Frægð Bermúdaþríhyrningsins byggist á því að þar hafa mörg farartæki, bæði skip og flugvélar farist, oft án vísbendinga um afdrif þeirra. Ýmsar skýringar hafa verið settar fram um þessi hvörf og þá stundum tengdar einhverjum yfirnáttúrlegum atburðum eða kröftum. Jarðbundnari skýringar gera hins vegar ráð fyrir að það sé náttúran sjálf eða mannleg mistök sem eiga sök að máli. Nánar er fjallað um það í svari við spurningunni Hvað er Bermúdaþríhyrningurinn?
Það er langt því frá að öll skip sem sigla inn í Bermúdaþríhyrninginn hverfi og komi aldrei aftur. Í rauninni er mjög mikil umferð skipa á þessu svæði, flutningaskip á leið til hafna í Evrópu, Ameríku eða á Karíbahafseyjum, auk skemmtiferðaskipa og minni báta. Einnig er töluverð flugumferð yfir svæðið, vélar á leiðinni milli Norður- og Suður-Ameríku eða til eyja í Karíbahafinu. Miðað við þann fjölda farartækja sem fer um Bermúdaþríhyrninginn á degi hverjum hefur verið bent á að tíðni slysa þar sem skip eða flugvélar farast, sé ekki hlutfallslega meiri á þessu svæði en mörgum öðrum. Vísindavefnum tókst þó ekki að hafa upp á tölum til að sannreyna það, en hitt er víst að langflest þau farartæki sem fara um Bermúdaþríhyrninginn, hvort sem er á sjó eða í lofti, skila sér á áfangastað án nokkurra vandræða. Heimildir og mynd:
- Bermuda Triangle. Skoðað 26. 10. 2009.
- Bermuda Triangle á Encyclopædia Britannica Online. Skoðað 26. 10. 2009.