Rauð blóðkorn hafa A og/eða B mótefnisvaka, að undanskyldum O-flokkinum.
Frá þessari meginreglu er þó sjaldgæf undantekning. Mótefnavakar A og B eru báðir búnir til úr annars konar mótefnavaka, svokölluðum H-mótefnavaka. Þessi forveri (e. precursor) A- og B-mótefnavaka er einnig til staðar á rauðum blóðkornum fólks í O-flokki. Fólk með svokallaða Bombay-svipgerð (nefnt eftir borginni Bombay á Indlandi) hefur aftur á móti enga slíka H-mótefnisvaka og getur því hvorki myndað A-mótefnavaka né B-mótefnavaka jafnvel þótt það ætti samkvæmt arfgerð sinni að gera það. Þetta fólk myndi þess vegna alltaf mælast í O-blóðflokki sama hvaða genasamsætur ABO-blóðflokkakerfisins það erfði frá foreldrum sínum. Sé barn manns í AB-blóðflokki af Bombay-svipgerð væri því hægt að svara upphaflegu spurningunni játandi. Á þessu er þó einn fyrirvari: Venjulegt fólk í O-flokki hefur H-mótefnavaka, en fólk af Bombay-svipgerð hefur enga slíka vaka. Síðarnefndi hópurinn myndar því mótefni gegn H-mótefnavökum og getur þar af leiðandi ekki þegið blóð frá fólki í O-blóðflokki. Jafnvel þótt fólk af Bombay-svipgerð teljist til O-blóðflokks er ekki þar með sagt að hóparnir tveir séu algjörlega sambærilegir. Heimildir og Myndir:
- Blood type. Wikipedia, frjálsa alfræðiorðabókin.
- Mynd af mótefnavökum er af ABO-System der Blutgruppen. Klaus Blachut.