Vera má að hægt sé að nota risahvönnina til matar eftir þurrkun eða suðu en höfundur kannast ekki við það úr heimildum og telur ólíklegt að það sé gert á Vesturlöndum. Í öllu falli skyldi forðast að bera hana að vörum sér ferska. Fyrir nokkrum árum birtust fréttir ásamt myndum í dönskum dagblöðum af seinheppnum Roskilde-festival gestum sem gerðu sér hasspípu úr risahvönn sem óx í grenndinni. Þurftu þeir að ganga með plástraðar varir lengi á eftir, því plöntusafinn olli ljótum sárum á vörum og víðar í andlitinu. Á myndinni hér til hliðar sjást brunasár á fæti af völdum risahvannar. Ef til vill er hægt að finna heimildir um notkun risahvannar við matseld í austur-evrópskum eða asískum ritum. Fræ risahvannar eru eitthvað notuð sem krydd í Asíu, til dæmis í Íran. Hægt er að lesa meira um hvönn á Vísindavefnum í svörum við spurningunum:
- Hvers vegna vex svona mikil hvönn í kringum fyrrum mannabústaði í Aðalvík og á Hornströndum? eftir Arnlín Óladóttur
- Er ætihvönn góð sem grasalyf og ef svo er, hvernig er hún þá matreidd? eftir Sigmund Guðbjarnason
- Getur hvönn valdið uppblæstri? eftir Þóru Ellen Þórhallsdóttur
- Náttúrustofa Vesturlands. Sótt 9. 10.2009.
- Giant hogweed (Heracleum mantegazzianum). Sótt 12.10.2009.
Í heild hljóðaði spurningin svona:
Er hægt að nota stilka risahvannar í mat, líkt og ætihvannar? Samanber sjóða stilkbúta í vatni og hella síðan yfir þá súsætum vökva.