Sólin Sólin Rís 10:17 • sest 16:10 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 21:40 • Sest 15:54 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 10:12 • Síðdegis: 22:46 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 03:46 • Síðdegis: 16:36 í Reykjavík
Sólin Sólin Rís 10:17 • sest 16:10 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 21:40 • Sest 15:54 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 10:12 • Síðdegis: 22:46 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 03:46 • Síðdegis: 16:36 í Reykjavík
LeiðbeiningarTil baka

Sendu inn spurningu

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Er hægt að rökstyðja það af hverju mér finnst jarðarberjasulta bragðbetri en bláberjasulta?

Eyja Margrét Brynjarsdóttir

Rökstuðningur getur verið með ýmsu móti og almennt er talað um tvenns konar rök, afleiðslu og tilleiðslu. Um þetta má til dæmis lesa í svari Erlendar Jónssonar við spurningunni Hvað eru skynsamleg rök? og svari Geirs Þ. Þórarinssonar við spurningunni Er hægt að rökstyðja allt? Hér verður gert ráð fyrir að fyrst og fremst sé verið að spyrja um möguleikann á tilleiðslurökum sem styðji persónulegt álit, smekk eða tilfinningu. Ef um almennilegan rökstuðning er að ræða þarf því að vera hægt að vísa til einhvers sem gerir það sem fullyrt er líklegra.

Í þessum efnum má gera greinarmun á persónulegu áliti og smekksatriðum. Ýmsar skoðanir sem við höfum á því hvernig heimurinn er eða ætti að vera flokkast undir persónulegt álit. Í raun eru allar skoðanir mínar hluti af persónulegu áliti mínu. Þessar skoðanir varða meðal annars ýmislegt sem hægt er að þreifa á, mæla eða ræða með vísunum í hluti sem eru með öllu óháðir mér og mínum skoðunum. Til dæmis er það skoðun mín, og þar með persónulegt álit, að fljótlegast sé að aka frá Borgarnesi til Selfoss ef ekið er af stað í suður, þótt nyrðri hringurinn myndi skila ferðalúnum Borgfirðingi á áfangastað á endanum. Þetta get ég rökstutt með því að benda á mælingar sem gerðar hafa verið á vegalengdum milli hinna ýmsu staða á landinu og líka með vísunum í fyrri reynslu, bæði minnar eigin og annarra, af ferðalögum um landið. Eins gæti ég stuðst við kort af Íslandi til að benda á augljósan muninn á vegalengdunum. En spyrjandi á líklega frekar við þann hluta persónulegs álits okkar sem ekki er hægt að styðja með vísunum í almennar og velþekktar staðreyndir og sem fólk byggir á sínum eigin smekk.

Dæmið sem spyrjandinn gefur er ágætt. Er hægt að rökstyðja það að jarðarberjasulta sé bragðbetri en bláberjasulta? Þetta skulum við skoða betur.


Er hægt að rökstyðja það að jarðarberjasulta sé bragðbetri en bláberjasulta?

Vitaskuld er hægt að rökstyðja það að einhverri tiltekinni manneskju, köllum hana Gunnu, þyki jarðarberjasulta bragðbetri. Það gerir Gunna til dæmis fyrir sjálfri sér einfaldlega með því að vísa í sína eigin upplifun af jarðarberjasultubragði, sem er ánægjulegri en upplifun hennar af bláberjasultubragði. Við hin getum svo rökstutt staðhæfingar okkar um þennan smekk Gunnu með reynslu okkar af hegðun hennar. Hugsum okkur til dæmis að við ætlum að halda fyrir hana óvænta afmælisveislu og séum að velja sultu til að hafa á kökunni. Þá gæti einhver bent á að Gunna hefði nú sagt að sér þætti jarðarberjasulta betri en bláberjasulta eða að jarðarberjasultukrukkan tæmdist alltaf eins og skot í ísskápnum hjá henni. Staðhæfingin „Gunnu þykir jarðarberjasulta bragðbetri en bláberjasulta“ er, þegar allt kemur til alls, vísun í þá staðreynd að Gunnu þyki þetta. Sú staðreynd hefur ekkert með smekk minn eða þinn að gera, við ráðum ekkert frekar yfir henni en þeirri staðreynd að stysta akstursleið frá Borgarnesi til Selfoss sé í suðurátt.

