líffræðiskor Háskóla Íslands, Reykjavík.
- Prys-Jones, O.E., Erling Ólafsson og Kristján Kristjánsson 1981. Icelandic bumblebee fauna (Bumbus latr., Apidae). Jounal of Agricultural Research 20: 189-197.
- rutkies.de
- thesanctuaryuk.co.uk