Sömu refsingu varðar það að ginna, hvetja eða aðstoða barn yngra en 18 ára til vændis. Sömu refsingu varðar það einnig að stuðla að því að nokkur maður flytji úr landi eða til landsins í því skyni að hann stundi vændi sér til viðurværis. Hver sem stuðlar að því með ginningum, hvatningum eða milligöngu að aðrir hafi samræði eða önnur kynferðismök gegn greiðslu eða hefur tekjur af vændi annarra, svo sem með útleigu húsnæðis eða öðru, skal sæta fangelsi allt að 4 árum en sektum eða fangelsi allt að 1 ári ef málsbætur eru. Hver sem í opinberri auglýsingu býður fram, miðlar eða óskar eftir kynmökum við annan mann gegn greiðslu skal sæta sektum eða fangelsi allt að 6 mánuðum.Lögin kveða því á um að ólöglegt sé að kaupa vændi auk þess sem það er ólöglegt að hafa atvinnu sína eða viðurværi af vændi annarra. Með þessu eru kaup á vændi og aðkoma þriðja aðila gerð ólögleg en vændið sjálft er ekki ólöglegt. Kaup á kynlífsþjónustu af barni varðar þyngri refsingu samkvæmt ákvæðinu.
Sú aðferð að gera kaup á vændi ólögleg byggir á því sem kallast „sænska leiðin“ og vísar til þess að Svíar breyttu hegningarlögum sínum í þessa veru árið 1998, fyrstir þjóða. Norðmenn fetuðu í fótspor þeirra árið 2008 og Íslendingar komu svo í kjölfarið með því að lögfesta þessa leið vorið 2009. Í greinargerð með frumvarpinu sem varð að lögum er farið yfir þau rök sem liggja að baki sænsku leiðinni og segir þar meðal annars að
hlutverk löggjafans [sé] að sporna við sölu á kynlífi, enda sé ekki ásættanlegt að líta á mannslíkamann sem söluvöru. Einnig er gengið út frá því að ábyrgðin af viðskiptunum hvíli á herðum kaupandans en ekki seljandans, enda sé aðstöðumunur þeirra ævinlega mikill. Loks er litið svo á að það sé kaupandinn sem í krafti peninganna hafi eiginlegt val um að kaupa eða kaupa ekki, enda staða hans í langflestum tilvikum miklum mun sterkari en staða þess sem selur aðgang að líkama sínum til kynlífsathafna.Sú gagnrýni hefur hins vegar heyrst á sænsku leiðina að með því að gera kaup á vændi refsiverð sé aukin hætta á að vændi færist neðanjarðar og að aukin harka færist í vændisheiminn. Þá hefur einnig verið bent á að bannið nái síður til þess sem er kallað „fínna vændi“ og fyrirfinnst síður á götunum.1 Sú breyting að gera kaup á vændi refsiverð var eins og áður sagði gerð árið 2009 en 206. gr. hegningarlaganna hafði einnig verið breytt töluvert árið 2007. Þá var gerð sú meginbreyting að sala vændis var ekki lengur refsiverð en við því hafði áður legið allt að tveggja ára refsing. Ísland var á þeim tímapunkti orðið eitt Norðurlanda sem bannaði sölu vændis. Aðkoma þriðja aðila var aftur á móti áfram refsiverð. Frá og með þeim tímapunkti að breytingarnar árið 2007 voru lögfestar og fram að því þegar kaup á vændi voru gerð refsiverð árið 2009 voru því kaup og sala á vændi refsilaus. Réttarstaðan hefur því breyst nokkuð hratt. Fram til ársins 2007 var sala vændis ólögleg, frá 2007-9 var hvorki kaup né sala refsiverð en frá og með 2009 var sala vændis gerð refsiverð. Tíðar breytingar á þessu lagaumhverfi koma til af ýmsum ástæðum, meðal annars vegna þess að ný viðhorf hafa rutt sér til rúms á þessu sviði. Í greinargerð með frumvarpinu frá 2007, þegar sala á vændi var gerð refsilaus, er fjallað um þetta og segir þar meðal annars:
Í öðru lagi er það sjónarmið, sem vegur mun þyngra, að þeir sem hafi viðurværi sitt af sölu kynlífs séu í flestum tilvikum illa settir andlega, líkamlega og félagslega. Þeir séu yfirleitt þolendur sjálfir, t.d. vegna fátæktar, fíkniefnaneyslu eða kynferðislegrar misnotkunar (samkvæmt upplýsingum Stígamóta hafa 65–85% kvenna sem stunda vændi orðið fyrir einhvers konar kynferðislegu ofbeldi). Þessi afstaða byggist á því sjónarmiði að vændi tengist alltaf neyð og því sé nær að veita seljanda félagslega, læknisfræðilega og fjárhagslega aðstoð í stað þess að refsa honum.Ljóst er því að ýmsar hliðar eru á þessu máli en núgildandi löggjöf kveður á um að óheimilt sé að kaupa vændi. Um siðferðishliðar vændis er hægt að lesa meira í svari Gísla Hrafns Atlasonar við spurningunni Er vændi siðferðilega rangt eða ekki?
Îtarefni:
- Breytingarnar frá 2006-7: http://www.althingi.is/altext/133/s/0020.html
- Breytingarnar frá því í vor: http://www.althingi.is/altext/136/s/0583.htmll
- KCBS. Sótt 29.9.2009.