Öðru máli gegnir um staðhæfinguna „Jarðarberjasulta er bragðbetri en bláberjasulta“. Hugsum okkur að Gunna setji hana fram en þá komi Jón og segi „Nei, bláberjasulta er bragðbetri en jarðarberjasulta“. Eru einhver rök sem hægt er að setja fram því til stuðnings að annað þeirra hafi rétt fyrir sér frekar en hitt? Það er nokkuð freistandi að segja að Jón og Gunna hafi bæði rétt fyrir sér, hvernig svo sem við ráðum fram úr því. Hvernig geta staðhæfing („A er betra en B“) og neitun hennar („A er ekki betra en B“) báðar verið sannar? Það hlýtur að fela í sér mótsögn. Sumir hafa viljað leysa þetta með því að segja að í raun séu bæði Jón og Gunna bara að tala um eigin upplifun af berjasultubragði þannig að þegar Gunna segir „Jarðarberjasulta er bragðbetri en bláberjasulta“ merki það í raun eitthvað á borð við „Mér þykir jarðarberjasulta bragðbetri en bláberjasulta“. Ef svo er þá er ekkert vandamál fólgið í því að Jóni þyki eitthvað annað þar sem hvort um sig er aðeins að lýsa eigin smekk.

Í sumum efnum hefur þó verið nokkur tilhneiging til að líta svo á að smekksatriði séu ekki bara háð persónulegu mati hvers og eins heldur sé til einhver algildur mælikvarði sem er þá hægt að vísa til í rökstuðningi. Lítið hefur borið á þessu í sambandi við sultusmekk en öðru máli gegnir, svo við höldum okkur enn við bragðskynið, þegar vín ber á góma. Þar horfum við til sérfræðinga sem segja okkur hvaða vín eru best og þyki okkur ómerkileg vín betri er það talið vera vegna þess að við höfum ekki þroskað með okkur nægilega næmt bragðskyn. Svo getum við farið á námskeið til að læra að þekkja það bragð sem gerir sum vín betri en önnur. Svipaða sögu má segja af smekk sem tengist öðrum skynfærum okkar. Við tölum stundum um að einn hafi góðan smekk og annar vondan og gefum þá í skyn að sá með vonda smekkinn hafi rangt fyrir sér í dómum sínum. Sá með góða smekkinn, fagurkerinn eða sérfræðingurinn geti hins vegar rökstutt sína dóma með þekkingu sem hinn hefur ekki, hvort sem hún varðar vín, tónlist, hönnun eða eitthvað annað.

Þegar upp er staðið er því ekki auðsvarað hvort hægt sé að rökstyðja þær staðhæfingar sem við byggjum á smekk. Kannski eru sum vín betri en önnur og sum hús fallegri en önnur alveg óháð smekk hvers og eins. Ef svo er hlýtur að vera að hægt að rökstyðja staðhæfingar um slíkt með því að benda á eitthvað við þau sem gerir þau bragðgóð eða falleg. Um þetta eru þó ekki allir á eitt sáttir og verður ekki reynt hér að leysa úr þeim ágreiningi.

Frekara lesefni á Vísindavefnum:

Mynd:

Spurningin í heild sinni hljóðaði svona:
Er hægt að rökstyðja persónulegt álit, smekk eða tilfinningu? Dæmi: Er hægt að rökstyðja það af hverju mér finnst jarðarberjasulta bragðbetri en bláberjasulta?

Höfundur

Eyja Margrét Brynjarsdóttir

prófessor í heimspeki og hagnýtri siðfræði

Útgáfudagur

25.11.2009

Spyrjandi

Áshildur Haraldsdóttir

Tilvísun

Eyja Margrét Brynjarsdóttir. „Er hægt að rökstyðja það af hverju mér finnst jarðarberjasulta bragðbetri en bláberjasulta?“ Vísindavefurinn, 25. nóvember 2009, sótt 21. nóvember 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=53930.

