Hreindýramosinn dregur nafn sitt af því að vera í nokkru uppáhaldi hjá hreindýrum. Fléttur eru ríkar af kolvetnum en innihalda lítið af prótínum. Fléttur eru sambýli svepps og þörunga. Samkvæmt skilningi líffræðinnar tilheyra þær svepparíkinu en það sérstaka við þær er sambýlið við þörungana sem gerir þær frumbjarga og þess vegna ólíka öðrum sveppum. Sumar fléttur mynda sérstök efnasambönd sem kallast fléttusýrur. Menn hafa hagnýtt sér nokkrar þeirra, til dæmis til litunar og til lækninga. Hreindýramosinn seytir fléttusýru sem hindrar vöxt plantna sem vaxa í nágrenni við hann. Þannig fær hann forskot í samkeppni við aðrar plöntur um pláss og sólarljós. Orðið flétta var fyrst notað í íslensku yfir sveppi sem mynda sambýli við þörunga árið 1906. Fram að þeim tíma hafði almenningur ekki gert greinarmun á fléttum og mosum. Flétturnar voru þess vegna yfirleitt kallaðir mosar. Þess vegna nefnist runnafléttan Cladonia rangiferina hreindýramosi á íslensku. Á Vísindavefnum er hægt að lesa meira um hreindýramosa og fléttur í svörum við spurningunum Hver er munurinn á fléttum og skófum? Eru skófir fléttur? og Hvað getið þið sagt mér um fléttur? Þetta svar byggir á fyrrnefndum svörum. Mynd:
- blog.is. Sótt 10.9.2009.