Sólin Sólin Rís 09:06 • sest 17:16 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 06:24 • Sest 16:46 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 05:17 • Síðdegis: 17:24 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 11:24 • Síðdegis: 23:36 í Reykjavík
Sólin Sólin Rís 09:06 • sest 17:16 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 06:24 • Sest 16:46 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 05:17 • Síðdegis: 17:24 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 11:24 • Síðdegis: 23:36 í Reykjavík
LeiðbeiningarTil baka

Sendu inn spurningu

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Af hverju var bannað að borða hrossakjöt hér áður fyrr?

Hrafnkell Lárusson

Um aldir var það almennt viðhorf í íslensku samfélagi að algjört bann væri við því að leggja sér hrossakjöt til munns. Þetta bann var tengt túlkun á Biblíunni, sem fól í sér að einungis mætti borða kjöt af klaufdýrum. Bannið við hrossakjötsáti var fornt en neysla þess var meðal annars notuð til að greina á milli heiðinna manna og kristinna í frumkristni á Norðurlöndum. Í fyrstu íslensku kristnilögunum er hrossakjötsát lagt að jöfnu við barnaútburð og skurðgoðadýrkun. Viðbjóður manna á hrossakjöti var svo mikill að það eitt að handfjatla eða nýta sér hrossaslátur, án þess þó að borða það, var illa séð.

Staða hestsins sem mikilvægs atvinnu- og samgöngutækis hefur að líkindum enn frekar styrkt bannið gegn hrossakjötsátinu. En hér á landi gegndi hesturinn mikilvægu hlutverki bæði við vinnu og flutninga allt fram á 20. öld.

Til marks um það hve strangt forboðið gegn hrossakjötsáti var, má nefna að á 18. öld þegar tíðir harðindakaflar gengu yfir landið, töldu margir kirkjunnar menn að neyð fólks og hungur nægði ekki sem afsökun fyrir neyslu hrossakjöts. Í einum ákafasta harðindakafla 18. aldar, sem stóð yfir á árunum 1754–1758, neyddust sumir landsmenn til að leggja sér hrossakjöt til munns. Í bók sinni Mannfækkun af hallærum tilfærir Hannes Finnsson Skálholtsbiskup dæmi um hrossakjötsát landsmanna, í sömu andrá og hann getur um fjölgun þjófnaða. Þrátt fyrir neyð almennings, var andúðin á hrossakjötsáti það sterk og neysla þess talin svo stór siðferðisbrestur að mörgum prestum landsins stóð ekki á sama. Þeim bar að halda guðsorði og góðum siðum að almenningi og þó neyðin væri mikil var hrossakjötsátið svo alvarlegt afbrot að það var ekki látið óátalið.



Um miðja 18. öldina fóru yfirvöld trúmála í danska konungsveldinu, sem Ísland var þá hluti af, að sýna merki um tilslakanir á banni við neyslu hrosskjöts. Kirkjustjórnarráðið í Kaupmannahöfn gaf út þá yfirlýsingu árið 1757 að hrossakjötsát í neyð væri ekki brot og því ekki refsivert. Á svipaðan streng hafði Hólabiskupinn Gísli Magnússon slegið árið 1756 er hann hélt því fram í bréfi að hann teldi hrossakjötsátið vera ólíðandi að nauðsynjalausu, en vildi þó ekki meina að í því fælust ekki nein kristnispjöll. Vandamálið væri hin almenna hneykslun sem af átinu hlytist. Samkvæmt þessu var ástæða bannsins, að mati Gísla, ekki lengur sú að það væri brot gegn kristni heldur er almenn andúð á því tilgreind sem ástæða.

Árið 1775 setti Magnús Ketilsson sýslumaður í Dalasýslu fram þá skoðun, á síðum tímaritsins Islandske Maanedestidende, að rétt væri að landsmenn hagnýttu sér sláturafurðir af hrossum. Hann vildi þó ekki að menn leggðu sér hrosskjöt til munns heldur nýttu fituna sem ljósmeti. Sem röksemd fyrir skoðun sinni notaði Magnús meðal annars fjölgun hrossa í landinu úr hófi fram. Að auki taldi hann að enginn gæti með réttri samvisku álasað hungruðum fyrir hrossakjötsát. Nauðsyn bryti lög. Þó Magnús tæki ekki skrefið til fulls ollu skrif hans hörðum deilum, jafnvel þó hann legðist sjálfur gegn nauðsynjalausri neyslu hrossakjöts.