Eyja Margrét Brynjarsdóttir. (2009, 25. nóvember). Er hægt að rökstyðja það af hverju mér finnst jarðarberjasulta bragðbetri en bláberjasulta? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=53930

Eyja Margrét Brynjarsdóttir. „Er hægt að rökstyðja það af hverju mér finnst jarðarberjasulta bragðbetri en bláberjasulta?“ Vísindavefurinn. 25. nóv. 2009. Vefsíða. 21. nóv. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=53930>.

Chicago | APA | MLA

Senda grein til vinar

=

Er hægt að rökstyðja það af hverju mér finnst jarðarberjasulta bragðbetri en bláberjasulta?
Rökstuðningur getur verið með ýmsu móti og almennt er talað um tvenns konar rök, afleiðslu og tilleiðslu. Um þetta má til dæmis lesa í svari Erlendar Jónssonar við spurningunni Hvað eru skynsamleg rök? og svari Geirs Þ. Þórarinssonar við spurningunni Er hægt að rökstyðja allt? Hér verður gert ráð fyrir að fyrst og fremst sé verið að spyrja um möguleikann á tilleiðslurökum sem styðji persónulegt álit, smekk eða tilfinningu. Ef um almennilegan rökstuðning er að ræða þarf því að vera hægt að vísa til einhvers sem gerir það sem fullyrt er líklegra.

Í þessum efnum má gera greinarmun á persónulegu áliti og smekksatriðum. Ýmsar skoðanir sem við höfum á því hvernig heimurinn er eða ætti að vera flokkast undir persónulegt álit. Í raun eru allar skoðanir mínar hluti af persónulegu áliti mínu. Þessar skoðanir varða meðal annars ýmislegt sem hægt er að þreifa á, mæla eða ræða með vísunum í hluti sem eru með öllu óháðir mér og mínum skoðunum. Til dæmis er það skoðun mín, og þar með persónulegt álit, að fljótlegast sé að aka frá Borgarnesi til Selfoss ef ekið er af stað í suður, þótt nyrðri hringurinn myndi skila ferðalúnum Borgfirðingi á áfangastað á endanum. Þetta get ég rökstutt með því að benda á mælingar sem gerðar hafa verið á vegalengdum milli hinna ýmsu staða á landinu og líka með vísunum í fyrri reynslu, bæði minnar eigin og annarra, af ferðalögum um landið. Eins gæti ég stuðst við kort af Íslandi til að benda á augljósan muninn á vegalengdunum. En spyrjandi á líklega frekar við þann hluta persónulegs álits okkar sem ekki er hægt að styðja með vísunum í almennar og velþekktar staðreyndir og sem fólk byggir á sínum eigin smekk.

Dæmið sem spyrjandinn gefur er ágætt. Er hægt að rökstyðja það að jarðarberjasulta sé bragðbetri en bláberjasulta? Þetta skulum við skoða betur.


Er hægt að rökstyðja það að jarðarberjasulta sé bragðbetri en bláberjasulta?

Vitaskuld er hægt að rökstyðja það að einhverri tiltekinni manneskju, köllum hana Gunnu, þyki jarðarberjasulta bragðbetri. Það gerir Gunna til dæmis fyrir sjálfri sér einfaldlega með því að vísa í sína eigin upplifun af jarðarberjasultubragði, sem er ánægjulegri en upplifun hennar af bláberjasultubragði. Við hin getum svo rökstutt staðhæfingar okkar um þennan smekk Gunnu með reynslu okkar af hegðun hennar. Hugsum okkur til dæmis að við ætlum að halda fyrir hana óvænta afmælisveislu og séum að velja sultu til að hafa á kökunni. Þá gæti einhver bent á að Gunna hefði nú sagt að sér þætti jarðarberjasulta betri en bláberjasulta eða að jarðarberjasultukrukkan tæmdist alltaf eins og skot í ísskápnum hjá henni. Staðhæfingin „Gunnu þykir jarðarberjasulta bragðbetri en bláberjasulta“ er, þegar allt kemur til alls, vísun í þá staðreynd að Gunnu þyki þetta. Sú staðreynd hefur ekkert með smekk minn eða þinn að gera, við ráðum ekkert frekar yfir henni en þeirri staðreynd að stysta akstursleið frá Borgarnesi til Selfoss sé í suðurátt.

