Dómstólar hafa fengið til umfjöllunar gildi reglugerða gagnvart almennum lögum. Þar hefur verið lögð áhersla á að skerðing á stjórnarskrárvörðum réttindum borgaranna komi ekki fram í reglugerð heldur verði að styðjast við heimild í lögum. Komi til dæmis skerðing á atvinnufrelsisákvæði stjórnarskrárinnar, eignarréttarákvæðum hennar eða álagning skatts fyrst fram í reglugerð hefur slíkum ákvæðum verið vikið til hliðar af hálfu dómstóla. Dæmi um slíka dóma sem gengið hafa í Hæstarétti eru dómur frá árinu 1985, bls. 1544 í dómasafni Hæstaréttar (fyrirkomulag við álagningu svonefnds kjarnfóðurgjalds þótti í reynd vera skattlagning sem skipa átti með lögum en ekki ákvörðunum stjórnvalda), dómur Hæstaréttar frá 1988, bls. 1532 (gekk út á að stjórnarskrárvarið atvinnufrelsi leigubílstjóra mátti ekki takmarka með reglugerðarákvæði um að skilyrði þess að bílstjórar fengju úthlutað atvinnuleyfi væri að þeir væru í stéttarfélagi) og dómur Hæstaréttar frá 13. apríl 2000 (í lögum fékk ráðherra ótakmarkaða heimild til þess að ákveða að tilteknar framkvæmdir skyldu sæta umhverfismati en talið var að vald ráðherra væri of rúmt til að taka slíkar ákvarðanir, sem skerða eignarrétt og atvinnufrelsi). Frekara lesefni á Vísindavefnum:
- Hvernig verða lög til? eftir Magnús Viðar Skúlason
- Geta reglugerðir stangast á við lög? Hvort gildir þá reglugerðin eða lögin? eftir Magnús Viðar Skúlason
- Um lög og lögfræði. Sigurður Líndal. Hið íslenska bókmenntafélag. Reykjavík. 2002.