Um aldamótin 1800 virðist sem tekið hafi að draga verulega úr andúð fólks á hrossakjötsáti. Kann það að vera að einhverju leyti tilkomið vegna skrifa Magnúsar Ketilssonar, en einnig var þá orðið alkunna að hrossakjöt þætti herramannsmatur í Danmörku. Árið 1808 tók Magnús Stephensen dómstjóri upp þráðinn í hrossakjötsumræðunni. Hann gekk lengra en Magnús Ketilsson hafði áður gert. Magnús Stephensen mælti opinberlega með hrossakjötsáti og gerði einnig um það tillögur. Þær miðuðu að vísu aðallega að því að „troða” hrossakjötinu í fanga og ómaga, en einnig vildi Magnús vekja athygli almennings á því. Á þessum tíma voru harðindi á Íslandi og siglingateppa en þrátt fyrir það mæltust þessar hugmyndir dómstjórans almennt illa fyrir og uppskar hann fyrirlitningu og háð margra samlanda sinna. Óbeit á hrossakjöti lifði fram eftir 19. öld, og jafnvel lengur, meðal stórs hluta landsmanna þó að trúarlegar ástæður hafi ekki lengur verið til staðar.

Frekara lesefni á Vísindavefnum:

Heimildir:
  • Gunnar Sveinsson: „Rökræður Íslendinga fyrr á öldum um hrossakjötsát.” Skírnir. Tímarit hins íslenska bókmenntafélags. 136. árg. (1962). Ritstjóri Halldór Halldórsson. Reykjavík.
  • Hannes Finnsson: Mannfækkun af hallærum. Jón Eyþórsson og Jóhannes Nordal sáu um útgáfuna. Almenna bókafélagið. Reykjavík 1970.
  • Islandske Maanedestidende. 2. árg. (mars 1775).
  • Magnús Ketilsson: Heiðnir éta hrossakjöt. Hrappsey 1776.
  • Magnús Ketilsson: „Hestabit er hagabót.” Stutt ágrip um íölu búfjár í haga með litlum viðbætir um hrossaslátur og þess nytsemi. Hrappsey 1776.
  • Þorvaldur Thoroddsen: Lýsing Íslands. IV bindi. Hið íslenska bókmenntafélag. Kaupmannahöfn 1919.

Mynd:

Höfundur

meistaranemi í sagnfræði við HÍ

Útgáfudagur

4.11.2005

Spyrjandi

Jóhanna Sigurðardóttir

Tilvísun

Hrafnkell Lárusson. „Af hverju var bannað að borða hrossakjöt hér áður fyrr?“ Vísindavefurinn, 4. nóvember 2005, sótt 30. október 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=5381.

Hrafnkell Lárusson. (2005, 4. nóvember). Af hverju var bannað að borða hrossakjöt hér áður fyrr? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=5381

Hrafnkell Lárusson. „Af hverju var bannað að borða hrossakjöt hér áður fyrr?“ Vísindavefurinn. 4. nóv. 2005. Vefsíða. 30. okt. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=5381>.

Chicago | APA | MLA

Senda grein til vinar

=

Af hverju var bannað að borða hrossakjöt hér áður fyrr?
Um aldir var það almennt viðhorf í íslensku samfélagi að algjört bann væri við því að leggja sér hrossakjöt til munns. Þetta bann var tengt túlkun á Biblíunni, sem fól í sér að einungis mætti borða kjöt af klaufdýrum. Bannið við hrossakjötsáti var fornt en neysla þess var meðal annars notuð til að greina á milli heiðinna manna og kristinna í frumkristni á Norðurlöndum. Í fyrstu íslensku kristnilögunum er hrossakjötsát lagt að jöfnu við barnaútburð og skurðgoðadýrkun. Viðbjóður manna á hrossakjöti var svo mikill að það eitt að handfjatla eða nýta sér hrossaslátur, án þess þó að borða það, var illa séð.

Staða hestsins sem mikilvægs atvinnu- og samgöngutækis hefur að líkindum enn frekar styrkt bannið gegn hrossakjötsátinu. En hér á landi gegndi hesturinn mikilvægu hlutverki bæði við vinnu og flutninga allt fram á 20. öld.

Til marks um það hve strangt forboðið gegn hrossakjötsáti var, má nefna að á 18. öld þegar tíðir harðindakaflar gengu yfir landið, töldu margir kirkjunnar menn að neyð fólks og hungur nægði ekki sem afsökun fyrir neyslu hrossakjöts. Í einum ákafasta harðindakafla 18. aldar, sem stóð yfir á árunum 1754–1758, neyddust sumir landsmenn til að leggja sér hrossakjöt til munns. Í bók sinni Mannfækkun af hallærum tilfærir Hannes Finnsson Skálholtsbiskup dæmi um hrossakjötsát landsmanna, í sömu andrá og hann getur um fjölgun þjófnaða. Þrátt fyrir neyð almennings, var andúðin á hrossakjötsáti það sterk og neysla þess talin svo stór siðferðisbrestur að mörgum prestum landsins stóð ekki á sama. Þeim bar að halda guðsorði og góðum siðum að almenningi og þó neyðin væri mikil var hrossakjötsátið svo alvarlegt afbrot að það var ekki látið óátalið.