Öðru máli gegnir um staðhæfinguna „Jarðarberjasulta er bragðbetri en bláberjasulta“. Hugsum okkur að Gunna setji hana fram en þá komi Jón og segi „Nei, bláberjasulta er bragðbetri en jarðarberjasulta“. Eru einhver rök sem hægt er að setja fram því til stuðnings að annað þeirra hafi rétt fyrir sér frekar en hitt? Það er nokkuð freistandi að segja að Jón og Gunna hafi bæði rétt fyrir sér, hvernig svo sem við ráðum fram úr því. Hvernig geta staðhæfing („A er betra en B“) og neitun hennar („A er ekki betra en B“) báðar verið sannar? Það hlýtur að fela í sér mótsögn. Sumir hafa viljað leysa þetta með því að segja að í raun séu bæði Jón og Gunna bara að tala um eigin upplifun af berjasultubragði þannig að þegar Gunna segir „Jarðarberjasulta er bragðbetri en bláberjasulta“ merki það í raun eitthvað á borð við „Mér þykir jarðarberjasulta bragðbetri en bláberjasulta“. Ef svo er þá er ekkert vandamál fólgið í því að Jóni þyki eitthvað annað þar sem hvort um sig er aðeins að lýsa eigin smekk.

Í sumum efnum hefur þó verið nokkur tilhneiging til að líta svo á að smekksatriði séu ekki bara háð persónulegu mati hvers og eins heldur sé til einhver algildur mælikvarði sem er þá hægt að vísa til í rökstuðningi. Lítið hefur borið á þessu í sambandi við sultusmekk en öðru máli gegnir, svo við höldum okkur enn við bragðskynið, þegar vín ber á góma. Þar horfum við til sérfræðinga sem segja okkur hvaða vín eru best og þyki okkur ómerkileg vín betri er það talið vera vegna þess að við höfum ekki þroskað með okkur nægilega næmt bragðskyn. Svo getum við farið á námskeið til að læra að þekkja það bragð sem gerir sum vín betri en önnur. Svipaða sögu má segja af smekk sem tengist öðrum skynfærum okkar. Við tölum stundum um að einn hafi góðan smekk og annar vondan og gefum þá í skyn að sá með vonda smekkinn hafi rangt fyrir sér í dómum sínum. Sá með góða smekkinn, fagurkerinn eða sérfræðingurinn geti hins vegar rökstutt sína dóma með þekkingu sem hinn hefur ekki, hvort sem hún varðar vín, tónlist, hönnun eða eitthvað annað.

Þegar upp er staðið er því ekki auðsvarað hvort hægt sé að rökstyðja þær staðhæfingar sem við byggjum á smekk. Kannski eru sum vín betri en önnur og sum hús fallegri en önnur alveg óháð smekk hvers og eins. Ef svo er hlýtur að vera að hægt að rökstyðja staðhæfingar um slíkt með því að benda á eitthvað við þau sem gerir þau bragðgóð eða falleg. Um þetta eru þó ekki allir á eitt sáttir og verður ekki reynt hér að leysa úr þeim ágreiningi.

Frekara lesefni á Vísindavefnum:

Mynd:

Spurningin í heild sinni hljóðaði svona:
Er hægt að rökstyðja persónulegt álit, smekk eða tilfinningu? Dæmi: Er hægt að rökstyðja það af hverju mér finnst jarðarberjasulta bragðbetri en bláberjasulta?
...