Um miðja 18. öldina fóru yfirvöld trúmála í danska konungsveldinu, sem Ísland var þá hluti af, að sýna merki um tilslakanir á banni við neyslu hrosskjöts. Kirkjustjórnarráðið í Kaupmannahöfn gaf út þá yfirlýsingu árið 1757 að hrossakjötsát í neyð væri ekki brot og því ekki refsivert. Á svipaðan streng hafði Hólabiskupinn Gísli Magnússon slegið árið 1756 er hann hélt því fram í bréfi að hann teldi hrossakjötsátið vera ólíðandi að nauðsynjalausu, en vildi þó ekki meina að í því fælust ekki nein kristnispjöll. Vandamálið væri hin almenna hneykslun sem af átinu hlytist. Samkvæmt þessu var ástæða bannsins, að mati Gísla, ekki lengur sú að það væri brot gegn kristni heldur er almenn andúð á því tilgreind sem ástæða.

Árið 1775 setti Magnús Ketilsson sýslumaður í Dalasýslu fram þá skoðun, á síðum tímaritsins Islandske Maanedestidende, að rétt væri að landsmenn hagnýttu sér sláturafurðir af hrossum. Hann vildi þó ekki að menn leggðu sér hrosskjöt til munns heldur nýttu fituna sem ljósmeti. Sem röksemd fyrir skoðun sinni notaði Magnús meðal annars fjölgun hrossa í landinu úr hófi fram. Að auki taldi hann að enginn gæti með réttri samvisku álasað hungruðum fyrir hrossakjötsát. Nauðsyn bryti lög. Þó Magnús tæki ekki skrefið til fulls ollu skrif hans hörðum deilum, jafnvel þó hann legðist sjálfur gegn nauðsynjalausri neyslu hrossakjöts.

Um aldamótin 1800 virðist sem tekið hafi að draga verulega úr andúð fólks á hrossakjötsáti. Kann það að vera að einhverju leyti tilkomið vegna skrifa Magnúsar Ketilssonar, en einnig var þá orðið alkunna að hrossakjöt þætti herramannsmatur í Danmörku. Árið 1808 tók Magnús Stephensen dómstjóri upp þráðinn í hrossakjötsumræðunni. Hann gekk lengra en Magnús Ketilsson hafði áður gert. Magnús Stephensen mælti opinberlega með hrossakjötsáti og gerði einnig um það tillögur. Þær miðuðu að vísu aðallega að því að „troða” hrossakjötinu í fanga og ómaga, en einnig vildi Magnús vekja athygli almennings á því. Á þessum tíma voru harðindi á Íslandi og siglingateppa en þrátt fyrir það mæltust þessar hugmyndir dómstjórans almennt illa fyrir og uppskar hann fyrirlitningu og háð margra samlanda sinna. Óbeit á hrossakjöti lifði fram eftir 19. öld, og jafnvel lengur, meðal stórs hluta landsmanna þó að trúarlegar ástæður hafi ekki lengur verið til staðar.

Frekara lesefni á Vísindavefnum:

Heimildir:
  • Gunnar Sveinsson: „Rökræður Íslendinga fyrr á öldum um hrossakjötsát.” Skírnir. Tímarit hins íslenska bókmenntafélags. 136. árg. (1962). Ritstjóri Halldór Halldórsson. Reykjavík.
  • Hannes Finnsson: Mannfækkun af hallærum. Jón Eyþórsson og Jóhannes Nordal sáu um útgáfuna. Almenna bókafélagið. Reykjavík 1970.
  • Islandske Maanedestidende. 2. árg. (mars 1775).
  • Magnús Ketilsson: Heiðnir éta hrossakjöt. Hrappsey 1776.
  • Magnús Ketilsson: „Hestabit er hagabót.” Stutt ágrip um íölu búfjár í haga með litlum viðbætir um hrossaslátur og þess nytsemi. Hrappsey 1776.
  • Þorvaldur Thoroddsen: Lýsing Íslands. IV bindi. Hið íslenska bókmenntafélag. Kaupmannahöfn 1919.

Mynd:...